Tólf Ómar Ingi Magnússon skoraði tólf mörk í miklum Íslendingaslag.
Tólf Ómar Ingi Magnússon skoraði tólf mörk í miklum Íslendingaslag. — Ljósmynd/HSÍ
Íslendingarnir voru afar áberandi er Magdeburg hafði betur gegn Gummersbach, 38:30, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handbolta á laugardagskvöld. Ómar Ingi Magnússon fór á kostum fyrir Magdeburg og skoraði tólf mörk

Íslendingarnir voru afar áberandi er Magdeburg hafði betur gegn Gummersbach, 38:30, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handbolta á laugardagskvöld. Ómar Ingi Magnússon fór á kostum fyrir Magdeburg og skoraði tólf mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason skoruðu tvö hvor.

Hjá Gummersbach skoraði Elliði Snær Viðarsson átta mörk og Arnór Snær Óskarsson fimm. Skoruðu Íslendingarnir því alls 29 mörk í einum og sama leiknum í einni sterkustu deild heims.

Magdeburg er í öðru sæti deildarinnar með 38 stig, einu stigi minna en topplið Füchse Berlin. Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, er í sjöunda sæti með 24 stig.

Íslendingar voru einnig áberandi í heimasigri Leipzig á Melsungen, 32:27. Viggó Kristjánsson var markahæstur hjá Leipzig með sjö mörk og Elvar Örn Jónsson markahæstur hjá Melsungen með níu. Andri Már Rúnarsson náði ekki að skora fyrir Leipzig og Arnar Freyr Arnarsson ekki fyrir Melsungen. Rúnar Sigtryggsson þjálfar Leipzig.

Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg í útisigri á Wetzlar, 31:30. Flensburg er með 35 stig í þriðja sæti og á enn raunhæfa möguleika á að verða Þýskalandsmeistari í fyrsta skipti frá árinu 2019.

Þá skoraði Oddur Gretarsson tvö mörk fyrir Balingen er liðið mátti þola sjö marka tap gegn Kiel á útivelli, 36:29. Daníel Þór Ingason var ekki á meðal markaskorara hjá botnliði Balingen að þessu sinni.