Súkkulaðihátíð Þúsund egg á færibandi þokast nær. Blessunarlega er páskaeggjaframboðið ekki í hættu þrátt fyrir uppskerubrestinn.
Súkkulaðihátíð Þúsund egg á færibandi þokast nær. Blessunarlega er páskaeggjaframboðið ekki í hættu þrátt fyrir uppskerubrestinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sælgætisgrísir heimsins eru teknir að ókyrrast vegna mikillar og skyndilegrar hækkunar sem orðið hefur á heimsmarkaðsverði kakós. Á hrávörumarkaði er kakó verðlagt í tonnum og þegar verðið var hvað hæst í lok febrúar kostaði kakótonnið nærri 6.900 dali og hefur aldrei verið dýrara

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Sælgætisgrísir heimsins eru teknir að ókyrrast vegna mikillar og skyndilegrar hækkunar sem orðið hefur á heimsmarkaðsverði kakós.

Á hrávörumarkaði er kakó verðlagt í tonnum og þegar verðið var hvað hæst í lok febrúar kostaði kakótonnið nærri 6.900 dali og hefur aldrei verið dýrara. Til samanburðar sveiflast verðið á bilinu 2.000 til 3.000 dalir tonnið í venjulegu árferði og bara frá síðustu áramótum hefur kakóið hækkað um meira en 60%.

Vörðu sig gegn hækkunum

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, forstjóri Nóa Siríusar, segir íslenska súkkulaðiunnendur ekki þurfa að hafa áhyggjur að svo stöddu því bæði hafi fyrirtækið tryggt sér meira en nóg hráefni fyrir páskaeggjatímabilið fram undan og eins keypt varnir gegn mögulegum verðhækkunum:

„Margir þættir spila inn í hækkun verðs að undanförnu og er ekki nóg með að uppskerubrestur hafi áhrif heldur hefur líka verið mikil virkni hjá markaðsspekúlöntum sem hafa tekið stöður á hrávörumarkaði og ýtt verðinu upp enn frekar,“ segir Sigríður Hrefna og bætir við að áður en kakóverð rauk upp hafi verð á sykri hækkað tímabundið en svo náð aftur jafnvægi.

Afríka, og þá einkum Fílabeinsströndin og Gana, eru langsamlega stærstu ræktendur kakóbauna í heiminum og segir Sigríður Hrefna að bæði þar sem og annars staðar hafi óhagfelld veðurskilyrði valdið því að bændum hefur gengið erfiðlega að koma nýjum plöntum á legg, en eins og stendur sé engin ástæða til að búast við öðru en að ástandið fari batnandi og kakóverð leiti niður á við um síðir. Þá gætu alþjóðlegu sælgætisrisarnir verið í einhverjum vanda á meðan ástandið varir en nóg hráefni er samt í boði til að mæta þörfum staðbundinna framleiðenda eins og Nóa Siríusar – og að svo stöddu sé ekki fyrirhugað að beina hrávöruverðshækkunum út í verðlagið. „Páskaeggjagerðin er í fullum gangi, fyrstu sendingarnar komnar í búðir og landinn þegar byrjaður að gæða sér á eggjunum, en gaman er að sjá að neytendur eru nýjungagjarnir og spenntir að prófa nýjar útfærslur á borð við bragðarefseggið sem við vorum að setja á markað.“

Fylgjast vel með næsta uppskerutímabili

Lóa Fatou Einarsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Good Good, á ekki von á að fyrirtækið þurfi að hækka verðið á þeim vörum sem innihalda kakó. Good Good hefur látið rækilega að sér kveða á alþjóðlegum sultumarkaði en framleiðir einnig rómaða súkkulaðismyrju og ketó-stangir með allt að 7% kakóinnihald. „Við sjáum heldur ekki fram á að uppskerubrestur hjá kakóbændum muni hafa áhrif á framboð okkar af vörum, en við munum fylgjast vandlega með hvernig næsta uppskerutímabil gengur.“

Hjá kakóræktendum eru tvö uppskerutímabil á ári. Í Vestur-Afríku hefst stærsta uppskerutímabilið í október og annað smærra uppskerutímabil hefst í júlí. Var það því stóra uppskerutímabilið sem brást og er eftir að koma í ljós hversu gjöfular kakóbaunaplönturnar verða í sumar.

Er El Niño kennt um uppskerubrestinn í Gana og á Fílabeinsströndinni, en þó að veðurfyrirbærið sé oftast tengt við breytingar á veðurfari á Kyrrahafsströnd Norður- og Suður-Ameríku þá gætir áhrifanna líka í Afríku og meiri þurrkar en venjulega í löndunum sunnan Sahara. Til að gera illt verra var óvenju vætusamt í Gana og á Fílabeinsströndinni í fyrra og olli það því að sjúkdómar sem leggjast á kakóplöntuna náðu mikilli útbreiðslu. Þá hafa greinendur bent á að verðstýring stjórnvalda í báðum löndunum hafi haft þau áhrif að letja bændur til að fjárfesta í nýjum plantekrum og auka framleiðslu sína á kakóbaunum.

Kaupa beint frá ræktanda og greiða yfirverð fyrir gæðin

Þorlákur Þór Erluson, forstöðumaður sölusviðs Omnom, segir að þar á bæ sé löng hefð fyrir því að ofgreiða fyrir kakóbaunirnar til að tryggja ræktendum mannsæmandi lifibrauð, og hvorki hætta á að fyrirtækið muni skorta hráefni né að verðbreytingar muni hafa áhrif á neytendur. „Við verslum milliliðalaust við okkar ræktendur, líkt og margir aðrir handverks-súkkulaðiframleiðendur, og tryggjum um leið að allt sé eins og það á að vera varðandi ræktunina,“ segir Þorlákur og bætir við að því miður sé enn útbreitt að börn og jafnvel þrælar séu látin vinna á kakóbýlum. „Eins er víða farið mjög illa með ræktarlandið og reynt að hámarka uppskeruna til skemmri tíma á kostnað ræktunargetu til lengri tíma, og mun það verða langt ferli að laga jarðveginn þegar skaðinn er skeður.“

Þorlákur minnir á að þó að kakó sé stöðluð vara á alþjóðlegum hrávörumarkaði þá séu ekki allar kakóbaunir jafnar að gæðum og hefur Omnom sérvalið ræktendur í Madagaskar, Tansaníu og Níkragva sem framleiða baunir með mjög afgerandi bragðeinkenni; með tónum sem minna á allt frá rauðberjum og vanillu yfir í sítrónu, kaffi og tóbak. „Það hefur verið eitthvert vesen með ræktunina í Madagaskar enda er kakóplantan mjög viðkvæm. Löng þurrka- og rigningatímabil geta gert óskunda en það eru veirusýkingarnar sem við höfum mestar áhyggjur af og eru dæmi um tegundir kakóplantna sem eru hreinlega útdauðar í dag út af veirufaröldrum,“ segir hann. „Og ef okkar bónda gengur illa munum við samt áfram greiða honum sitt, því umfram allt viljum við að hann geti haldið áfram að stunda sinn búskap eins og ekkert hefði í skorist og tryggt okkur hráefni til framleiðslunnar þegar aðstæður skána.“

Ómissandi

Tonnið af kakói er meira en tvöfalt dýrara en í venjulegu árferði.

Kakóplantan er viðkvæm og hjá helstu ræktunarlöndum hafa vætutíð og þurrkar stuðlað að uppskerubresti.

Ekki er útlit fyrir vandræði hjá íslenskum framleiðendum en þeir bíða og sjá hvernig næsta uppskerutímabil mun ganga.

Nóg verður til af páskaeggjum í íslenskum búðum.