Dýri Guðmundsson, gítarleikari, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og endurskoðandi, fæddist 14. september 1951 í Hafnarfirði. Hann lést í faðmi fjölskyldu sinnar 20. febrúar 2024.

Foreldrar Dýra voru Vilborg Guðjónsdóttir, f. 4.12. 1917, d. 24.4. 2010, frá Fremstuhúsum í Dýrafirði, og Guðmundur Þorláksson, f. 19.3. 1920, d. 25.3. 2000, frá Hafnarfirði. Systkini hans eru Guðjón Torfi Guðmundsson, f. 10.2. 1943, Valgerður Guðmundsdóttir, f. 14.10. 1945, og Þorgeir Guðmundsson, f. 29.6. 1944, d. 23.2. 2021.

Eftirlifandi kona Dýra er Hildur Guðmundsdóttir lyfjafræðingur, f. 3.9. 1951. Börn þeirra eru Orri Páll trommuleikari, f. 4.7. 1977, Guðný Vala lögfræðingur, f. 13.2. 1982, og Ása bassaleikari og verkefnastjóri, f. 16.11. 1988. Dýri lætur eftir sig níu barnabörn sem hann dáði.

Útför Dýra verður í Hallgrímskirkju í dag, 4. mars 2024, kl. 13.

Þeir voru ófáir sunnudagsbíltúrarnir í Hafnarfjörðinn þegar ég var barn enda ólst pabbi þar upp og hafði þangað sterkar taugar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og prófi í viðskiptafræði og endurskoðun við Háskóla Íslands. Hann starfaði, lengst af sjálfstætt, sem löggiltur endurskoðandi.

Pabbi og mamma, Hildur Guðmundsdóttir lyfjafræðingur, fluttu á Seltjarnarnesið árið 1980 þar sem við systkinin nutum yndislegra æskuára. Við ferðuðumst mikið innanlands og erlendis og í þeim ferðum eignuðumst við dýrmætar minningar með pabba. Pabbi var alltaf fús til að hjálpa okkur börnunum við allt milli himins og jarðar, hvort sem það var til dæmis að lesa yfir ritgerðir, við flutninga eða barnapössun. Slík verkefni voru alltaf sett í forgang hjá honum og engin skilyrði sett. Hann átti einstaklega gott og fallegt samband við barnabörnin sín sem minnast hans með söknuði og ást.

Pabbi æfði fyrst íþróttir með FH og átti þar sterkan vinahóp. Hann einbeitti sér svo að fótboltanum og spilaði vörn. Hann var hávaxinn en beinn í baki og með fallegar hreyfingar. Hann spilaði svo með Val í 10 ár og varð þar margfaldur Íslands- og bikarmeistari. Í Val eignaðist hann líka mjög góða vini og gott bakland. Þá spilaði hann nokkra leiki með landsliðinu. Svo lauk fótboltaferlinum með FH um miðjan níunda áratuginn. En félagsskapnum í báðum liðum hélt hann út ævina. Pabbi hljóp með Trimmklúbbi Seltjarnarness og var einnig í hjólahópi. Þá gerðust hann og mamma fastagestir í Sundlaug Seltjarnarness og eignuðust þar einn vinahópinn enn. Hreyfing var pabba í blóð borin og allar okkar sundferðir og göngutúrar einkenndust af kappsundi, dýfingaræfingum og kapphlaupi milli ljósastaura. Í síðasta göngutúrnum sem ég fór með pabba æddum við upp á hól í hrauninu í Hafnarfirði með bros á vör.

Pabbi lagði gítarinn sjaldan frá sér. Hann spilaði blús og rokk en Rolling Stones var uppáhaldshljómsveitin hans. Í annars virðulegri og fallegri stofu á heimili hans og mömmu hékk til dæmis stór innrömmuð mynd af meðlimum Rolling Stones. Pabbi stofnaði margar hljómsveitir og dró alla með sér í tónlist. Þannig sameinaði hann fólk.

Þá tók pabbi þátt í starfi ýmissa fleiri félaga, nefnda og ráða. Þar má nefna Valskórinn, Safnaðarnefnd Seltjarnarnesskirkju o.fl. Hann sinnti einnig tónlistarkennslu og spilaði tónlist fyrir gesti á Hótel Sögu og á Grund þar sem ástkær móðir hans, Vilborg Guðjónsdóttir, bjó síðustu árin sem hún lifði.

Eitt af áhugamálum pabba var pólitík. Honum fannst allir flokkar hafa eitthvað jákvætt fram að færa og kaus samstarf og sameiningu, hvort sem var á milli fólks, flokka, sveitarfélaga eða ríkja.

Pabbi var ljúfur og góður maður og yndislegur pabbi. Hann snerti við fólki og sameinaði. Ég mun reyna að halda hans gildum á lofti og miðla þeim.

Ég mun alltaf hugsa til þín elsku pabbi, ekki síst þegar ég fer út að skokka, horfi á Liverpool-leik, heyri fallegt gítarspil eða sé þig í börnunum mínum. Sjáumst síðar. Þín dóttir,

Guðný Vala.

Jæja pabbi minn.

Ég mun aldrei geta lýst þér eða okkar sambandi í aumum málsgreinum. Líka ómögulegt að skila af sér góðu plaggi þar sem þú varst prófarkalesarinn minn. En þú varst bara gangandi veisla og marglaga kolkrabbi með litrík ráð og eiginleika undir rifi hverju. Þú kenndir mér að skynja tónlist, sjá hljóma sem mynstur og nota þögnina. Að tungumál væru lyklar að víddum og að orð væru leikföng og verkfæri.

Það sem stendur samt upp úr er vesenið á okkur. Róta hljóðfærum, setja upp myndlistarsýningar, undirbúa tónleika, mála, hengja upp, smíða, flytja drasl, græja hitt og þetta. Ég hjálpaði þér að leiða fjöltengi og magnara upp á þak, þú hjálpaðir mér að hlaða eldstæði í fjörunni, engar spurningar. Ferja kontrabassa á bílþaki með kaðli? Ekkert mál. Stundum varstu svo spenntur að fara í vesen að þú mættir sex um morgun.

Við vorum bæði með hátt orkustig, eirðarleysi og sköpunarþörf og leituðum hvort í annað. Þú varst eina manneskjan sem ég gat átt í fullkomlega skilyrðislausum samskiptum við. Pabbi, samstafsfélagi og besti vinur.

Þú sópaðir gólfin á kaffihúsinu mínu daglega fyrir opnun, við smíðuðum saman útskriftarverkefnið mitt úr Listaháskólanum og keyrðum það á yfirbyggða bensínstöð og hlógum og öskruðum, þú hoppaðir fyrst í lækinn og svo ég, þú komst í heimsókn ef ég var leið í símanum, þú fórst yfir allar ritgerðirnar mínar, þú varst alltaf til staðar og studdir mig ekki bara í einu og öllu heldur tókst alltaf virkan þátt.

Þið mamma voruð svo góð í þessu og sameinuðust líka í veseninu. Gítarsólóin uppi á þaki á Lindarbraut sem þróuðust yfir í hljómsveit og kaffiboð mömmu á Menningarnótt næstu tvo áratugina er gott dæmi, þið voruð alltaf extraskotin hvoru í öðru þennan dag. Lindarbrautin var kjarninn okkar og við systkinin áttum alltaf í ykkar hús að venda þegar heimurinn fraus.

Ljós þitt skín svo skært þó þú sért farinn, þú stofnaðir kóra, hljómsveitir, trimmklúbba og hjólahópa, allt hópar sem eru starfrækir í dag og bera fólk sem þykir svo óendanlega vænt um þig og heldur heiðri þínum á lofti.

Þú áttir aldrei andstæðinga og þannig varstu alvöruleikmaður, alvöruspilimann. Tifandi orka sem hafði áhrif á allt nærumhverfið og styrkti fólk í að verða betri manneskjur með hreinum náungakærleik.

Ég er svo heppin að vera dóttir þín, hrein forréttindi að vera alin upp af regnboga í svona gráum heimi. Sorgin yfir því að litlu krílin mín Dýri og Marselía munu ekki alast upp með afa Dýra nístir inn að beini, þú varst svo frábær afi eldri barnabarnanna. Þú varst ekki bara þolinmóður þegar kom að því að leika – þú vildir leika. Eins lengi og þau vildu. Sem er vandfundinn eiginleiki og lýsir þínum karakter svo vel.

Sé þig alls staðar, risastóra brosið með gítarinn í lopapeysunni. Ég heyri í þér syngja, flauta, hlæja, brosa út í annað og segja „alltílæ vina mín“. Elsku besti pabbi minn, þú verður alltaf hjá mér í hjartanu og með mér í veseninu.

Hlakka til að hitta þig hinum megin, ég kem með nýja strengi.

Þín forever, Litla Prik

Ása Dýradóttir.

Elsku Dýri afi okkar er fallinn frá. Minningarnar af afa eru jafn litríkar og þær eru margar, en eins og allir vita sem fengu að kynnast afa Dýra þá var fullkomlega ómögulegt að láta sér leiðast í návist hans. Heimsóknir á Lindarbrautinni einkenndust af viðstöðulausu stuði og afi nennti alltaf, undantekningarlaust, að leika við okkur. Oft kom afi heim til okkar að passa okkur og þá endaði íbúðin í rúst sökum fjörs. Hljómsveitaræfingar, fótbolti og karfa í bakgarðinum í alls konar veðri, uppspuni án takmarka og sögur fyrir svefninn sem tóku aldrei enda. Afi var fús og fær í allt og gerði ekkert með semingi heldur leið okkur alltaf eins og hann hefði alveg jafn gaman af þessu öllu saman og við. Það er ekki sjálfsagt að fá að alast upp með svona einstaklega athafnasaman og blíðlyndan mann fyrir afa og fyrir það erum við umfram allt þakklát.

Fyrir um það bil tíu árum voru þrjú barnabarnanna í fylgd með afa og ömmu í flugi á leið til foreldra sinna sem voru þá búsett erlendis. Ferðin hafði gengið vel en þegar smá tími var liðinn af fluginu byrjaði afar undarlegt hljóð að hljóma um farþegarými flugvélarinnar. Hljóðið var að vísu frekar lágt, en mjög afgerandi, einhverskonar ískur eða dempað blístur og þegar litið var í kring mátti sjá fólk allstaðar í vélinni undrandi á svip, eflaust að velta því fyrir sér hvaðan hljóðið kæmi. Þegar barnabörnin sneru sér við og gægðust á milli sætanna í sætaröðina fyrir aftan þar sem amma og afi sátu þá blasti sökudólgurinn við. Ef þið hafið einhvern tímann velt fyrir ykkur hvort hægt sé að laumast til að spila á munnhörpu um borð í flugvél án þess að upp um mann komist þá er svarið nei. Afi kærði sig kollóttan um augngotur hinna farþeganna en hlýddi hins vegar afabarninu sem sussaði á hann á milli sætanna og stakk munnhörpunni í vasann og geymdi hana þar þangað til vélin lenti.

Þessi saga finnst okkur sérstaklega lýsandi fyrir karakterinn sem afi var. Grínisti og músíkant með hömlulausa þörf til að trufla hljóðleysi eða skort á stuði, meira að segja um borð í flugvél. Takk afi fyrir að kenna okkur að fíflast og að það sé alvarlega fólkið sem er raunverulega skrýtið. Lífið er bara bull og vitleysa og það að brosa stórt og vera góður við náungann er sko málið. Rokk og ról og ást að eilífu.

Dýrabarnabörn,

Vaka Orradóttir og Hildur Jara Jónsdóttir.

Fyrir margt löngu dvaldi ég ásamt mágum mínum Hartvig og Dýra eina bjarta júlínótt úti í Oddleifsey á Breiðafirði. Sátum við þar í þéttu hvannastóði innan um lundaholur og með skarfaskítslykt í nösunum. Við höfðum verið við lundaveiðar með frændum okkar systkinanna þennan júlídag. Við ætluðum að skríða í tjaldið þegar við tókum eftir nokkrum selum liggjandi á skeri skammt frá. Við létum tjaldið aðeins bíða og settumst í mölina niður við flæðarmálið. Þá var það sem Dýri dró upp úr vasa sínum munnhörpu og fór að spila fyrir okkur og selina. Ég man ekki lagavalið en það voru ugglaust einhver blússkotin stef. Selunum líkaði greinilega lagavalið og ekki leið á löngu áður en fyrir framan okkur var kominn heill flokkur selshausa með uppspenntar nasir og tindrandi stór augu. Þarna fór Dýri á kostum og spilaði af þeirri snilld að hvorki fuglar Breiðafjarðar né selir hafa nokkru sinni heyrt annað eins. Þegar tónleikum Dýra lauk og við snerum okkur að tjaldinu – hvað gerðist þá?? Jú, selirnir á skerinu klöppuðu með afturhreifum sínum svo að undir tók í næturkyrrðinni.

Það eru fleiri en selir Breiðafjarðar sem hafa notið tónlistar Dýra. Hann fór ekki langt án gítars og munnhörpunnar. Hann var alltaf tilbúinn að gefa af sér og glæða umhverfi sitt með spili og gleði. Kom reglulega á Grund og lék fyrir vistmenn. Lék fyrir maraþonhlaupara framan við Lindarbrautina sem seinni árin var orðið fastur viðburður með stórhljómsveit og miklum veitingum Hildar systur.

Dýri var einn af stofnendum Valskórsins sem í ár er kominn á 31. aldursárið. Hann dreif mig í kórinn og ég var stoltur að standa við hlið Dýra í hópi tenóranna. Hann söng einnig með Fjallabræðrum um tíma. Hann átti jú sterkar söngrætur vestur á Firði.

Það var mjög sárt þegar veikindi Hildar og Dýra ágerðust og fóru að taka af þeim ráðin. Sú hraða þróun endaði með vistun þeirra á Hrafnistu í Hafnarfirði sem hefur verið heimili þeirra síðustu tvö árin. Nú er Hildur okkar þar ein.

Dýri mágur minn var vinafastur og var í seinni tíð duglegur að sækja menn heim. Hann fór akandi meðan hann gat en síðan bara á reiðhjólinu. Skipti þá ekki máli hvort hann fór til Dóra í Bolholtið eða til vina sinna í Hafnarfirði. Hann kom oft á þessum tíma til mín. Þá snæddum við saman og vel stilltir gítarar dregnir fram og píanóið var stundum slegið. Þrátt fyrir ágeng veikindin slaknaði seint á gítarleikninni. Þetta voru dásamlegar stundir sem voru okkur báðum dýrmætar og ég sakna þeirra mikið. Dýri átti mörg frumsamin lög og texta sem hann naut að spila fyrir mig. Sem betur fer komust flest þeirra á plötu.

Ég læt öðrum eftir að minnast Dýra sem knattspyrnuhetju.

Við systkinin Alda og Pétur og allt okkar fólk söknum Dýra mikið. Við vonum að hann finni ró á sínum nýja stað. Að hann skapi tónlist og skemmti fólki og selum þar eins og hann gerði í næturkyrrðinni forðum við Breiðafjörð.

Fyrir hönd okkar systkina sendi ég Orra Páli, Guðnýju Völu, Vilborgu Ásu og öllum barnabörnunum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Friðrik Rúnar
Guðmundsson.

Enn er höggvið í hóp samferðamanna minna og kvaddur er nú sá er var mér einna kærastur.

Leiðir okkar Dýra Guðmundssonar lágu saman suður í Hafnarfirði fyrir margt löngu, nánar tiltekið þegar faðir minn sálugi, Haukur Sveinsson, kvæntist seinni konu sinni, Huldu Guðjónsdóttur, árið 1958. Þau hófu búskap sinn neðarlega á Hverfisgötunni í Hafnarfiði, spölkorn frá heimili fjölskyldu Dýra við Tjarnarbrautina. Feður okkar Dýra voru skákfélagar, voru saman í skákklúbbi. Þegar ég var í helgarheimsóknum hjá pabba og Huldu í Hafnarfirðinum fékk ég oftar en ekki að fljóta með pabba í heimsókn á Tjarnarbrautina, þar settust þeir Guðmundur að tafli og þar hófust kynni okkar Dýra. Við vorum á svipuðu reki, ég þó árinu eldri. Okkur varð fljótt vel til vina, deildum sömu áhugamálum og náðum vel saman.

Fyrst um sinn var fótboltinn efstur á baugi. Ég æfði með 5. flokk í Val, Dýri var gegnheill FH-ingur. Ógleymanleg eru falleg sumarkvöld á ýmsum sparkvöllum suður í Hafnarfirði, Hörðuvöllum, upp á Svínahrauni og inn í Engidal, Dýri tók mig með á þessa staði til að spila fótbolta með félögum sínum, skipt var á tvö mörk og leikið langt fram á kvöld. Í þeim hóp voru margir knáir kappar sem seinna urðu burðarásar í meistaraflokki FH. Auk Dýra mætti nefna, að öðrum ólöstuðum, Ólaf Danivalsson, Þóri Jónsson, Helga Ragnarsson og Viðar Halldórsson, allir afbragðsknattspyrnumenn og góðir drengir.

Þegar við Dýri komumst á unglingsárin beindist áhugi okkar í sífellt meiri mæli að dægurtónlistinni. Helsti keppinautur Bítlanna um hylli unglinganna voru Rolling Stones og urðu fljótt flokkadrættir meðal þeirra um hvor hljómsveitin væri þeim kærari. Við Dýri fylktum snemma liði með Rolling Stones og héldum okkur þar allar götur síðan. Dýri var snjall gítarleikari, sérlega músíkalskur og með næmt tóneyra. Hann var fljótur að finna réttu gítarhljómana við Stones-lögin.

Dýri skipti úr FH yfir í Val um miðjan áttunda áratuginn. Við Valsmenn fögnuðum því, hann var burðarás í Valvörninni, varð bæði Íslands- og bikarmeistari og var valinn í landsliðið. Það var svo félagslífið í Val og tónlistin sem tengdi okkur aftur saman. Við vorum stofnfélagar í Valskórnum fyrir rúmum 30 árum og stofnuðum í kjölfarið Valsbandið ásamt nokkrum félögum okkar úr kórnum og spiluðum á skemmtunum Valsmanna.

Eftir að „Fjósið“, félagsheimili Vals var fullgert, mættum við Dýri fyrir flesta heimaleiki Vals í knattspyrnu með kassagítara í farteskinu og létum menn taka hressilega undir „Valsmenn léttir í lund“ fyrir leik. Þessum sið héldum við fram á síðustu ár. Dýri hafði líkt og margir tónlistarmenn góða myndlistarhæfileika. Í sjötugsafmæli mínu færði hann mér að gjöf fallegt málverk sem hann hafði málað, „Húsið“ heitir það og hangir á vegg í fordyrinu heima. Það mun alltaf minna mig á vin minn, bjartleitan, glaðsinna og ávallt jákvæðan. Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til Hildar, Ásu, Guðnýjar og Orra og allra barnabarnanna. Guð almáttugur blessi minningu góðs drengs, hans er sárt saknað.

Óttar Felix Hauksson.

Dýri var einstakur karakter, frábær félagi og drengur góður í bestu merkingu þeirra orða.

Hans verður sárt saknað af okkur félögunum í FH-körlum, félagsskap sem við sautján grjótharðir FH-ingar stofnuðum árið 1982. Tilgangurinn var að viðhalda vináttu og samfundum með því að sprikla saman innanhúss okkur til ánægju og heilsubótar eftir að keppnisskórnir voru komnir á hilluna. Góður ásetningur varðandi heilsuræktina vildi samt stundum gleymast þegar keppnisskapið hljóp með menn í gönur og ekkert var gefið eftir í tæklingum og baráttu.

Dýri er fjórði félagi okkar sem fellur frá en hinir eru Halldór Fannar, Þórir Jónsson og Helgi Ragnarsson. Þessir félagar okkar voru eins og Dýri litríkir einstaklingar sem lífguðu vel upp á félagsskapinn og reyndar hvar sem þeir komu. Blessuð sé minning þeirra.

Dýri var mikill Hafnfirðingur, ekta Gaflari, sem ólst upp við Lækjargötuna og Tjarnarbrautina í hjarta Hafnarfjarðar. Hin síðustu ár dreymdi Dýra um að flytja aftur í fagra Fjörðinn sinn og varð honum að ósk sinni þegar hann flutti inn á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Dýri lék bæði handbolta og fótbolta með FH sem unglingur en valdi síðan fótboltann og varð frábær leikmaður, lék landsleiki og er einn af bestu knattspyrnumönnum í sögu FH.

Dýra var margt til lista lagt, hugmyndaríkur og uppátækjasamur. Hann var ekki aðeins frábær félagi og góður íþróttamaður. Hann var einlægur tónlistarunnandi, flottur gítarleikari, samdi lög og texta og skemmti og gladdi fólk víða með uppákomum sínum. Það lýsir félaga okkar vel þegar við FH-karlar fórum í veiðiferðir og tókum að sjálfsögðu með okkur veiðistangir og tilheyrandi græjur, nema Dýri, hann kom með gítarinn og nótnastatíf og hélt uppi stemningunni og fjörinu þegar við átti. Ekki má gleyma skemmtilegum tilsvörum hans enda mikill húmoristi og gleðigjafi.

Dýri var gæfumaður í einkalífinu og það fór ekki fram hjá okkur hversu samrýmd þau Hildur, hans góði lífsförunautur, voru. Börn þeirra hjóna bera því vitni að hafa fengið góðan undirbúning í uppeldinu til að takast á við lífið og framtíðina. Það voru margar skemmtilegar og eftirminnilegar samverustundir sem við áttum með konum okkar og börnum.

Dýri var mikill vinur vina sinna, sem við félagar hans nutum. Á kveðjustund minnumst við hans með söknuði en jafnframt einlægu þakklæti fyrir langa og skemmtilega samfylgd.

Hildi og fjölskyldunni sendum við innilegustu samúðarkveðjur og megi fallegar minningar um góðan dreng verða þeim huggun í sorginni.

Albert, Ársæll, Ásgeir, Björn, Daníel, Gunnlaugur, Ingvar, Jón Már, Jón Vídalín, Ómar, Pálmi, Pétur og Viðar.

Minn kæri vin Dýri og dýrmæti sálufélagi.

„Sannlega fló sút í brjóst mér inn“, eins og segir í gömlum sálmi er mér barst dánarfregn. Máski ertu hvíldinni feginn. Mig langar að þakka góðar gleðistundir sem við áttum í músíkinni á liðnum árum. Meistari Megas hefur bent á að orðið sút eigi sannlega við um þá tegund tónlistar sem er blúsinn þó að hann geti líka verið skemmtilegur á köflum. Þar varstu á heimavelli og mikið skelfing var gaman að spila með þér og oft var glatt á hjalla.

Í Davíðssálmi 150 segir á einum stað: „Lofið Guð í helgidómi hans“, og það gerðirðu títt á Nesinu.

Og enn segir: „Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju.“

Ég trúi því að englar alheimsins taki þér í mót með hörpum sínum og gígjum og ég er aldeilis viss um að englarnir elski blús. Og þá er bara að telja í Rauða húsið hans Hendrix sem við héldum mikið upp á.

Guð blessi þig eðla vin og alla þína.

Sjáumst síðar,

Hannes.

Dýri Guðmundsson var einn okkar sem lukum stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1971. Við vorum í eðlisfræðideildarbekknum 6-Z og höfðum verið saman í bekk í tvö til fjögur ár. Það voru bara strákar í bekknum, aðallega úr Hafnarfirði, Kópavogi og austurhluta Reykjavíkur. Dýri var ávallt kátur og hress, hann gat verið bæði uppátækjasamur og frumlegur, fyndinn og skemmtilegur.

Árin fjögur í Menntaskólanum í Reykjavík fyrir rúmri hálfri öld voru tími þar sem margt gerðist í lífinu. Þetta voru fjögur tiltölulega löng ár félagslegs þroska og mótunar, tími þar sem við prófuðum okkur áfram í lífinu. Þetta voru líka umbyltingartímar í þjóðfélaginu og í raun um allan hinn vestræna heim. Ungt fólk reis þá upp gegn ríkjandi venjum og viðhorfum eftirstríðsáranna og þar átti ný og þróttmikil dægurtónlist ekki síst hlut að máli.

Dýri var góður músíkant, spilaði á gítarinn, söng og hélt gjarnan uppi fjörinu, m.a. í Selsferðum og í bekkjarpartíum hjá Torfa í Kópavogi. Tónlistin fylgdi Dýra allt lífið og gítarinn var sjaldan langt undan. Hann spilaði stundum með félögum sínum á stúdentsafmælum og víðar. Á seinni árum spilaði hann og hvatti hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni utan við heimili sitt og Hildar efst á Lindarbrautinni. Það var ekki ónýtt fyrir okkur lafmóða.

Dýri varð snemma afburða íþróttamaður. Á MR-árunum var hann kominn í meistaraflokk FH, bæði í fót- og handbolta. Við vorum stoltir af okkar manni. Síðar varð Dýri hluti af frábæru liði Vals, margfaldur Íslandsmeistari í fótbolta og landsliðsmaður.

Bekkurinn okkar varð líka skólameistari í knattspyrnu í MR enda vart annað hægt með tvo landsliðsmenn innanborðs, Dýra og Rúnar Vilhjálmsson. Rúnar lést í hörmulegu slysi í London í ferð með landsliðinu árið 1970.

Leikfimitímar í MR voru í gömlu pínulitlu íþróttahúsi skólans þar sem Jói Sæm, faðir Guðna forseta, kenndi okkur í síðasta tíma dagsins. Þá var spilaður handbolti fram eftir kvöldi eða þar til tími var kominn á skúringar og við reknir út. Þarna var Dýri lykilmaður þótt boltanum væri ekki auðkomið framhjá Skafta félaga okkar sem þá var markvörður hjá Ármanni. Þetta var skemmtilegur tími.

Þótt leiðir skildi eftir stúdentspróf rákumst við oft á Dýra gegnum árin enda ekki hjá því komist, hann kom víða við og gaman að spjalla við hann. Á fjörutíu ára stúdentsafmælinu buðu þau hjónin bekknum okkar heim til sín. Það voru ánægjulegir endurfundir.

Við kveðjum nú góðan dreng með söknuði; vandaðan, ljúfan, skemmtilegan og eftirminnilegan. Við sendum Hildi og afkomendum þeirra hlýjar og innilegar samúðarkveðjur.

Gylfi, Ingvar, Jón, Kristján, Ólafur, Yngvi og Þorbergur.

Við Dýri kynntumst þegar ég gekk til liðs við félagsmálaráð Vals þar sem Dýri og fleiri höfðu komið á fjölbreyttu tómstundastarfi fyrir Valsara og íbúa í Valshverfinu. Þar skilaði hugmyndaauðgi og bjartsýni Dýra góðum árangri. Meðal verkefna sem ráðið studdi við eða hleypti af stokkunum má nefna pílukast, getraunamorgna, danskennslu, göngu- og skokkhóp, skákkvöld, bridgemót, útgáfu fréttabréfs og dreifingu í húsin í hverfinu, Valshlaupið og Þrettándabrennu með tilheyrandi blysför, að ógleymdu Valsbandinu þar sem Dýri blómstraði sem gítarleikari. En líklega er stærsti minnisvarðinn um starf Dýra í ráðinu stofnun Valskórsins sem nú er á 31. starfsári.

Síðsumars árið 1993 sagði Dýri við mig: „Nú er komin kapella á Hlíðarenda, þarf þá ekki að vera kór í henni?“ Saman unnum við að undirbúningi, fengum kórstjóra og hófum smölun meðal Valsara, vina og vandamanna og íbúanna í hverfinu. Kórinn hóf æfingar um haustið, blandaður fjórradda kór, og þegar karlaraddirnar reyndust vera of fáliðaðar munstraði Dýri Valsbandið til þátttöku og kórnum var borgið. Næsta vor hélt kórinn vortónleika með áherslu á sönglög Valsmannsins Sigfúsar Halldórssonar og voru Sigfús og Steinunn kona hans heiðursgestir. Þá vorum við Dýri glaðir og stoltir yfir því hversu vel tókst að hrinda hugmynd hans í framkvæmd.

Dýri söng lengi með kórnum og var alltaf kátur og drífandi, vinsæll meðal kórfélaga og greip oft í gítarinn þegar sungið var í partíum kórsins.

Utan Valsstarfsins áttum við Dýri samleið hátt í tvo áratugi í gamalli skólahljómsveit Menntaskólans í Reykjavík sem endurvakin var til að spila á hátíðum afmælisárganga. Þegar annar gítarleikari sveitarinnar fluttist til útlanda var Dýri fenginn í hans stað. Við það breyttist lagavalið og rokkið varð harðara. Ég hugsa með gleði til Dýra þegar ég heyri kröftuga upphafstóna í lögum Rolling Stones og Jimi Hendrix. Í þeirri tónlist var Dýri ætíð á heimavelli.

Blessuð sé minning hans.

Stefán Halldórsson.

Dýri Guðmundsson var rokkari, innan vallar sem utan. Mick Jagger fótboltans. Hávaxinn, glaðlyndur, brosmildur, með lubbalegt hár, las leikinn eins og Beckenbauer og með betri boltatækni en aðrir miðverðir. Hann var listamaður af Guðs náð og með gítarinn í fanginu var hann engum líkur, nema sönnum rokkara! Þegar knattspyrnuferlinum lauk var gítarinn og gleðin samferða kappanum. Í miðbænum, á dvalarheimilum, í Reykjavíkurmaraþoni, á götuhornum – með sól og blíðu í hjarta. Við tókum iðulega lagið, ásamt fleiri söngelskum Valsmönnum; ég kunni Brimkló og Bjögga upp á tíu en Dýri slóst í för með John Lennon, Jagger, Bowie. Árið 1979 stofnuðum við kvartettinn Stapabræður á Arnarstapa eftir ógleymanlega ferð Valsliðsins til Ólafsvíkur þar sem sungið var fram eftir nóttu á heimili Sveitó. Eftir það kallaði hann mig Togga texta eða Stro (Strogrímur).

Annað slagið mætti Dýri með Orra son sinn á æfingar og guttinn lék sér að Hlíðarenda á með við púluðum. Aðeins einu sinni gleymdi hann syninum og brunaði heim. En það er gott að bíða eftir pabba sínum að Hlíðarenda.

Dýri er og verður öllum ógleymanlegur. Einstakt ljúfmenni sem elskaði lífið og var sannur vinur vina sinna. Við í Val deildum honum með FH sem honum þótti ekki síður vænt um. Dýri elskaði alla og allir elskuðu hann.

Ég tek mér það bessaleyfi að skrifa þessar örfáu línur, fyrir hönd fjölmargra fyrrum leikmanna Vals, um okkar ástkæra Dýra. Okkar eina sanna Dýra sem var öllum dýrmætur.

Við vottum fjölskyldu hans og ástvinum okkar dýpstu samúð.

Þorgrímur Þráinsson

Fallinn er frá einn minn besti vinur, Dýri Guðmundsson. Alltaf koma svona andlátsfréttir illa við okkur þó að vitað væri að hverju stefndi. Við Hildur og Dýri, ég og Helga höfum átt samleið í rúm 50 ár. Börnin okkar vinir sérstaklega Ása og Hildur okkar. Mörg gamlárskvöldin áttum við saman, sitt árið hjá hvoru. Ferðir í sumarbústaði víða um land, utanlandsferðir og ekki síst gönguhópurinn góði. Ég man þegar ég hitti Dýra fyrst með gítarinn undir hendi og Hendrix-hárgreiðsluna, annars voru Rolling Stones hans ær og kýr. Þetta var á Rauðarárstígnum forðum daga. Hildur og Helga saman í lyfjafræði, við Dýri í viðskiptafræði. Tókum saman löggildingarpróf í endurskoðun seinna meir. Dýri rak endurskoðunarstofu um árabil, ekki held ég að það hafi átt sérlega vel við hann að standa í eigin rekstri en allt blessaðist það nú. Ekki má gleyma fótboltamanninum Dýra. Fyrst FH enda minn maður Hafnfirðingur í húð og hár, síðan Íslandsmeistari með Val. Dýri lék þó nokkra landsleiki fyrir hönd okkar á klakanum. Hafnaði þó tilboði um atvinnumennsku í Þýskalandi. Marga sáum við fótboltaleikina saman, alltaf varð Dýri að sitja FH-megin. Sem betur fer eru minningarnar góðar um Dýra. Því miður verð ég erlendis á útfarardaginn en sendi Hildi og börnum og barnabörnum Dýra innilegar samúðarkveðjur. Eftir stendur minning um góðan dreng.

Sturla Jónsson.

Sú sorgarfregn barst í síðustu viku að vinur okkar, Dýri Guðmundsson, væri látinn eftir harða og hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm. Dýri kom inn í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju árið 2001. Hann hafði þá þegar gert sig gildandi í kirkjustarfinu sem félagslegur endurskoðandi sóknarinnar. Þau Hildur Guðmundsdóttir, eiginkona Dýra, voru bæði velunnarar kirkjunnar og tóku virkan þátt í kirkjustarfinu á Seltjarnarnesi. Þar kom einnig að Hildur var ráðin kirkjuvörður og eftir það voru þau hjón sem heimilisfólk kirkjunnar og sinntu þar saman margs konar verkefnum af elju og elskusemi.

Það munaði um Dýra í kirkjustarfinu. Hann kom auga á verkefni sem þurfti að sinna – og var iðinn, ekki aðeins við að benda á heldur einnig að vinna og leysa. Þannig dreif hann í að mála anddyri kirkjunnar eitt sinn, einn síns liðs. Það gerði hann óaðfinnanlega vel og var helst á honum að heyra að þetta hefði verið hin besta skemmtun.

Þegar Dýri minnkaði við sig endurskoðunarverkefnin skapaðist rými fyrir meiri tónlistariðkun og –flutning, og einnig myndlist. Ég minnist myndlistarsýningar hans í Seltjarnarneskirkju þar sem frumlegar myndir hans, sumar unnar í tölvu og jafnvel í Excel, birtu nýja hlið á talnaglöggum manninum.

Þau Hildur voru dugleg að sækja guðsþjónusturnar, einnig þegar Hildur var ekki í kirkjuvörslunni. Þá hafði Dýri oft gítarinn meðferðis og fékk alla til að taka þátt í fjöldasöng í safnaðarheimilinu að messu lokinni. Þetta voru skemmtilegar stundir. Sungin voru þekkt lög, bæði íslensk og erlend, sem allir gátu sungið. Svo voru auðvitað einnig leikin og sungin Rolling Stones-lög, en þá kom Dýri gjarnan með textablöð til að viðstaddir gætu tekið þátt í söngnum.

Dýri sýndi mikið æðruleysi þegar sjúkdómurinn- sem síðar dró hann til dauða gerði fyrst vart við sig. Hann varð að hætta að aka bíl og tók þá að hjóla af miklum krafti vítt og breitt um Seltjarnarnesið og borgina. Oftar en ekki kom hann við í kirkjunni á ferðum sínum og tók þátt í því góða samfélagi sem þar er. Dýri var vinamargur og andlát hans er ekki einasta mikill missir fyrir fjölskyldu hans heldur einnig okkur öll sem þekktum hann og nutum vináttu hans. Það er því með einlægu þakklæti sem við minnumst Dýra og biðjum fyrir honum, eftirlifandi eiginkonu og fjölskyldunni allri. Vottum við þeim okkar dýpstu samúð.

Haf þú þökk fyrir allt og allt.

Fyrir hönd sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju,

Svana Helen Björnsdóttir, formaður sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju

Í lok síðustu aldar hófum við félagar að stunda skokk með Trimmklúbbi Seltjarnarnes. Meðal hlaupafélaga var Dýri Guðmundsson. Þar byrjuðu kynni okkar af honum sem þróuðust yfir í góðan vinskap. Það voru einstök forréttindi að skokka með Dýra og það var honum að þakka að hlaupaæfingarnar urðu sérstakt tilhlökkunarefni. Í upphitun var alltaf gáð hvort Dýri væri ekki mættur en sem betur fór mætti hann vel. Stundum þurfti hann þó að vera á fundum sóknarnefndarinnar sem hann vildi heldur nefna „varnarnefndina“ vegna stöðugrar varnarstöðu kirkjunnar. Á skokkinu nutum við mjög hans einstöku nærveru, skapið alltaf gott, alltaf fundið upp á áhugaverðum og skemmtilegum umræðuefnum og stundum ýmiss konar græskulausum uppátækjum. Hann lét okkur syngja hvetjandi hergöngusöngva á skokkinu og skáldaði jafnóðum fyndna texta með laginu. Einnig var gangandi vegfarendum óspart boðið góðan daginn gjarnan á tungu viðkomandi. Til dæmis fengu líklegir Kínverjar kveðjuna „ní há“ og ef viðkomandi var talinn pólskur var það „dsjin dobre“. Stundum flugu einnig „góðan daginn“ eða „good afternoon“ upp á von og óvon. Dýri opnaði augu okkar fyrir snilld Rolling Stones og gerði marga hlaupafélaga sína að ólæknandi Stónsurum.

Í Reykjavíkurmaraþoninu var Dýri einstakur gleðigjafi, ekki sem skokkari heldur sem rokkari. Dýri mætti með hljómsveit sinni fyrir utan hús sitt á Lindarbraut 25 og spilaði hvatningarlög fyrir hlauparana. Þetta vakti gríðarlega lukku meðal þeirra og margir fórnuðu dýrmætum sekúndum og jafnvel mínútum fyrir framan húsið hjá Dýra til að njóta aðeins lengur. Margir vinir og kunningjar Dýra og Hildar sem hlupu ekki í maraþoninu söfnuðust saman til að hlýða á tónleikana og nutu ríkulegra veitinga Hildar. Menn hlökkuðu því alltaf til Reykjavíkurmaraþonsins, jafnvel eftir að hlaupum var hætt.

Oft hittumst við vinir Dýra á kaffihúsi Blómastofunnar á Nesinu eða á Rauða ljóninu til þess að fá okkur kaffi og syngja saman. Útbúið var hefti með textum, flestum eftir Rolling Stones og Kinks en einnig Hljóma og fleiri hljómsveitir. Einu gilti hvaða lag manni datt í hug, Dýri gat spilað allt á gítarinn. Hæstum hæðum náðu þessar söngstundir þegar Örn Kaldalóns mætti með bassann og Gréta systir hans með sína fallegu söngrödd. Þó að fáum orðum fari um snilld okkar hinna á söngsviðinu heyrðum við aldrei aðra gesti kvarta yfir „tónleikunum“. Með tímanum þróaðist þessi hluti Trimmklúbbsins yfir í hjólahóp sem var að sjálfsögðu nefndur „Dýravinir“.

Að ferðalokum viljum við þakka fyrir vináttu Dýra og að hafa fengið að kynnast svo einstökum manni. Við vottum Hildi, börnum þeirra og barnabörnum innilega samúð okkar. Blessuð sé minning Dýra, hans verður sárt saknað.

Friðrik G. Halldórsson og Sæmundur E. Þorsteinsson.

Við Dýri kynntumst á skokki með TKS um aldamótin. Seinna stofnuðum við nokkrir TKS-félagar sunnudagshjólahóp og Facebook-hópurinn okkar hét auðvitað Dýravinir. En auk þess tókum við fljótlega að hittast í hádeginu á laugardögum í blómabúð og kaffihúsi við Eiðistorg til að spjalla og raula dægurlög. Þar lék Dýri á gítar af miklu listfengi og leiddi söng og var því ávallt tilhlökkun að mæta. Eftir að blómabúðinni var lokað flæktumst við milli kaffihúsa en enduðum fyrir utan Rauða ljónið á Eiðistorgi. Okkur fannst vanta meira líf á Eiðistorgið og við fengum því fund með menningarnefnd Seltjarnarness. Þar fluttum við ýmsar tillögur við gítarundirleik Dýra og svo var sungið saman. Tillögur okkar voru auðvitað samþykktar, annað var nú ekki hægt. Ein tillagan var að halda mánaðarlega markaðsdaga á Eiðistorgi. Þetta sló í gegn, varð að nokkrum bæjarhátíðum með troðfullu torgi, Selkórinn söng eitt sinn, dixíland-hljómsveit spilaði öðru sinni og Dýri lék á rafmagnsgítar.

Í sumarfríi á Vestfjörðum fyrir næstum tveim áratugum rákumst við Lilja óvænt á Dýra og Hildi á Þingeyri. Það urðu fagnaðarfundir og stakk Dýri snarlega upp á að hann færi með okkur í ferðalag um Svalvogaveg. Torfær og hrikalegur 50 km jeppavegur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Svalvogavegur er sagður með fallegustu leiðum á Íslandi. Dýri á ættir að rekja til Dýrafjarðar. Hann hafði því frá mörgu að segja og naut þess að fræða okkur um það sem fyrir augu bar. Það leyndi sér ekki að honum þótti vænt um þessa sveit sína. Nú er gott að eiga minningar úr þessari yndislegu ferð um Svalvogaveg.

Eitt sinn lagði Dýri til að hjólaklúbburinn gerði sér hjólaferð í Hafnarfjörð, á æskuslóðir Dýra. Þar leiddi Dýri okkur um leiksvæði æskunnar í hrauninu og sagði sögur af indíánaleikjum og fleiru. Dýri mundi vel nöfn krakkanna sem höfðu búið í húsunum í hverfinu. Taugarnar til Hafnarfjarðar voru sterkar.

Gítarleikur var stóra ástríða Dýra. Hann var frábær trúbadúr. Okkur félögum hans fannst sem hann kynni öll lög og textana líka. Við gátum nær aldrei rekið hann á gat. En Rolling Stones-lögin voru vinsælust. Eitt sinn sem oftar fór hann erlendis á Rolling Stones-tónleika og var þar vísað til sætis í heiðursstúkunni, ég man nú ekki lengur hvernig það kom til. En okkur þótti það auðvitað sjálfsagt að hann sæti í heiðursstúkunni, hver annar ætti frekar heima þar?

Fyrir rúmu ári hjóluðum við tveir úr hjólahópnum í Hafnarfjörð að heimsækja Dýra og Hildi á Hrafnistu. Þar fundum við þau í matsalnum. Dýri með rafmagnsgítar en ótengdan og spilaði lágvært kunnugleg lög. Það var sárt að sjá hvernig veikindin höfðu leikið Dýra, en þau sögðu að þeim liði mjög vel þarna á Hrafnistu, sem gladdi okkur að heyra.

Minningarnar frá samverustundunum með Dýra eru mér kærar. Ég minnist þess ekki að hafa kynnst betri dreng. Megi minningin um hann lifa. Ekkert var Dýra kærara en fjölskyldan. Ég samhryggist Hildi og afkomendunum.

Jóhann Þór Magnússon.

Dýri var fjölskylduvinur. Foreldrar mínir og Hildur og Dýri voru miklir vinir. Ferðir út á land. Sumarbústaðaferðir í Litla-Botn. Áramót í Bollagörðunum. Matarboð. Ég leit alltaf upp til Dýra. Hann var karlfyrirmynd í mínu lífi. Hann var alltaf hress, til í að gera hluti og skemmtilegur. Þannig man ég eftir Dýra.

Dýri var fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta og margfaldur Íslandsmeistari. Það var ekki margt sem gat toppað það hjá 12 ára gömlum mér. Ég man eftir einni sumarbústaðaferðinni í Litla-Botn þegar ég plataði hann til þess að koma út í fótbolta með mér (líklega eftir kvöldmat). Við tókum léttan leik og ég hafði sigur. Þegar inn var komið tilkynnti ég stoltur að ég hefði sigrað fyrrverandi landsliðsmann í fótbolta og að hann hefði engu gleymt.

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskyldan í sund á Seltjarnarnesi. Þar hittum við Hildi og Dýra og ég spjallaði við þau vel og lengi. Gamlar minningar, Helga og Sturla, Ása, Guðný Vala og Orri. Þetta var síðasti spjallið okkar félaganna. Núna um helgina fórum við fjölskyldan í sund á Seltjarnarnesi, það var ekki tilviljun. Ég gat setið í pottinum og minnst Dýra, horft á hurðina og sagt börnunum mínum sögur.

Elsku Hildur, Orri, Guðný Vala og Ása, innilegar samúðarkveðjur. Ég minnist Dýra með miklum hlýhug.

Hörður Sturluson

Dýri var okkar maður í kaffispjalli sundfélaga á Seltjarnarnesi. Og stofnaði fjölmarga aðra hópa, á Ljóninu eftir hálftíma, í ísbúðinni á laugardögum, í sólinni á bak við Skarasjoppu ef það var sól, á Lindarbrautinni ef von var á svona tíu þúsund manns. Þar sem var eftirspurn eftir samveru og söng kom þessi góði fulltrúi lífsvilja og lék við hvern sinn fingur.

Hann var sigurvegari á þeim leikvöllum sem lífið hafði úthlutað honum í einkalífi, íþróttum, starfi og leik. Og í þeirri glímu sem varð hlutskipti hans við ævilok glímdi hann til sigurs af aðdáunarverðu hugrekki, lifði lífinu lifandi á meðan stætt var og dró sig ekki í hlé fyrir þeim Golíat sem honum var gert að glíma við – og mátti þá stundum hnika til hefðbundnum glímureglum.

Dýri auðgaði líf okkar á margan hátt. Við erum þakklát fyrir að hafa þekkt hann og notið lífsins með honum. Við sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd sundhóps á Seltjarnarnesi,

Jónína G. Jónsdóttir og Sigurður J. Grétarsson.

hinsta kveðja

Elsku Dýri.

Glóbrystingurinn sem kemur í garðinn okkar nú í vetur er góðlyndur, gæfur og gefandi. Hann kemur flesta daga, hvernig sem viðrar.

Sjáist hann ekki svipumst við um. Hætti hann að birtast verður hans sárt saknað, eins og þín.

Hvíl í friði, kæri vinur!

Jón Már, Guðrún og fjölskylda, Skjólvangi 5