[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fagnar tuttugu ára afmæli sínu í ár en hún verður haldin á Ísafirði dagana 29. og 30. mars. Það voru þeir feðgar Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, og Guðmundur Kristinsson, jafnan nefndur Papamug, …

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fagnar tuttugu ára afmæli sínu í ár en hún verður haldin á Ísafirði dagana 29. og 30. mars. Það voru þeir feðgar Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, og Guðmundur Kristinsson, jafnan nefndur Papamug, sem fengu hugmyndina að hátíðinni árið 2003 og gerðu hana að veruleika ári síðar.

„Við ætlum að gera ýmislegt til að fagna afmælinu og höfum haft aðdraganda að þessu með því að eiga gott samstarf við Ísafjarðarbæ. Okkur langaði fyrst og fremst til þess að heimsækja dagskrá síðustu tuttugu ára og athuga hvort einhverjar „gamlar hetjur“ gætu komið aftur og rifjað upp gamla takta á stóra sviðinu,“ segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri hátíðarinnar. „Úr varð að margir tóku vel í það að mæta aftur en auk þess kemur fjöldi nýrra andlita fram,“ bætir hann við.

Sami suðupotturinn

Segir Kristján Freyr afmælisdagskrána einstaklega veglega en meðal tónlistarmanna á hátíðinni í ár má nefna Mugison, HAM, GDRN, Emmsjé Gauta, Inspector Spacetime, Helga Björnsson, Bogomil Font, Celebs, Dr. Gunna, Heiðu Eiríksdóttur, Hipsumhaps, Birni og hljómsveitina Of Monsters and Men.

„Ég talaði um gömul andlit og ný og það er svo sannarlega tilfellið því það er sami suðupottur og við bjóðum alltaf upp á. Aldrei fór ég suður er alltaf þessi skrýtna samsuða af alls konar stefnum og straumum. Hún er aldrei einsleit því fólk fær alltaf eitthvað fyrir sinn snúð, allir fá eitthvað, enginn fær allt. Svo er alltaf sama stefið, þetta eru landsþekkt nöfn í bland við stjörnur að vestan.“ Tekur hann fram í kjölfarið að það séu í raun stórtíðindi að hljómsveitin Of Monsters and Men ætli að mæta þar sem þau spili ekki oft hér á landi. „Við erum afskaplega stolt af því að þau skuli vera til í að dansa með okkur og koma vestur um páskana en við hlökkum mikið til að taka á móti þeim eins og öllum hinum.“

20 ár af elju og dugnaði

Í tilefni af afmælinu verður boðið upp á sögusýningu sem ber yfirskriftina Maður gerir ekki rassgat einn. „Það er frasi sem varð til einhvers staðar á leiðinni og segir einhvern veginn svo margt,“ segir Kristján Freyr og nefnir í framhaldinu að hátíðin sé tuttugu ára sjálfboðaliðaverkefni þar sem enginn hagnaðardrifinn rekstur liggi að baki. „Enginn þiggur laun fyrir þetta og það er frítt inn eins og alltaf.“

En hvernig skyldi hátíðin hafa þróast í gegnum árin?

„Þetta byrjaði á því að nokkurra manna vinahópur hringdi í vini sína til að spyrja hvort þeir vildu koma að spila í einhverju ísköldu iðnaðarhúsnæði, eitt laugardagskvöld um páska yfir hávetur á Ísafirði. Síðan þá hefur hátíðin náttúrulega þróast og stækkað gríðarlega og er orðin að viðburði sem nokkur þúsund manns sækja á hverju ári. Við erum með 14-16 nöfn tónlistarfólks og hljómsveita sem spila í mestu gæðum sem hægt er að bjóða upp á og fullt af frábæru fólki sem kemur alltaf til að horfa,“ segir hann.

Bætir hann því við að til að svo viðamikið og stórt verkefni geti gengið upp ár eftir ár þurfi vissulega ákveðna seiglu og dugnað. „Þetta er fyrst og fremst eljusemin í fólkinu sem er búið að vera með allan tímann í undirbúningnum en þetta er ekki fárra manna verk. Galdurinn er kannski sá að þetta verður að einhvers konar samfélagsverkefni og það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp börn en það er svolítið stefið í þessu. Það er nánast ekki einn íbúi sem hefur ekki einhvern snertiflöt af hátíðinni, þetta er fyrst og fremst hátíð íbúanna.“

Margir alist upp við hátíðina

Inntur eftir því hvaða þýðingu slík hátíð hafi fyrir Ísafjörð segir Kristján Freyr áhrif hennar gríðarleg.

„Ég held að maður sjái það mest þegar maður skoðar dómínóáhrifin af hátíðinni. Sem dæmi má nefna að það er rosalega mikið af fólki, sem hafði aldrei komið á Vestfirði eða Ísafjörð áður og átti enga tengingu vestur, sem hefur mætt á hátíðina. Þetta fólk hefur svo blessunarlega fengið góða og jákvæða upplifun, haft gaman af og kemur því aftur,“ segir hann og nefnir sem dæmi tónlistarfólkið sem hefur mætt í gegnum þessi tuttugu ár á hátíðina. „Það hefur kannski alist upp í miðborg Reykjavíkur og varla komið upp í Smáralind, hvað þá meir, og er svo allt í einu mætt á Ísafjörð um páska. Allt þetta fólk hefur sótt Ísafjörð og nærsveitir eins og til dæmis Flateyri þar sem er mikill uppgangur. Svo það hefur haft gríðarleg áhrif að hátíðinni fylgir jákvæð upplifun sem hefur skilað sér í því að fólk horfir öðruvísi til Vestfjarða. Við vorum að sjálfsögðu ekki að finna upp tónlist eða menningu en það er bara gríðarlega rík saga sem við höfum viðhaldið með þessari hátíð.“

Þá tekur Kristján Freyr fram að fullt af ungu fólki hafi alist upp við hátíðina fyrir vestan. „Margt af efnilegasta fólki landsins er frá Ísafirði og það er fólk sem er bara rétt um tvítugt og þekkir ekki annað en Aldrei fór ég suður. Það hefur séð frábærar fyrirmyndir uppi á sviði, kynnst þessu tónlistarfólki og séð það í návígi, sem er ómetanlegt.“

Húfa ársins blá og hvít

Að sögn Kristjáns Freys er eina fjáröflun hátíðarinnar varningur og veitingar sem seldar eru á staðnum. „Meðal annars er húfa ársins en fólk er oft spennt fyrir þessu og margir hafa safnað þessum húfum í gegnum árin. Í ár er húfan blá með hvítum stöfum og þar af leiðandi eru þeir litir núna í litapallettunni okkar. Í fyrra var það svart og rautt en þeir fjórir litir eru einmitt í merki Ísafjarðarbæjar, það er að segja blár, hvítur, rauður og svartur,“ segir hann og bætir því að lokum við að það sé þakkarvert hversu fólk sé duglegt að styðja við hátíðina með kaupum á varningi og veitingum.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu hennar: www.aldrei.is

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir