Frumsmíðin Einar Mikael með þá fyrstu, Patreksfjarðarkirkju.
Frumsmíðin Einar Mikael með þá fyrstu, Patreksfjarðarkirkju.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Ég er í grunninn lærður húsasmiður en síðan gerðist ég töframaður. Mér fannst mig vanta nútímatöfrasprota til að taka hugvitið áfram og setja það í raunveruleikann, skapa eitthvað fallegt. Þess vegna fékk ég áhuga á þrívíddarprentun,“ segir Einar Mikael töframaður, sem nú hefur vart undan að taka við óskum um að gera líkön af kirkjum landsins með þrívíddarprentara.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Ég er í grunninn lærður húsasmiður en síðan gerðist ég töframaður. Mér fannst mig vanta nútímatöfrasprota til að taka hugvitið áfram og setja það í raunveruleikann, skapa eitthvað fallegt. Þess vegna fékk ég áhuga á þrívíddarprentun,“ segir Einar Mikael töframaður, sem nú hefur vart undan að taka við óskum um að gera líkön af kirkjum landsins með þrívíddarprentara.

Einar er búinn að gera líkön af 45 íslenskum kirkjum og í sumum tilvikum mörg eintök af sömu kirkjunni. Ævintýrið byrjaði fyrir rúmu einu ári þegar Einar var beðinn að gera eftirmynd af kirkjunni á Patreksfirði, en þar hefur Einar búið undanfarið, eða í Patreksborg í Bestubyggð eins og hann kýs að orða það svo skemmtilega.

Fór fljótt að vinda upp á sig

„Ég kann ekki að teikna í einhverju forriti og ákvað að láta vaða. Safnaði að mér myndum af Patreksfjarðarkirkju og byrjaði að prenta. Kirkjan heppnaðist bara nokkuð vel og eftir þetta fór málið að vinda upp á sig,“ segir Einar sem fór að fá óskir um að prenta fleiri kirkjur, eins og Landakirkju í Eyjum, Hallgrímskirkju o.fl. Snjóboltinn fór því af stað, sem fyrr segir er hann búinn að prenta út líkön af 45 mismunandi kirkjum.

„Mér skilst að það standi uppi um 350 kirkjur í landinu þannig að það er nóg eftir,“ bætir Einar við. „Þegar maður heldur á svona handverki þá kemur vel í ljós hvað við eigum margar fallegar kirkjur alls staðar í kringum okkur, en tökum kannski ekki eftir þeim. Þetta er handverk á heimsmælikvarða um allt land,“ segir hann.

Einar er með mjög öflugan þrívíddarprentara, sem prentar út hluta af hverri kirkju og hann síðan setur þær saman. Efnið er úr harðgeru og endingargóðu plasti. Hann segir mestan vanda liggja í að gera kirkjurnar í réttum litum og stærðarhlutföllum. Einnig setur hann spiladós og ljós inn í hverja kirkju, þegar búið er að setja þær saman.

„Þetta er eins og að eiga góðan töfrasprota sem getur látið eitthvað birtast sem maður býr til,“ segir Einar en hann tekur við pöntunum á kirkjum gegnum Facebook-síðu sína. Venjulega tekur það hann 3-5 daga að gera eina kirkju en nú er eftirspurnin það mikil að afhendingartími er 5-6 vikur. Vinnan orðin slík að hann segist þurfa aðstoð.

Einar er sem kunnugt er þekktur fyrir að sýna töfrabrögð. Hann er ekkert hættur í þeim bransa og er með á prjónunum sýningarferðalag um landið í sumar í tilefni þess að 15 ár eru liðin síðan hann hóf að sýna töfrabrögð opinberlega.

„Ég er búinn að vera á Vestfjörðum undanfarin fimm ár og síðustu tvö ár á Patreksfirði. Ég elska lífið hérna, upplifi mig sem hluta af samfélaginu og mér hefur verið tekið opnum örmum,“ segir Einar Mikael, töframaður og kirkjusmiður, að endingu.