Vel gekk á fundum breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu um helgina. Samningsaðilar virðast bjartsýnir á gang mála og næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður klukkan 9:00 í dag

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Vel gekk á fundum breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu um helgina. Samningsaðilar virðast bjartsýnir á gang mála og næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður klukkan 9:00 í dag.

Ástráður Haraldsson segist vera farinn að sjá fyrir endann á viðræðunum. „Ég er farinn að grilla í endamarkið. Ég veit ekki hvað ég verð lengi að komast þangað, en það er ekkert víst að þetta klikki.“ Spurður hvort hann teldi líklegt að samningar næðust fyrir lok vikunnar sagði hann það vel mega vera en árétti að vikan væri rétt að byrja. „Svo veit maður aldrei. Það getur alltaf eitthvað fokið í viftuna eins og við þekkjum.“

Þá hefur ríkissáttasemjari boðað VR og Samtök atvinnulífsins á fund til sín í dag, en VR gekk úr breiðfylkingu stéttarfélag undir lok síðasta mánaðar og hefur ekki fundað í Karphúsinu síðan þá.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, formaður Samtaka atvinnulífsins, var ekki síður sæl með framgang viðræðna um helgina og sagði stöðuna gefa tilefni til bjartsýni. Hún árétti þó að viðræðunum væri ekki lokið fyrr en búið væri að undirrita kjarasamningana, en bætti við að það gæti gerst á næstu dögum. „Ég held að við séum mjög langt komin og ættum að geta gengið frá tímamótakjarasamningum á næstu dögum að því gefnu að ekkert komi upp á.“

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar var einnig nokkuð lukkuleg með fundi helgarinnar þó enn ætti eftir að klára nokkur mál. Spurð hvort Efling hyggist halda til streitu fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar hjá ræstingafólki, sem ráðgert er að hefjist klukkan 16 í dag, svaraði Sólveig: „Henni verður ekki aflýst fyrr en við sjáum alveg til lands, sem gæti gerst á morgun.“

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, kveðst vona að SA og breiðfylkingin nái saman áður en greidd verða atkvæði um verkfall.