Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Þannig telja innflytjendur í íslenskum skólum sig miklu síður tilheyra í skólanum sínum en innflytjendur í hinum ríkjum Norðurlandanna.

Bryndís Haraldsdóttir

Í takt við öra þróun í íslensku samfélagi á undanförnum árum hefur innflytjendum fjölgað hratt. Í ljósi þeirrar þróunar er mikilvægt að líta til þess hvernig okkur hefur gengið að þróa okkar góða samfélag þannig að fjölmenning fái að blómstra en einnig þannig að gildi okkar og hefðir glatist ekki.

Á síðustu fimm árum hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um hátt í 30.000, þar af eru um 5.000 börn.

Það er og hefur verið kostur íslensks samfélags hversu sveigjanlegur íslenskur vinnumarkaður er. Þannig hefur fólks sóst eftir að flytja hingað til þess að vinna þegar umsvifin eru mikil en jafnan farið annað eða aftur til síns heima þegar umsvifin minnka. Þetta er mikilvægur og góður kostur fyrir lítið velmegunarsamfélag eins og Ísland er.

En sífellt fleiri sækjast eftir því að koma ekki aðeins hingað til að vinna í stutta stund heldur vilja setjast að í okkar góða samfélagi. Þegar við tökum á móti fólki sem hingað flytur með fjölskyldu sína til lengri tíma er gríðarlega mikilvægt að fólk upplifi sig þannig að það tilheyri samfélaginu.

Mikilvægt er að börnum innflytjenda, sem ganga í íslenska skóla, vegni vel og hafi sömu tækifæri til að blómstra og þau börn sem hér fæðast. En hvernig líður þessum hópi barna í íslenska skólakerfinu?

Líðan barna í íslenskum skólum

Niðurstöður PISA-könnunar ársins 2022 sem birtar voru í desember síðastliðnum voru okkur enn og aftur vonbrigði eins og ég hef áður fjallað um. Þó er það jákvætt að samkvæmt könnuninni líður börnunum okkar almennt vel í skólanum, þau telja sig tilheyra skólasamfélaginu, eru jákvæð gagnvart kennurum sínum og upplifa síður einelti en börn í hinum ríkjum Norðurlandanna. Þetta er auðvitað mjög jákvætt og ætti að vera góður grunnur til að byggja á betri námsárangur.

Þegar þessir þættir eru skoðaðir eftir uppruna skólabarna eru niðurstöðurnar sláandi.

Börn af erlendum uppruna í íslenska skólakerfinu upplifa síður að þau tilheyri samfélaginu en önnur börn. Það kann að vera eðlilegt að það taki tíma að aðlagast nýrri menningu, en þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við önnur OECD-lönd eða aðrar Norðurlandaþjóðir er munurinn mikill. Þannig telja innflytjendur (bæði af 1. og 2 kynslóð) í íslenskum skólum sig miklu síður tilheyra í skólanum sínum en innflytjendur í hinum ríkjum Norðurlandanna.

Norðmenn skara fram úr hvað þetta varðar og er þar munurinn minnstur á milli barna eftir uppruna. Það er nauðsynlegt að öll börn á Íslandi upplifi að þau tilheyri samfélaginu, geti myndað félagsleg tengsl við aðra og að þeim sé fagnað eins og þau eru. Almennt hefur fólk og sérstaklega unglingar sterka þörf fyrir að tilheyra. Nemendur sem upplifa að þeir tilheyri í skólanum eru almennt áhugasamari um að læra og gengur betur í náminu.

Þessar niðurstöður PISA kalla á markvissar aðgerðir er lúta að því hvernig við tökum á móti erlendum börnum í skólakerfið okkar. Grunnskólakennarar á Íslandi geta ekki bætt við sig endalausum verkefnum, enda er þetta svo sannarlega ekki eina brýna viðfangsefnið í skólunum okkar því að á sama tíma verðum við að bæta námsárangur allra barna. Það sýnir PISA svart á hvítu, öll börn eiga að geta lesið sér til gagns eftir 10 ára grunnskólanám. Grunnurinn að því, rétt eins og öllu öðru námi, er færni í íslensku sem við sjáum að er verulega ábótavant. Án íslenskukunnáttu eru tækifæri barna af erlendum uppruna sérstaklega mjög takmörkuð hér á landi.

Við þurfum að hafa burði til þess að sinna börnum af erlendum uppruna í íslenskum skólum, takast á við það risastóra verkefni sem fyrir er og hjálpa börnunum að finnast þau tilheyra samfélaginu. Í því samhengi verðum við að hlusta á ákall skólanna og bregðast við, öllum til heilla.

Á sama tíma má ljóst vera að við getum ekki tekið á móti jafn miklum fjölda á næstu árum og við höfum gert á síðustu árum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.