Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, telur líklegt að það dragi aftur til tíðinda á næstu dögum á Reykjanesskaga. Jörð hafi sigið afar lítið í Svartsengi þegar kvika hjóp úr kvikuhólfinu á laugardag og benda…

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, telur líklegt að það dragi aftur til tíðinda á næstu dögum á Reykjanesskaga. Jörð hafi sigið afar lítið í Svartsengi þegar kvika hjóp úr kvikuhólfinu á laugardag og benda mælingar til þess að „sáralítið“ kvikuinnskot hafi myndast.

„Ég held að við verðum að gera ráð fyrir því að það verði nýtt innskot í næstu viku og mögulega gos“ segir Benedikt, spurður hverju hann búist við í komandi viku.

Telur hann að á bilinu hálf til ein milljón rúmmetra af kviku hafi hlaupið úr kvikuhólfinu á laugardag. Ætti því ekki að líða á löngu þar til sama magn hafi safnast fyrir að nýju.

Ekki mælt með dvöl í bænum

Landsmenn og viðbragðsaðilar biðu átekta um helgina, en miklar líkur voru taldar á eldgosi á Reykjanesskaga er skjálftahrina við Sundhnúkagígaröðina hófst laust fyrir klukkan 16 á suðurenda gossprungunnar þar sem gaus 18. desember. Talið var að gos gæti hafist með afar stuttum fyrirvara, jafnvel á innan við 30 mínútum. Hefði það verið þriðja gosið á þessu ári og það sjöunda á síðustu þremur árum.

Grindavík og Svartsengi voru rýmd í kjölfarið en gist hafði verið í um tíu húsum í bænum og voru á bilinu 600-800 manns á starfsstöðvum Bláa lónsins við Svartsengi. Um 20-30 verktakar voru einnig við störf er rýmingarboð barst og voru vinnuvélar færðar að sögn Víðis Reynissonar, sviðsstjóra almannavarna. Um klukkustund tók að rýma Grindavík og um 45 mínútur að rýma Bláa lónið.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri Suðurnesja, tilkynnti í gær að viðbragðsaðilar, íbúar bæjarins og starfsmenn fyrirtækja bæjarins hefðu heimild til að fara inn í bæinn á eigin ábyrgð. Fjölmiðlafólki og þeim sem aðstoði íbúa sé einnig heimilt að vera í bænum. Ekki væri þó mælt með að fólk dveldi í bænum og er hann ekki talinn staður fyrir börn.

Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirvara. Hætta sé því metin töluverð á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum.

Kraftaverkum líkast

Þrýstingsbreytingar í borholukerfum HS Orku bentu til þess að kvikuhlaup væri hafið um kl. 16:30 á laugardaginn, um hálftíma eftir að skjálftahrina hófst við Sundhnúkagíga.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, segir upplýsingar um yfirvofandi gos hafa borist í gegnum neyðarstjórn fyrirtækisins. Stjórnin var virkjuð í október þegar jarðhræringar fóru að gera vart við sig og hafi í raun verið virk síðan, en fulltrúi úr stjórninni situr fundi með Veðurstofu Íslands. Hún segir starfsfólk vissulega hafa andað léttar þegar í ljós hafi komið að ekki yrði eldgos þar og þá.

„En ekki þó það mikið að við séum ekki enn á vaktinni og fylgjumst stöðugt með.“

Aðspurð segir hún framkvæmdum til að verja Njarðvíkuræðina lokið í samræmi við hraunflæðilíkön Veðurstofunnar. Segir hún það í raun kraftaverki líkast hversu vel hafi tekist að verja Svartsengi gegn yfirvofandi náttúruvá.

„Það sem er helst fréttnæmt er að orkuverin hafa staðið af sér allar þessar jarðhræringar og öll þessi eldsumbrot alveg frá því að fyrsta gosið hófst í Fagradalsfjalli 2021,“ segir Birna.

Í kjölfar allra jarðhræringanna að undanförnu og þeirrar gliðnunar sem þær hafi haft í för með sér hafi jarðlögin undir Svartsengi aftur á móti þést og því hafi líkur á því að það gjósi innan varnargarðanna við Svartsengi minnkað allverulega, enda hafi orðið eins konar spennulosun á svæðinu 10. nóvember.

Segir Birna óneitanlega skrítið að reka fyrirtæki á tímum sem þessum enda hafi þau ekki einungis orðið aðstöðulaus þegar sem mest reyndi á heldur þurfi þau einnig að halda áfram að sinna hefðbundnum verkefnum fyrirtækisins samhliða þeim áskorunum sem fylgi jarðhræringunum.

„Önnur verkefni geta ekki setið á hakanum á meðan.“