Fátækt Mynd úr braggahverfi um 1950. Hlutverk Guðrúnar sem barnaverndarfulltrúa var að hafa eftirlit með heimilum fátæks fólks, aðallega í braggahverfunum, þar sem eymdin var oft mikil.
Fátækt Mynd úr braggahverfi um 1950. Hlutverk Guðrúnar sem barnaverndarfulltrúa var að hafa eftirlit með heimilum fátæks fólks, aðallega í braggahverfunum, þar sem eymdin var oft mikil. — Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólýsanleg neyð Hörmungarnar sem blöstu við í braggahverfunum hverfa sennilega aldrei úr huga Guðrúnar. „Stundum var ég kölluð út á nóttunni og fór með lögreglunni inn á heimili þar sem allt var í blóði eftir slagsmál, börnin grátandi og allt í rúst

Ólýsanleg neyð

Hörmungarnar sem blöstu við í braggahverfunum hverfa sennilega aldrei úr huga Guðrúnar. „Stundum var ég kölluð út á nóttunni og fór með lögreglunni inn á heimili þar sem allt var í blóði eftir slagsmál, börnin grátandi og allt í rúst. Þá þurfti að flytja börnin í Elliðahvamm við Elliðavatn. Þar rak barnavernd heimili sem tók á móti börnum á öllum tímum sólarhrings þegar svo var ástatt. Þegar ekki þótti forsvaranlegt að skilja börnin eftir í aðstæðunum og það þurfti að fjarlægja þau samstundis. Það var alveg ömurlegt.“

Ein ömurlegasta minningin er frá því að Guðrún kom að foreldrum með þrjú börn á aldrinum þriggja til sex ára í óeinangruðum skúr, þar sem þau bjuggu í einu herbergi með kolaeldavél. Einhver hafði látið vita af aðstæðum fjölskyldunnar og Guðrún átti að athuga með hana. „Ég kom þangað í eftirlit á frostköldum vetrardegi, undir hádegi, en enginn svaraði þegar ég bankaði á útidyrnar, svo ég tók í hurðarhúninn. Húsið var opið og þegar ég steig inn mætti mér ískuldi. Dyrnar lágu beint inn í eldhúsið. Ekki var búið að kveikja upp í eldavélinni því það voru ekki til kol. Herbergið var þar við hliðina, lítið og þröngt. Ekkert var þar inni nema ein flatsæng á gólfinu. Ekkert rúm. Og þar lá öll fjölskyldan saman í hnipri til að halda á sér hita. Það var ekki viðlit fyrir þau að fara undan sængunum því það var svo kalt að það var frosið í hlandkoppnum. Þetta er mynd sem fylgir mér til dauðadags.

Ég var eins og fáráður, mér voru allar bjargir bannaðar, því ég gat ekki ráðstafað einni einustu krónu til þessa fólks. Ég gat ekki keypt kol eða séð til þess að það væri matur handa fólkinu. Það var skelfilegt að koma inn í þessar aðstæður og vera svona vanmáttug. Það eina sem ég gat gert var að benda þeim á framfærslunefndina, því þau urðu að sækja þangað sjálf. Fyrir marga var það eins og að segja sig til sveitar. Fólk valdi ekki að gera það, af því að það fylgdi því mikil skömm og lítilsvirðing. En fjölskyldufaðirinn var greinilega atvinnulaus þannig að það var engin von um neitt skárra.“ Ári síðar flutti þetta fólk vestur á firði þar sem Guðrún vonar að það hafi búið við betri kjör.

Í annað skipti var hún að keyra systkini upp á Silungapoll, því móðirin hafði óskað eftir hvíld. Hún var gift manni sem var óhemju drykkfelldur og þegar hann kom í land fór allt til fjandans. „Ég fór vestur í Camp Knox að sækja systkinin og á leiðinni upp eftir töluðum við saman. Þau voru nú ekkert sátt við þessa ráðstöfun, en svo spurði einn strákurinn hvort það yrði kjöt á Silungapolli. „Já,“ segi ég, „af hverju spyrðu?“ „Af því að heima borðar pabbi alltaf kjötið en við fáum beinin.“

Það eru margir einstaklingar sem ég gleymi aldrei. Þessir litlu pollar sem ég sá vikulega en enduðu allt of oft sem fullorðnir menn á glapstigum. Ég fylgdist alltaf grannt með fréttum og fékk sting í hjartað yfir því hversu marga ég þekkti á Hrauninu. Þannig að þetta var ekki gróskuríkt starf eða árangursríkt. Í raun fyrirverð ég mig fyrir að hafa tekið þátt í því.“

Rósa Ólöf Ólafíudóttir var eitt þessara barna sem barnaverndaryfirvöld höfðu mikil afskipti af um miðja síðustu öld. Rétt að verða þriggja ára var hún send á Silungapoll. „Ég var rifin af móður minni. Hent upp í koju í svefnskála og skilin þar ein eftir," sagði Rósa í viðtali við Fréttablaðið árið 2007. Í einni ferð upp á Silungapoll reyndi hún að flýja þegar sprakk á bílnum, en hún var of lítil. Guðrún var fljót að ná henni, henda aftur inn í bíl og læsa.

Á uppvaxtarárum Rósu var Guðrún grunlaus um það alvarlegasta sem gekk á inni á heimilinu, en leiðir þeirra áttu eftir að liggja aftur saman eftir stofnun Kvennaráðgjafarinnar og svo störfuðu þær saman á Stígamótum. Þá þurfti Guðrún að horfast í augu við veruleika barna sem barnavernd mistókst að vernda.

Rósa var lengi reið út í barnaverndaryfirvöld og framgöngu Guðrúnar, sem birtist inni á heimilinu og fjarlægði börnin þaðan. Hún telur að yfirvöld hafi sýnt fólki í þessari stöðu lítilsvirðingu í öllum aðgerðum sínum og viðmóti. Hvarvetna hafi þau verið afgreidd eins og annars flokks fólk.

Ákvarðanir hafi verið teknar án samráðs við móður hennar og jafnvel án hennar vitundar. Aldrei voru börnin spurð að því hvað þau vildu. Eða hlustað þegar þau reyndu að segja frá. Enda sögðu þau aldrei frá ofbeldinu, hvorki móðir né börn. „Móðir mín reyndi að vernda okkur en var dæmd fyrir félagslega stöðu sína, sem var afleiðing þess að hún endaði í sambandi með ofbeldismanni.“ Eftir á að hyggja skilur Rósa ekki af hverju faðir hennar var ekki fjarlægður af heimilinu og móður hennar veittur fjárhagslegur stuðningur svo hún gæti náð sjálfstæði sínu, lifað sómasamlegu lífi og haldið börnunum. Þess í stað var hún alls staðar afskrifuð og lítilsvirt, börnin rifin í burtu og send í jafnvel enn verri aðstæður. „Ég vildi vera heima hjá mömmu. Heimilið á að vera þitt skjól, en ekki einhver stofnun úti í bæ. Með því að fjarlægja börnin stöðugt úr aðstæðum þá er verið að skapa rof í tengslum sem er hætt við að hafi afleiðingar til lengri tíma.“

Opið hatur

Ef einhver vafi hefur leikið á því hvaða hug íbúar braggahverfanna báru til barnaverndar birtist það ansi skýrt einn daginn. „Ég þurfti að sækja Ragnheiði í leikskólann klukkan fimm og átti eftir að tékka á fjölskyldu inni í Höfðaborg. Þetta var einstæð móðir með mörg börn en óreglusöm. Svo ég keyrði inn eftir og Ragnheiður, sem hefur verið fjögurra ára, samþykkti að bíða í bílnum. Ég læsi bílnum, fer og banka upp á. Ástandið á heimilinu var ekki gott þannig að ég var inni í smástund. Þegar ég kom aftur út voru allir krakkarnir á kampinum komnir í kringum bílinn, því þetta var bíll „helvítis kerlingarinnar“. Þeir voru búnir að rífa niður tvist og troða ofan í bensíntankinn, lágu síðan ógnandi á rúðunum og Ragnheiður var skelfingu lostin. Hafi ég ekki verið búin að ranka við mér fyrr, þá varð þetta til þess að ég áttaði mig á því hve mikið hatur ríkti í minn garð í kampinum. Mér féllust alveg hendur því þetta var svo opið. Þetta var í eina skiptið sem eitthvað þessu líkt gerðist, en ég gat ekki annað en bugast, því þetta var svo opið hatur og reiði sem beindist að mér persónulega. Ekki að samfélaginu heldur að mér, sem var holdtekja þessa samfélags.“ […]