Tryggvi Helgason
Tryggvi Helgason
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.is Offita er vaxandi heilbrigðisvandamál á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Heilsa og líðan sem gerð var á vegum Embættis landlæknis mældust um 27% fullorðinna karla hér á landi með offitu árið 2022, sem er umtalsvert hærra hlutfall en árið 2007 þegar það stóð í 19%. Þá hefur hlutfalll fullorðinna kvenna með offitu hækkað úr 21% í 29% á sama tímabili.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Offita er vaxandi heilbrigðisvandamál á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Heilsa og líðan sem gerð var á vegum Embættis landlæknis mældust um 27% fullorðinna karla hér á landi með offitu árið 2022, sem er umtalsvert hærra hlutfall en árið 2007 þegar það stóð í 19%. Þá hefur hlutfalll fullorðinna kvenna með offitu hækkað úr 21% í 29% á sama tímabili.

Árlegar skimanir fyrir frávikum á vaxtarlínuriti hjá börnum í 1., 4., 7. og 9. bekk sýna jafnframt að hlutfall barna með offitu hefur hækkað úr 5% í 7% undanfarinn áratug. Þá hefur hlutfall barna sem eru yfir kjörþyngd hækkað úr 21% í 25%, og hlutfall barna í kjörþyngd lækkað úr 78% í 74%.

Tryggvi Helgason, læknir hjá Barnaspítala Hringsins og sérfræðingur í offitu barna, telur þróunina varhugaverða þó hún komi að vísu ekki á óvart. Við þessu hafi læknar varað og hvatt til aðgerða.

Í dag er alþjóðlegi offitudagurinn. Offita er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem yfir milljarður manna um allan heim glímir við. Sjúkdómurinn getur leitt til skerðingar á lífsgæðum og margvíslegra sjúkdóma. Orsakirnar eru samspil líffræðilegra þátta, erfða, atferlis, félagslegra og umhverfisþátta.

„Í rauninni er þetta þróun á samfélaginu öllu sem veldur í heildina þessari stöðu í öllum heiminum. Við erum að færast úr því að nærast á sjálfbæran hátt í að vera meira í unnum matvælum og meira af tilbúnum mat. Á sama tíma er krafa um hreyfingu að minnka í vinnu og krafa um kyrrsetu í afþreyingu að aukast mjög mikið,“ segir Tryggvi.

„Ef við viljum snúa þessari þróun við þá þarf mjög stórar aðgerðir á landsvísu. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, það er alveg á hreinu. Það er ekki mjög góð stefna sem við erum á að auka alltaf við þann fjölda sem er með offitu.“

Þó verkefnið sé stórt er það ekki óyfirstíganlegt og segir Tryggvi vel hægt að snúa þróuninni við á Íslandi, þar sem smæð samfélagsins vinni með okkur.

Hann segir vitneskjuna um hvað þurfi að gera til að sporna við þessari þróun til staðar í lýðheilsuheiminum. „En það er alltaf svolítið erfitt að gera þær þegar það er á kostnað matariðnaðarins eða afþreyingariðnaðarins. Það er fyrst og fremst pólitískur vilji sem þarf til að gera mest af þeim aðgerðum sem þarf að gera til þess að snúa þróuninni við.“

Líffræðin vanmetin

Undanfarin ár hefur vitneskja í heilbrigðisgeiranum um offitu tekið miklum framförum. Í marga áratugi hefur hlutverk líffræðinnar til að mynda verið vanmetið í tengslum við hvað það er sem veldur offitu, að sögn Tryggva.

„Allt of lengi hefur verið talað um að það sé eitthvað annað en líffræði sem við erum að sjá betur og betur sem grunnvandamálið í því hverjir fá offitu og hverjir ekki. Það eru líffræðilegar orsakir fyrir offitu og svo samfélagslegir áhættuþættir.“

Hefur þessi nýja þekking í læknaheiminum m.a. leitt af sér lyf á borð við Ozempic sem hjálpar einstaklingum með offitu.

Í nóvember árið 2021 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp um offitu, holdafar, heilsufar og líðan. Tryggvi er einn af sjö sem skipa starfshópinn. „Við erum búin að taka saman ráðleggingar og hugmyndir sem hægt er að vinna með, alveg frá forvarnarstigi og upp í þriðja stigs meðferð á þeim sem eru komnir með offitu á háu stigi og þurfa meðferð.“