Karlskrona Haukakonan unga Elín Klara Þorkelsdóttir með boltann gegn Svíþjóð í leiknum í Karlskrona á laugardaginn var í undankeppni Evrópumótsins. Elín lék vel í leikjunum tveimur gegn gríðarsterku sænsku liði.
Karlskrona Haukakonan unga Elín Klara Þorkelsdóttir með boltann gegn Svíþjóð í leiknum í Karlskrona á laugardaginn var í undankeppni Evrópumótsins. Elín lék vel í leikjunum tveimur gegn gríðarsterku sænsku liði. — Ljósmynd/HSÍ
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola tap fyrir Svíþjóð, 37:23, í fjórðu umferð undankeppni EM 2024 í Karlskrona á laugardag. Íslenska liðið var óvænt mun sterkara í upphafi leiks og komst í 8:4

EM 2024

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola tap fyrir Svíþjóð, 37:23, í fjórðu umferð undankeppni EM 2024 í Karlskrona á laugardag. Íslenska liðið var óvænt mun sterkara í upphafi leiks og komst í 8:4.

Þá tók sænska liðið völdin, jafnaði og náði fínu forskoti sem íslenska liðið náði ekki að ógna í seinni hálfleik. Liðin mættust á Ásvöllum á miðvikudag og þá vann Svíþjóð 37:24 og munaði aðeins einu marki á leikjunum tveimur.

Þrátt fyrir úrslitin er Ísland í góðum málum í undankeppninni og sigrar á Færeyjum á heimavelli og Lúxemborg á útivelli í næsta mánuði gulltryggja farmiðann á fyrsta lokamót EM frá árinu 2012.

Svíþjóð endaði í fjórða sæti á HM í lok síðasta árs, er eitt besta lið í heimi og var ljóst að sænska liðið væri mun sigurstranglegra í leikjunum tveimur. Íslenska liðið er skipað mörgum ungum og óreyndum leikmönnum og það sænska er einfaldlega betra.

„Ég er mjög ánægður með hvernig við komum til leiks og hvernig við byrjuðum. Við vorum að spila mjög vel á meðan orkustigið var í lagi og ég get ekki verið annað en stoltur af byrjuninni,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

Eðlilegt að gefa eftir

„Sænska liðið gat skipt inn nýju liði og þær héldu sömu gæðum, enda eitt besta lið í heimi. Þær gátu skipt inn á mjög góðum leikmönnum á meðan yngri leikmenn hjá okkur voru að fara í árásir sem þær eru ekki vanar að fara í. Við erum með ungt og efnilegt lið, en það er eðlilegt að við gefum aðeins eftir,“ bætti hann við.

Íslenska liðið átti fína kafla í báðum leikjunum gegn Svíþjóð, en að lokum reyndist sænska liðið einfaldlega of sterkt. Arnar segir vegferð íslenska liðsins snúast um að nálgast lið eins og það sænska.

„Eins og staðan er í dag erum við á eftir þessum bestu liðum í heimi. Við vildum auðvitað halda þessu í minni mun, en það er munur á okkur og þeim. Okkar vegferð gengur út á að nálgast þessi lið.

Það mun taka tíma, en við byrjum á að nálgast liðin sem eru fyrir neðan topp átta, því átta bestu lið heims eru ógnarsterk. Við sýndum samt sem áður í leikjunum tveimur að við getum vel spilað við þessi lið. Við þurfum hins vegar meira til og við þurfum að gefa okkur meiri tíma.“

Elín Klara Þorkelsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir fengu stórt hlutverk í leikjunum tveimur, í fjarveru Söndru Erlingsdóttur. Elín Klara er aðeins 19 ára gömul og Elín Rósa 21 árs. Þá hrósaði landsliðsþjálfarinn einnig Jóhönnu Margréti Sigurðardóttur, Aldísi Ástu Heimisdóttur og Tinnu Sigurrós Traustadóttur.

„Ég var ánægður með margt. Elín og Elín fá ofboðslega mikið út úr þessum leikjum og sérstaklega Elín Klara, sem er að spila sína fyrstu leiki á móti svona liði. Nú veit hún betur hvað þarf til og hvert hún ætlar að stefna.

Ég er líka ánægður með unga leikmenn sem komu inn. Jóhanna og Katrín voru mjög sterkar og Tinna og Aldís áttu fínar innkomur. Þessir leikmenn fá mikið út úr svona verkefni, eins og allur hópurinn,“ sagði Arnar.