[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kielce vann öruggan heimasigur á Kwidzyn, 35:24, í pólsku úrvalsdeildinni í handbolta á laugardag. Haukur Þrastarson átti flottan leik fyrir Kielce og skoraði fimm mörk, en Haukur er loksins að komast á fullt eftir erfiða tíma vegna meiðsla

Kielce vann öruggan heimasigur á Kwidzyn, 35:24, í pólsku úrvalsdeildinni í handbolta á laugardag. Haukur Þrastarson átti flottan leik fyrir Kielce og skoraði fimm mörk, en Haukur er loksins að komast á fullt eftir erfiða tíma vegna meiðsla. Kielce er í öðru sæti deildarinnar með 66 stig eftir 23 leiki. Wisla Plock er á toppnum með 69 stig og eru þau með töluverða yfirburði í deildinni.

Benfica vann þægilegan útisigur á Braga/Uminho, 38:28, í efstu deild portúgalska handboltans á laugardag. Landsliðsmaðurinn Stiven Tobar Valencia átti einn sinn besta leik með Benfica til þessa og skoraði níu mörk. Var hann markahæstur á vellinum. Benfica er í öðru sæti deildarinnar með 52 stig, sjö stigum á eftir Sporting.

Knattspyrnumaðurinn Birkir Heimisson er kominn aftur í uppeldisfélagið Þór á Akureyri frá Val. Hann gerði þriggja ára samning við félagið á föstudagskvöld. Hann lék síðast með Þór fyrir átta árum, en miðjumaðurinn fór ungur að árum til Heerenveen í Hollandi. Hann sneri aftur til Íslands árið 2020 og lék með Val þar til nú, alls 82 leiki í efstu deild.

Körfuknattleiksmaðurinn Russell Westbrook brákaði bein í vinstri hendi í sigri Los Angeles Clippers á Washington Wizards í Los Angeles um helgina. Clippers vann leikinn sannfærandi, 140:115, en snemma í öðrum leikhluta meiddist Westbrook og verður lengi frá. Er um áfall fyrir liðið að ræða, enda Westbrook lykilmaður.

Enska knattspyrnuliðið Brentford er komið í umtalsverð vandræði eftir að ljóst varð að varnarmaðurinn reyndi Ben Mee myndi ekki spila meira með því á þessu tímabili. Mee brákaðist á ökkla, er á leið í uppskurð og þar með er enn eitt skarðið höggvið í vörn Lundúnaliðsins. Hver varnarmaðurinn á fætur öðrum hefur helst úr lestinni og er útlit fyrir að Thomas Frank knattspyrnustjóri þurfi að tefla fram óreyndum leikmönnum út tímabilið.

Bandaríska körfuknattleiksstjarnan LeBron James varð í fyrrinótt fyrsti leikmaðurinn í sögunni til að skora 40.000 stig í NBA-deildinni er hann gerði 26 stig í tapi Los Angeles Lakers gegn Denver Nuggets, 124:114.

Heimsmeistarinn Max Verstappen vann öruggan sigur í fyrstu keppni ársins í Formúlu 1 í Barein á laugardag. Verstappen, sem er heimsmeistari síðustu þriggja ára, var á ráspól eftir sigur í tímatökunni og honum urðu ekki á nein mistök í keppninni. Liðsfélagi hans Sergio Pérez varð annar og Ferrari-félagarnir Carlos Sainz og Charles Leclerc í þriðja og fjórða.

Hollenski hlauparinn Femke Bol bætti eigið heimsmet í 400 metra hlaupi kvenna er hún hljóp vegalengdina á 49,17 sekúndum á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum í Glasgow á laugardag. Bol hefur verið í hörkuformi síðustu vikur, en aðeins eru um tvær vikur síðan hún bætti metið síðast. Þá bætti Devynne Charlton frá Bahamaeyjum eigið heimsmet í 60 metra grindahlaupi er hún kom í mark á 7,65 sekúndum og bætti metið um 0,2 sekúndur.

Bayer Leverkusen náði í gær tíu stiga forskoti á Bayern München á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta með útisigri á Köln, 2:0. Jeremie Frimpong og Alejandro Grimaldo gerðu mörk Leverkusen. Tíu umferðir eru eftir af deildinni og eru lærisveinar Xabi Alonso því í algjörri í kjörstöðu.

Norski knattspyrnumaðurinn Benjamin Stokke er genginn til liðs við Breiðablik frá Kristiansund í Noregi. Sá norski er 33 ára gamall framherji sem skoraði 16 mörk þegar Kristiansund endurheimti sæti sitt í norsku úrvalsdeildinni eftir árs fjarveru.

Belfius Mons vann á laugardag útisigur á LWD Basket, 106:92, í sameiginlegri efstu deild Hollands og Belgíu í körfubolta. Styrmir Snær Þrastarson átti flottan leik fyrir Belfius Mons, skoraði 10 stig, tók 14 fráköst og gaf eina stoðsendingu.