Skaðabætur Konan var útsett fyrir myglu í Orkuveituhúsinu.
Skaðabætur Konan var útsett fyrir myglu í Orkuveituhúsinu. — Morgunblaðið/Óttar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrirtækið DK hugbúnað ehf. og tryggingafélagið VÍS til að greiða konu sem vann hjá DK hugbúnaði skaðabætur vegna heilsutjóns sem hún varð fyrir vegna myglu. Fyrirtækið var með skrifstofur í Orkuveituhúsinu sem var illa farið af myglu

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrirtækið DK hugbúnað ehf. og tryggingafélagið VÍS til að greiða konu sem vann hjá DK hugbúnaði skaðabætur vegna heilsutjóns sem hún varð fyrir vegna myglu. Fyrirtækið var með skrifstofur í Orkuveituhúsinu sem var illa farið af myglu.

Björgvin Þórðarson, lögmaður hjá Bótarétti, flutti málið fyrir hönd konunnar. Hann segir málið merkilegt vegna þess að skaðabótaábyrgð fyrirtækisins var viðurkennd fyrir dómi en þetta er í fyrsta skipti sem slíkt gerist í máli sem þessu.

Mikilvæg niðurstaða

Aðspurður hvers vegna skaðabótaábyrgð hafi verið niðurstaðan segir hann að í þessu máli, ólíkt öðrum svipuðum málum, lágu fyrir sannanir um orsakatengsl myglu í húsnæðinu og veikinda konunnar. „Það hefur verið fyrsti hjallinn sem þarf að yfirstíga í málum sem þessum. Svo tekur við að sýna fram á ábyrgð vinnuveitenda,“ bætir hann við.

„Það sem gerist einnig er að vinnuveitandi konunnar tekur engin sjálfstæð skref í þessum efnum, heldur hengir sig bara á Orkuveituna um viðbrögð gagnvart starfsfólki,“ segir Björgvin. Þá segir hann að koma þurfi í ljós hvort málið sé fordæmisgefandi en bætir við að ljóst sé að fullt af fólki sem hefur komið illa út úr svipuðum málum hafi beðið eftir þessari niðurstöðu. „Nú er búið að opna þarna á að þetta virðist gerlegt.“

VÍS hefur fjórar vikur frá dómsuppsögn til að áfrýja þessu til Landsréttar. Erfitt er að meta fordæmi málsins nema dómnum verði áfrýjað, að sögn Björgvins.

Hægt að koma í veg fyrir tjónið

Í dómnum kemur fram að enginn vafi leiki á að DK hugbúnaður bar ábyrgð á að starfsumhverfi starfsmanna væri heilsusamlegt. Í dómnum er ályktað að DK hugbúnaður hefði átt að grípa sjálfstætt til aðgerða til að verja hagsmuni starfsmanna sinna þegar mygluástand í húsinu fór að dragast á langinn. Ef gripið hefði verið til raunhæfra ráðstafana með flutningi fyrirtækisins hefði mátt forða eða draga varanlega úr heilsutjóni konunnar. Á þessu athafnaleysi ber DK Hugbúnaður sakarábyrgð.