Útlendingamál Ætlunin er að ræða útlendingafrumvarp á þingi í dag.
Útlendingamál Ætlunin er að ræða útlendingafrumvarp á þingi í dag. — Morgunblaðið/Hari
Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki enn tekið formlega afstöðu til frumvarps dómsmálaráðherra um útlendingamál, en málið er á dagskrá þingflokksfundar í dag, mánudag. Þetta upplýsir Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, í samtali við Morgunblaðið

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki enn tekið formlega afstöðu til frumvarps dómsmálaráðherra um útlendingamál, en málið er á dagskrá þingflokksfundar í dag, mánudag.

Þetta upplýsir Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

„Frumvarpið verður örugglega á dagskrá þingflokksfundar á mánudaginn,“ segir Þórunn og aðspurð segir hún að enn hafi málið ekki fengið formlega umfjöllun á þeim vettvangi. Hún vildi engu spá um hver niðurstaða þingflokksins yrði.

Dagskrá þingfundar á mánudaginn liggur nú fyrir, en útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra er fyrsta málið á dagskránni, að loknum óundirbúnum fyrirspurnum.

Ríkisstjórnin afgreiddi frumvarpið af sinni hálfu þriðjudaginn 20. febrúar sl. Ætlunin var að mæla fyrir frumvarpinu fimmtudaginn 22. febrúar, en af því varð ekki þar sem þingfundur dróst á langinn vegna umræðna um önnur þingmál.

Með frumvarpinu er m.a. ætlunin að leiða í lög breytingar á útlendingamálum með það að markmiði að draga úr útgjöldum og að þeim fjármunum sem í málaflokkinn fara verði forgangsraðað betur en gert hefur verið. Einnig að fækkað verði tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi. Hraða á afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, stytta málsmeðferðartímann sem og stuðla að skilvirkum brottflutningi fólks sem synjað hefur verið um vernd. oej@mbl.is