Þorvaldur Stefánsson fæddist á Norður-Reykjum í Hálsasveit í Borgarfirði 15. júlí 1932. Hann lést á Landspítalanum 17. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Stefán Þorvaldsson, bóndi á Norður-Reykjum, fæddur í Hægindi í Reykholtsdal 24. júní 1892, d. 28. október 1971, og Sigurborg Guðmundsdóttir, uppalin í Hergilsey á Breiðafirði, f. 24. september 1899, d. 5. ágúst 1978. Þorvaldur var þriðji í röðinni af sex systkinum. Systkini hans eru: Jódís, f. 31. október 1927, d. 27. september 2009, Guðríður f. 3. desember 1930, d. 9. mars 2019, Guðrún Sigríður, f. 30. mars 1935, d. 25. september 2019, Snæbjörn, f. 14. ágúst 1936, d. 5. janúar 2006, og Þórður, f. 15. október 1939, búsettur á Arnheiðarstöðum sem er nýbýli út frá Norður-Reykjum, kona hans er Þórunn Reykdal.

Eignkona Þorvaldar var Sveinbjörg I. Jónsdóttir, alltaf kölluð Anný, fæddist í Reykjavík 31. júlí 1944, d. 3. febrúar 2014. Þau kynntust í Borgarfirðinum árið 1960 en þau bjuggu lengst af í Breiðholtinu eða frá árinu 1970.

Valdi og Anný eignuðust fimm börn, þau eru: 1) Stefán, f. 20. september 1962, maki Anna Friðbertsdóttir og eiga þau sex börn og sjö barnabörn; 2) Júlíana, f. 5. júní 1964, maki Gísli Jónsson og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn; 3) Hrund, f. 16. maí 1967, á hún tvö börn og tvö barnabörn; 4) Sigurborg, f. 3. febrúar 1969, maki Agnar Norðfjörð Hafsteinsson og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn; 5) Þórdís, f. 13. september 1972, maki Guðjón Þór Ólafsson og eiga þau fimm börn og fimm barnabörn.

Valdi starfaði ungur við sjómennsku og sem bílstjóri stóran hluta starfsævinnar eða frá árinu 1963 fyrir ýmis fyrirtæki og lengst af fyrir verktakafyrirtækið Miðfell og síðar hjá Dalverki. Hann var mikill bílaáhugamaður og keyrði nánast fram undir það síðasta. Þau Anný ferðuðust alla tíð mikið um landið og oftast voru það ótroðnar slóðir sem heilluðu, hálendið og afskekktir staðir á Vestfjörðum og Ströndum.

Útför Valda fer fram í Fella- og Hólakirkju í dag, 4. mars 2024, kl. 13.

Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Sá dagur sem ég hef kviðið sem hvað mest fyrir er runninn upp nú þegar afi hefur kvatt okkur.

Hann var ekki bara afi heldur var hann föðurímyndin mín. Hann var algjör töffari, þrjóskur, fyndin og einstakur. Afi kunni allt og gat allt. Bíladellan mín kemur frá honum. Föstudagar voru okkar dagar þegar ég var lítill, þá sótti hann mig snemma á leikskólann og við vorum að snúast saman.

Afi var líka maðurinn sem var ekki mikið fyrir hunda en svo bættist Amíra inní fjölskylduna og þau sáu ekki sólina hvort fyrir öðru. Þau áttuð einstakt samband sem engin skildi.

Ég elskaði sambandið ykkar Þrastar. Hann treysti bara Þresti fyrir að laga bílinn fyrir sig. Þeir voru góðir vinir.

Hvíldu í friði elsku afi.

Þín afastelpa,

Anný Dögg.

Við Valdi mágur minn og vinur áttum samleið í yfir 60 ár. Þegar hann og Anný systir fóru að draga sig saman var ég unglingur sem tók honum með ákveðnum fyrirvara en mér fannst hann of gamall fyrir systur mína. En fljótlega hætti ég að taka eftir þessum aldursmun þar sem þau voru ástfangin og samstiga í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau eignuðust fimm mannvænleg börn á tíu árum sem öll eru bráðdugleg, hæfileikarík og reglusöm og bera foreldrum sínum gott vitni. Þau hjónin voru afar samhent og voru ferðalög þeim hugleikin og ferðuðust þau um landið þvert og endilangt með hópinn sinn á Rússa-jeppanum sem hann hafði breytti og bætti sjálfur, enda handlaginn og vandvirkur. En Valdi gat gert við allt og var ég ein þeirra sem naut góðs af því í ríkum mæli og ef aðstoða þurfti við flutninga var hann alltaf mættur með kerruna sína og gekk í verkin því hann var bón- og úrræðagóður.

Þrátt fyrir að vinna alltaf langan vinnudag þá var hann merkilega sjálfbjarga á heimilinu miðað við marga kynbræður sína af sömu kynslóð og þegar á þurfti að halda fór hann langt á vöfflubakstri. Hann var mikill fjölskyldumaður og taldi ekki eftir sér að snúast í kringum barnabörnin sín fjórtán og sagði með votti af söknuði að hann hefði ekki haft þennan tíma þegar hans börn voru að alast upp en þau gátu öll stólað á pabba sinn.

Þegar Anný systir greindist með krabbamein var hann kletturinn við hlið hennar í þeirri glímu sem tapaðist fyrir tíu árum og í kjölfarið varð hann vængbrotinn og fannst tilgangurinn stundum harla lítill. En hélt áfram, flutti sig úr stað og naut stuðnings og samvista við börnin og barnabörnin.

Hann hélt sjálfur heimili fram í andlátið, lagði inn ökuskírteinið fyrir einu ári að eigin frumkvæði og hélt skerpunni sem sterkar skoðanir á þjóðmálum sýndu.

Það var fastur liður hjá okkur Valda eftir að Anný dó að fara saman í sumarbyrjun í kirkjugarðinn og setja blóm á leiðið, hann sá um að vökva en nú tek ég við könnunni.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt hann að. Hann fór sáttur.

Birna Dís
og fjölskylda.