Daniel Day Lewis Er sárt saknað af hvíta tjaldinu.
Daniel Day Lewis Er sárt saknað af hvíta tjaldinu. — Wikipedia/Jürgen Fauth
Sky Arts sýndi á dögunum mynd um leikarann stórkostlega Daniel Day Lewis, sem á ferli sínum var margverðlaunaður og var fyrsti karlleikarinn til að hreppa þrenn Óskarsverðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki

Kolbrún Bergþórsdóttir

Sky Arts sýndi á dögunum mynd um leikarann stórkostlega Daniel Day Lewis, sem á ferli sínum var margverðlaunaður og var fyrsti karlleikarinn til að hreppa þrenn Óskarsverðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Honum hefur margoft verið lýst sem einum fremsta kvikmyndaleikara í sögu kvikmyndanna. Í myndinni var farið yfir feril leikarans, sýnd brot úr kvikmyndum hans og rætt við kvikmyndaspekúlanta.

Þátturinn risti kannski ekki ýkja djúpt og er alls ekki splunkunýr, gerður 2020. Hann minnti mann hins vegar á leikarann sem aldrei brást heldur lifði sig algjörlega inn í hlutverk sitt hverju sinni. Í Lincoln breyttist hann í Abraham Lincoln á þann hátt að manni fannst maður raunverulega þekkja forsetann og þótti innilega vænt um hann.

Einstaklingar eiga auðvitað að einbeita sér að því sem þeir gera best en árið 2017, á tíma þegar hann var að margra áliti besti leikari í heimi, ákvað Daniel Day Lewis að draga sig í hlé frá kvikmyndaleik. Hann hefur ekki leikið síðan. Það er dálítið sorglegt þegar stórkostlegir listamenn láta sér á sama standa um hæfileika sína og ákveða að hætta iðju sinni. Manni finnst maður vera svikinn.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir