Dunhagi 18-20 Leikskólinn verður innréttaður í verslunarrýminu á 1. hæð og íbúðum baka til sem eru í svörtum lit.
Dunhagi 18-20 Leikskólinn verður innréttaður í verslunarrýminu á 1. hæð og íbúðum baka til sem eru í svörtum lit. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Reykjavíkurborg áformar að opna leikskóla á 1. hæð fjölbýlishússins Dunhagi 18-20. Fyrirspurn um málið var vísað til meðferðar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reykjavíkurborg áformar að opna leikskóla á 1. hæð fjölbýlishússins Dunhagi 18-20. Fyrirspurn um málið var vísað til meðferðar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.

Það eru THG arkitektar sem sendu inn fyrirspurnina fyrir hönd skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg. Þar kemur fram að í húsinu Dunhaga 18-20 sé nú samtals 21 íbúð, á 2.-4. hæð og viðbyggingu baka til, og verslunarrými á 1. hæð.

Til að mæta brýnni þörf foreldra í Vesturbænum sé Reykjavíkurborg nú að kanna fýsileika þess að setja leikskóla á 1. hæð og báðar hæðir í viðbyggingu garðmegin. Íbúðum myndi því fækka um þrjár því ekki yrðu íbúðir í viðbyggingunni og verslunarrými á 1. hæð yrði aflagt.

Um yrði að ræða fjögurra deilda leikskóla fyrir 60-72 börn frá 12 mánaða aldri. Endanlegur fjöldi verði háður aldurssamsetningu barnahópsins.

Leiksvæði, sem er á borgarlandi norðvestan við húsið, verður leiksvæði skólans og endurhannað sem slíkt. Það verði áfram opið íbúum hverfisins á þeim tíma sem leikskólinn er lokaður.

Öryggi barna verði tryggt

Aðalinngangur leikskólans verður frá Dunhaga. Umferðarflæði verður í kringum húsið en stýrt þannig að sett verður upp afmörkuð gönguleið frá leikskóla yfir akstursleið á lóð, með hliðum sem opna fyrir umferð gangandi og loka þá fyrir akstur bíla, og öfugt. Þetta er gert til að tryggja öryggi barna á göngu til og frá leikvelli.

Bílastæðum á lóð fækkar úr 15 í 13 en til að bæta upp þá fækkun mun Reykjavíkurborg bæta við 5-6 bílastæðum í borgarlandi fyrir framan húsið, sem nýtast munu einnig íbúum í nágrenninu.

Dunhagi 18-20 var upphaflega steinsteypt, þrílyft fjölbýlis- og verslunarhús í módernískum stíl, hannað af Þóri Baldvinssyni arkitekt. Verktakafyrirtækið Fjallhagi hf. byggði húsið árið 1959. Auk kjörbúðar KRON (Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, sáluga) hafa m.a. verið í húsinu fiskbúðin Fiskihöllin, gardínu- og vefnaðarvöruverslunin Perlon auk þess sem Framsóknarflokkurinn hafði þar kosningaskrifstofu um tíma.

Húsið var komið í niðurníðslu og þarfnaðist mikilla endurbóta. Fjárfestar eignuðust húsið 2018 og framkvæmdir hófust í ársbyrjun 2021. Allt var endurnýjað í húsinu og m.a. settar á það nýjar svalir. Segja má að húsið sé óþekkjanlegt frá fyrri tíð.

Vel gekk að selja íbúðir en verslunarrýmin á 1. hæð eru óseld. Nú verða þau nýtt, gangi áformin eftir.

Fordæmi eru fyrir því að reka leikskóla í fjölbýlishúsum. Borgarráð samþykkti árið 2021 leigusamning vegna húsnæðis fyrir leikskóla á jarðhæð fjölbýlishússins Bríetartúns 11. Bríetartún 9-11 er 94 íbúða fjölbýlishús á sjö og tólf hæðum.