40 ára Inga Guðlaug er fædd og uppalin í Sandgerði. Hún gekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fór þaðan í Háskólann á Akureyri og lauk BS í sálfræði og síðan meistaraprófi í klínískri sálfræði árið 2018

40 ára Inga Guðlaug er fædd og uppalin í Sandgerði. Hún gekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fór þaðan í Háskólann á Akureyri og lauk BS í sálfræði og síðan meistaraprófi í klínískri sálfræði árið 2018. Hún hefur einnig lokið námi í EMDR og sérnámi í HAM. Lengst af hefur hún unnið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er núna yfirsálfræðingur HSS. Hún er í forsvari fyrir HSS í samræmdu áfallateymi á Suðurnesjum ásamt því að sitja í áfallateymi HSS.

„Ég flutti til Grindavíkur þegar ég var um tvítugt, en maðurinn minn er borinn og barnfæddur Grindvíkingur,“ segir hún en þau starfa hvorugt í bæjarfélaginu, en hún segir þó að Grindavík eigi huga þeirra og hjarta. „Ég hélt erindi á íbúafundi í haust og talaði þar um að það þyrfti að horfa á þetta ástand frá fyrstu skjálftavirkni fyrir gos, því þetta hófst fyrir gosið í Fagradalsfjalli, svo þetta er búið að vera langt tímabil. Grindavík er svo fallegt og gott samfélag, og sérstakt að því leyti að unga fólkið okkar hefur allt leitað aftur í bæinn, sem segir mikið um andann í bænum.“

Hún segir að ástandið frá því í nóvember hafi verið algjör rússibani fyrir íbúana og segja megi að fólk sé á mismunandi stað í sorgarferli yfir stöðunni. „Við byggðum húsið okkar frá grunni í götunni þar sem hraunið fór yfir þrjú hús. Við sáum fyrir okkur að ala börnin okkar upp í bænum, og við erum ekki bara að syrgja það sem var heldur það sem átti að vera.“

Hún segir að fjölskyldan sé ekki búin að gefast upp á að flytja aftur til Grindavíkur, en segir að þau séu að huga að lausn fyrir næstu 2-3 ár og þá muni þau endurskoða stöðuna, því þau vilji flytja aftur, ef þess sé nokkur kostur.

Fjölskylda Eiginmaður Ingu er Sigurður Guðjón Gíslason, forstöðumaður hjá Íslandssjóðum, f. 1982, og þau eiga börnin Gísla Grétar, f. 2006, Helga Hróar, f. 2008 og Vilborgu Móu, f. 2015.