Kolbrún Líndal Hauksdóttir fæddist á Blönduósi 13. júlí 1957. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar á Heilbrigðisstofnunni á Selfossi eftir mjög erfið veikindi 16. febrúar 2024.

Foreldrar Kolbrúnar eru Lára Bogey Finnbogadóttir, f. 15.10. 1936, og Árni Melstað Sigurðsson, f. 18.8. 1925, d. 4.10. 2013. Blóðfaðir Haukur Líndal Eyþórsson, f. 18.10. 1929, d. 26.1. 2015. Albróðir Kolbrúnar er Svanur Líndal Hauksson, f. 2.3. 1955. Systkini samfeðra eru: Gunnlaugur Þór Hauksson, f. 31.3. 1951, Þorgeir Hauksson, f. 19.11. 1952, Eiríkur Rúnar Hauksson, f. 16.9. 1954, Hafdís Hauksdóttir, f. 11.5. 1957, Sævar Líndal Hauksson, f. 21.1. 1960, Steinar Valberg, f. 12.3. 1962, d. 8.7. 2020, og Guðmundur Ingi Hauksson, f. 2.4. 1970.

Kolbrún giftist Brynjólfi Dan, f. 30.11. 1956, 26. mars 2012 eftir 36 ára sambúð. Foreldrar hans voru Ragnheiður Brynjólfsdóttir, f. 31.10. 1930, d. 16.10. 1986, og Halldór Gíslason, f. 21.4. 1938. Þau eiga tvö börn: 1) Ragnheiður Lára, f. 30.4. 1977, gift Þresti Heiðari Erlingssyni, f. 11.11. 1970. Börn þeirra eru: Brynjólfur Birkir, f. 22.5. 1996, Kolbrún Birna Jökulrós, f. 21.4. 1999, Þórkatla Björt Sumarrós, f. 22.2. 2001, sambýlismaður Vilbergur Davíð Stefánsson, f. 23.4. 1997, Hallgerður Harpa Vetrarrós, f. 31.1. 2008, Ísleifur Eldur, f. 2.2. 2010, og Völundur Galdur, f. 17.5. 2013. 2) Emil Dan, f. 13.9. 1979, giftur Heiðrúnu Ósk Jakobínudóttur, f. 6.3. 1990. Börn þeirra eru: Árni Ragnar Dan, f. 31.10. 2013, og Inga Bryndís Dan, f. 22.2. 2015.

Kolbrún ólst upp á Blönduósi og unni alla tíð sínum æskuslóðum. Hún vann m.a. við verslunarstörf og byggingarvinnu á Blönduósi, á sláturhúsinu á Sauðárkróki og á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Árið 1989 stofnaði Kolbrún ásamt góðri vinkonu sinni, Stefaníu Ósk Stefánsdóttur, barnafataverslunina Krakkakot sem starfrækt var til ársins 1994. Árið 1995 fluttu þau hjónin á Selfoss, þá búin að stofna fyrirtækin sín Norðra og Suðra sem eru mælingarþjónustufyrirtæki. Störfuðu þau hjónin bæði við mælingar allt frá stofnun fyrirtækjanna. Undanfarin ár hefur Emil sonur þeirra unnið hjá þeim.

Útför Kolbrúnar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 4. mars 2024, kl. 13.30.

Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Minningarnar óteljandi. Þakklætið endalaust.

Já, minningarnar eru óteljandi margar og allar eru þær skemmtilegar og jákvæðar, bjartar og fallegar. Allt frá barnæsku hefur þú, elsku mamma mín, staðið með mér, eins og fjölskyldunni allri, í einu og öllu. Alltaf studdir þú mig í því sem ég tók mér fyrir hendur, treysti mér í því sem mér datt í hug að gera. Þegar mér datt í hug að raka af mér hárið 15 ára gömul og ég eitt sólskinsbros þegar þú komst heim úr vinnunni brostir þú bara líka og spurði hver hefði rakað af mér hárið. Nú, vinkonur mínar, sagði ég og þá brostir þú enn meira og sagðir svo að þetta yxi nú aftur. Já, þú varst nú ekkert að æsa þig yfir hlutunum.

Öll ferðalögin þegar við Emil vorum börn. Upp um fjöll og firnindi, niður við sjó og allt þar á milli. Það er varla til sá staður sem við systkinin höfum ekki farið á með ykkur. Hringinn í kringum landið erum við búin að fara, held að við séum búin að fara á allar bryggjur á landinu. Upp á fjöll fórum við og jöklarnir eru ekki undanskildir. Á láglendi vorum við á rauða Volvónum já eða hvíta Bensanum, á fjöllum vorum við t.d. á appelsínugula Bronconum. Alltaf jafn gaman.

Þið pabbi höfðuð unun af því að ferðast. Á veturna þegar minna var að gera í vinnunni vegna myrkurs og vetrarfærðar fóru þið að fara í ferðalög til útlanda. Til að byrja með var farið í helgarferðir, svona til nálægra landa, svokallaðar verslunarferðir eins og pabbi sagði.

Eitt skiptið þegar ég hringdi í þig að kvöldi til spurðir þú mig hvað ég héldi að þið hefðuð gert í dag. Ég sagðist ekki vita það, nú við fórum til Grænlands var þá svarið. Bara svona dagsferð, gátum hagrætt í vinnunni, sagðir þú alsæl. Síðan fóru þið að fara í lengri ferðir og til fjarlægari landa. Kínamúrinn var genginn, píramídarnir í Egyptalandi skoðaðir, það var farið á Suðurskautslandið, til Rússlands, Víetnam, Gambíu, Túnis, Ísrael, ég get haldið endalaust áfram enda löndin um fimmtíu sem þið heimsóttuð. Allar heimsálfurnar komnar í hús nema Ástralía sem var eftir en ferð þangað var á teikniborðinu. Því miður verður ekkert af henni. Já, ferðakisturnar foreldrar mínir.

Við vorum miklar vinkonur og við töluðumst við á hverjum degi. Alltaf höfðum við næg umræðuefni enda mikið að gera hjá okkur báðum og þú mjög dugleg að spyrja um fjölskylduna. Þú hugsaðir svo vel um fjölskylduna þína, hún var alltaf í fyrsta sæti. Þú varst óþreytandi að skella þér hingað norður til okkar í hvaða veðri sem var ef það var afmæli, árshátíðir hjá börnunum, til að passa ef okkur langaði á þorrablót eða hvað sem var. Svo við tölum nú ekki um þegar hvert barnabarnið fæddist af öðru þá var brunað norður til að passa hin barnabörnin. Samband þitt við öll barnabörnin þín var af einskærri ást á báða bóga, það var svo fallegt. Þú varst dugleg að hringja í þau og þau dugleg að hringja í þig til að spjalla um lífið og tilveruna.

Við munum hittast þegar minn tími kemur.

Elska þig að eilífu elsku mamma mín,

þín dóttir,

Ragnheiður Lára.

Elsku hjartans perlan mín það var svo gott að kynnast þér og safna með þér minningum, nú ertu búin að kveðja jarðlífið eftir snörp og erfið veikindi, hetjan mín.

Kolla, þú færðir mér svo óvænta hlýju í hjartað þegar þú mættir í hitting á Perlunum með bros á vör, sagðir, Sigga mín, mikið er gaman að sjá þig. Ég þekkti þig ekki en þú sagðir „ég tók við starfinu þínu þegar þú fluttir suður í ágúst 1975“. Já, Kolla mín, það gerðir þú og skilaðir með sóma eins og öllu öðru sem þú gerðir í jarðlífinu.

Eftir þetta fékk ég að sjá þig í mánaðalegum hittingi, undantekningin var þó þegar þú gerðist heimsborgari með bónda þínum. Þið fóruð í mörg lönd og álfur. Þú ljómaðir þegar þú sagðir okkur frá ferðum ykkar hjóna.

Já, Kolla mín, það er sárt að kveðja þig, fallega sál, en það geri ég með kærleik í brjósti og þakklæti fyrir allar stundir liðina ára.

Þú varst svo glöð og spennt fyrir íbúðinni ykkar á Spáni en því miður veiktist þú skyndilega og komst heim. Þig langaði að gera íbúðina að ykkar með mikilvægum breytingum en það tókst því miður ekki. En í hjarta þínu gerðist það, það nægir. Þú birtist mér í hugleiðslu í vikunni og baðst mig að skila góðri kveðju til fjölskyldu þinnar, þú sagðir að þér liði vel. Hér með geri ég það. Þú varst strax orðin yngri og laus við þjáningu. Far þú í friði, faðmur guðs þig sæki.

Elsku Lára Bogey, Brynjólfur, börn, makar, barnabörn, Svanur og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð á sorgarstundu. Bið góðan guð að gefa ykkur styrk og skilning á þessum erfiða missir. Guð blessi ykkur öll.

Sigríður Svavarsdóttir.

Elsku amma okkar.

Það er svo skrýtið að þú skulir vera dáin. Þú varst alltaf svo dugleg að koma í heimsókn í sveitina til okkar. Það var líka alltaf svo gaman. Svo komstu alltaf í réttirnar til okkar, þá vissum við að það yrði veisla. Þú stóðst eins og herforingi í hliðinu, passaðir að engin kind færi inn sem við ættum ekki. Svo varstu með fullt af góðgæti sem þú varst búin að baka. Þú passaðir vel að við yrðum ekki svöng meðan við vorum að draga lömbin og kindurnar okkar.

Við heimsóttum líka ykkur afa á Selfoss. Þá var eldað og bakað á hverjum degi og ís á kvöldin. Þú varst alltaf að passa að við værum ekki svöng. Svo löbbuðum við um allt á Selfossi. Fundum okkur leikvelli til að leika okkur og þá beiðst þú bara á meðan. Við fórum á ísrúnta og skruppum í búðir því okkur hlaut að vanta eitthvað, skó, buxur, sokka, úlpu, vettlinga. Þú varst alltaf að gefa okkur eitthvað og það var líka alltaf svo fallegt.

Þó að við værum lítil þegar við fórum til Spánar, þið afi, Emil frændi og fjölskylda og mamma og pabbi, munum við eftir því. Það var rosalega gaman. Það var svo margt skemmtilegt sem við gerðum saman. Það var svo margt sem þið afi vissuð að við gætum gert sem þið höfðuð gert áður, því þið voruð svo dugleg að ferðast saman um heiminn. Við fórum í kafbát, vestragarðinn, sundlaugagarðinn, fórum í sjóinn og endalaust fleira skemmtilegt.

En nú ertu komin á góðan stað, elsku amma okkar, þar sem þú ert hætt að vera svona mikið veik. Við vitum að þú fylgist með okkar af himnum og passar upp á okkur öll. Við skulum passa afa og langömmu og alla hina fyrir þig.

Ó, Jesús bróðir besti

og barna vinur mesti,

æ, breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

(Páll Jónsson)

Við elskum þig út af lífinu, elsku amma okkar. Ég veit að afi, langamma, mamma, pabbi og eldri systkini okkar munu hjálpa okkur að varðveita allar fallegu minningarnar okkar um þig og segja okkur skemmtilegar sögur af þér.

Hallgerður Harpa Vetrarrós, Ísleifur Eldur, Völundur Galdur.

Elsku amma, það sem við unnum greinilega í ömmulottóinu. Mikið erum við þakklát fyrir að hafa fengið þau forréttindi að hafa átt þig sem ömmu okkar. Öll vorum við heppin, öll sex börnin í Birkihlíð og svo hin litlu tvö á Skagfirðingabrautinni. Það hefði ekki skipt neinu máli þótt þú hefðir átt fjörtíu barnabörn eða bara þrjú, hjarta þitt var fullt af ást fyrir allt og alla og alltaf var tími fyrir okkur öll. Takk fyrir öll íþróttamótin, sögurnar, ferðalögin, alla skartgripina sem þú bjóst til handa okkur, minningabækurnar sem þú gafst okkur í fermingargjöf, alltaf fengum við heimatilbúin afmælis- og jólakort, við getum haldið endalaust áfram með allar dásamlegu minningarnar sem munu ylja um ókomin ár. Þú verður aldrei gleymd.

Brynjólfur Birkir,
Kolbrún Birna
Jökulrós, Þórkatla Björt Sumarrós.

Fallinn er frá mín kæra vinkona Kolla Hauks allt of snemma eftir snörp og erfið veikindi. Það var komið að starfslokum og nú átti að fara að njóta. Alveg eftir eitt æviskeið þegar þetta illa krabbamein heltók hana.

Ég kynntist Kollu fyrir um 40 árum þegar við unnum saman á deild tvö á sjúkrahúsinu á Króknum. Við náðum fljótt vel saman og urðum góðar vinkonur. Eftir ein mánaðamótin fannst okkur útborgunin heldur lág, við töluðum um að bæta úr því og gera eitthvað, t.d. að opna verslun. Það gerðum við nokkrum vikum seinna þegar við opnuðum barnafataverslunina Krakkakot. Búðina rákum við í fimm ár en unnum alltaf hvor á móti annarri hálfa vinnu á deildinni samhliða búðinni. Margar voru ferðirnar í borgina til að versla inn fyrir búðina, þá var farið af stað snemma að morgni og komið heim aftur seint að kvöldi, vorum svo mættar í vinnuna snemma að morgni daginn eftir, önnur á deildina og hin í búðina, báðar með heimili og börn. Þetta tímabil var oft ansi klikkað en þó skemmtilegt og við urðum enn nánari í öllu þessu brasi.

Það var gott að vera í návist Kollu, hún hafði góða nærveru, var afskaplega trygg og trú, sönn bæði í orði og verki, ljúf og mild en harðdugleg og sterk. Hún var bæði hress og skemmtileg, og það var gaman að skemmta sér með henni. Ég fór í mína fyrstu utanlandsferð með henni þegar við héldum til Amsterdam í helgarferð. Þar hittum við óvænt aðra Skagfirðinga og slógumst í hópinn með þeim sem skemmdi ekki fyrir. Okkur fannst alltaf eins og við ættum eftir að bralla eitthvað saman. Það kemur að því að við hittumst aftur og þá tökum við upp þráðinn.

Kolla og Binni fluttu suður 1994 og þá lokuðum við búðinni en vorum samt alltaf í sambandi og heimsóttum hvor aðra. Þrennt var þó hamlandi síðustu ár, fjarlægðin, veikindi hjá mínum manni og covid. Þá var síminn notaður og símtölin voru þá oftast nær mjög löng. Við hittumst síðast í desember þegar við hjónin skruppum suður á Selfoss til Kollu og Binna. Þá var hún orðin mjög veik og vissi ég að þetta væri í síðasta skiptið sem ég fengi að knúsa hana. Við áttum góða stund saman með þeim og hún bar sig vel eins og alltaf.

Mikið sem ég á eftir að sakna hennar en þá er gott að eiga góða minningar um kæra vinkonu og á ég þær ófáar og allar góðar. Kolla bar mikla umhyggju fyrir fjölskyldunni sinni, þar var hún kletturinn þeirra og er missirinn mikill og sár. Ég sendi fjölskyldu hennar og ástvinum öllum mína dýpstu samúð.

Það er komið að leiðarlokum elsku vinkona, ég sendi þér fallega ljóðið sem þú gafst mér skrautskrifað og innrammað þegar ég varð fertug.

Sem gull í öskjum góðir eru vinir,

þeir geymast, þó ei stöðugt lítum þá

og ávallt verða öðruvísi en hinir,

sem aðeins muna dveljum við þeim hjá.

Það fellur ei á gullið þó að geymist,

þó „goð“ má aldrei verða neinni sál.

Og sannur vinur geymist, en ei gleymist,

því göfgin sanna reynist aldrei tál.

(Höf. ók.)

Elsku Kolla mín, þakklæti er mér efst í huga fyrir að hafa átt vináttu þína. Þú varst einstök manneskja. Hvíldu í friði.

Þín vinkona, Stefa.

Stefanía.

Kallið er komið, Kolla vinkona okkar hefur verið kölluð þangað sem leið okkar allra liggur. Fyrir nítján árum lágu leiðir okkar saman er við Bjarki Már fluttum í Jórutúnið og eignuðumst bestu nágranna sem hægt er að hugsa sér, þau Kollu og Binna. Í gegnum árin þróaðist vinskapur okkar sem aldrei bar skugga á. Upp í hugann koma margar minningar, Kolla elskaði að hafa falleg blóm í kringum sig og oft var tekið spjall og fengið sér kaffi á fína pallinum hennar eða í okkar garði þar sem við dáðumst að fuglasöngnum og sögðum að núna væru fuglarnir að þakka okkur fyrir matargjafirnar yfir veturinn.

Traust, trygglyndi, hjartahlýja og velvilji eru orð sem koma fyrst upp í hugann þegar við hugsum til Kollu, en ef við myndum ætla telja upp alla þá kosti sem hún bar, þá yrði það langt mál.

Kolla var einstök. Alltaf passaði hún að allt væri í lagi hjá okkur ef við brugðum okkur af bæ. Það kom stundum fyrir að bjarga þurfti blómum, ruslatunnum eða þvotti en það gerði hún fyrir okkur óbeðin, með bros á vör. Fyrir ekki margt löngu sagði Kolla: „Kristín mín, það er ljós hjá þér svo lengi fram eftir, þú verður að passa að fá meiri svefn.‘‘ Svona var vinkonu okkar umhugað um okkur. Dýrmætar minningar um vin eins og Kollu geymir maður í hjarta sínu ævilangt og þakkar fyrir samferðina þau ár sem við fengum saman.

Kolla elskaði að ferðast og ferðuðust þau hjónin um allan heim og söfnuðu góðum minningum í minningabankann. Fjölskyldan og barnabörnin áttu hug og hjarta Kollu og ljómaði hún alltaf þegar hún talaði um þau. Missir þeirra er mikill. Með æðruleysi tókst Kolla á við veikindi sín svo aðdáunarvert var, komin er kveðjustund. Við vottum Brynjólfi og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð, megi minningin um fallegu Kollu verma hjarta okkar allra.

Kristín Hafsteinsdóttir, Bjarki Már Magnússon.