Íslandsmeistarar Fjölniskonur fagna sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli eftir sigur á SA í fjórða leik liðanna í Skautahöllinni Egilshöll á laugardag.
Íslandsmeistarar Fjölniskonur fagna sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli eftir sigur á SA í fjórða leik liðanna í Skautahöllinni Egilshöll á laugardag. — Morgunblaðið/Arnþór
Fjölnir varð á laugardag Íslandsmeistari kvenna í íshokkí í fyrsta skipti með heimasigri á SA, 1:0, í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu. SA vann fyrsta leik einvígisins og áttu þá flestir von á að Akureyringar yrðu Íslandsmeistarar enn eitt…

Fjölnir varð á laugardag Íslandsmeistari kvenna í íshokkí í fyrsta skipti með heimasigri á SA, 1:0, í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu.

SA vann fyrsta leik einvígisins og áttu þá flestir von á að Akureyringar yrðu Íslandsmeistarar enn eitt árið og þá sérstaklega því liðið var með mikla yfirburði í deildarkeppninni í vetur.

Fjölnir gerði sér hins vegar lítið fyrir og svaraði með þremur sigurleikjum í röð og tryggði sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn.

SA-liðið vann 14 af 16 leikjum sínum í deildinni og endaði með 42 stig. Fjölnir vann átta leiki, tapaði átta og endaði með 24 stig. Fjölniskonur toppuðu hins vegar á réttum tíma og tryggðu sér verðskuldaðan Íslandsmeistaratitil.

Sigrún Árnadóttir reyndist hetja Fjölniskvenna á laugardag því hún skoraði sigurmarkið strax á 4. mínútu og fundu ríkjandi meistararnir í SA engin svör, en óalgengt er að sjá aðeins eitt mark skorað í íshokkíleik.

Er þetta í annað skipti sem lið utan Akureyrar verður Íslandsmeistari kvenna, en Björninn varð meistari árið 2006.

Síðan þá hafa ýmist SA, Ynjur eða Ásynjur orðið meistarar, en það eru félög innan Skautafélags Akureyrar.