Björgvin Óli Jónsson fæddist 28. janúar 1941 í Kollsvík í Rauðasandshreppi. Hann lést 20. febrúar 2024 í Reykjavík.

Foreldrar hans voru Jón Torfason útvegsbóndi, verkamaður og sjómaður, og Bergþóra Egilsdóttir húsfreyja.

Björgvin var yngstur sjö systkina. Systkini hans voru Jónína Helga, f. 1925, Torfi, f. 1927, Valgerður, f. 1929, Lilja, f. 1931, Kristín Fanney, f. 1933, og Unnur Laufey, f. 1938. Unnur Laufey lifir systkini sín.

Árið 1969 kvæntist Björgvin Esther Guðmundsdóttur þjóðfélagsfræðingi, f. 10. júlí 1948. Foreldrar hennar voru Guðmundur G. Pétursson ökukennari og Bára Sigurðardóttir verslunarmaður. Björgvin og Esther bjuggu lengst af í Fossvogi en fluttu í Kópavog árið 2015.

Björgvin og Esther eignuðust þrjár dætur. Þær eru Bára, f. 24. apríl 1970, d. 5. desember 1991. Sambýlismaður hennar var Björn Ólafur Ingvarsson, f. 24. júlí 1969, síðar kvæntur Þórhöllu Austmann Harðardóttur. Þau eiga börnin Högna Snæ, Ingvar Leó, Ylfu Margréti og Leu Oktavíu. Helga Dögg, f. 9. apríl 1974. Maki hennar er Bjarni Hauksson. Börn þeirra eru Björgvin Haukur, Inga Sif og Stefán Gauti. Ragnheiður, f. 13. mars 1980. Maki hennar er Jóhannes Andri Kjartansson. Synir þeirra eru Atli Þór, Axel Óli og Arnór.

Björgvin fæddist í Kollsvík en fluttist þriggja ára með fjölskyldu sinni í Vatnsdal við Patreksfjörð og fluttu þau síðar á Urðagötu 11 á Patreksfirði. 15 ára gamall fór Björgvin að Núpi við Dýrafjörð þaðan sem hann lauk landsprófi. Ári síðar hóf hann nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi þaðan 1961. Eftir stúdentspróf kenndi hann við barnaskólann á Patreksfirði einn vetur áður en hann hóf nám í tannlækningum við Háskóla Íslands. Björgvin útskrifaðist úr tannlæknadeild 1968 og hóf þá rekstur eigin tannlækningastofu í Reykjavík, fyrst um sinn við Túngötu en síðar við Síðumúla. Starfaði hann sem tannlæknir til ársins 2021. Samhliða störfum sínum sem tannlæknir sinnti hann kennslu við Tannsmíðaskóla Íslands og Tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Björgvin var mikill áhugaljósmyndari frá barnsaldri og var stofnmeðlimur FÁLMA (félag áhugaljósmyndara við Menntaskólann á Akureyri). Hann var mikill náttúruunnandi og hafði græna fingur. Sjaldan féll honum verk úr hendi hvort sem var í garðinum í Fossvoginum, í lóðinni við Urðagötu eða við ræktun blóma og nytjajurta. Þá ferðaðist hann mikið með fjölskyldunni, innanlands sem utan.

Björgvin var virkur í félagsstörfum. Hann sat í stjórn Tannlæknafélags Íslands og ýmsum nefndum innan félags og utan. Hann var félagi í Lionsklúbbnum Nirði frá 1978 og var þar í stjórn og nefndum, m.a. í málverkanefnd herrakvölds klúbbsins, en uppboð á málverkum er aðal fjáröflunarleið klúbbsins og hefur ágóði runnið til margra góðra málefna. Hann var í félagsskapnum K21 í 34 ár, sat þar í stjórn og var alla tíð virkur í starfi klúbbsins.

Útför Björgvins fer fram í dag, 4. mars 2024, kl. 15 frá Bústaðakirkju.

Útförinni verður streymt:

https://www.mbl.is/go/rbfby

„Af hverju er himinninn blár?“ er ein af þeim spurningum sem pabbi gat svarað með talsverðri nákvæmni. Þannig vissu öll börn í nálægð við hann að liturinn ræðst af því hvernig ljósgeislar frá sólinni brotna á gufuhvolfinu. Hann pabbi var alltaf með svör á reiðum höndum, var fróðleiksfús og naut þess að kenna öðrum. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með honum á tannlæknastofunni flestöll sumur frá 12 ára aldri og þar til ég var komin yfir tvítugt. Nú þegar við kveðjum hann pabba eru þessar stundir ómetanlegar. En hann kenndi mér ekki bara að vinna því við áttum góðar stundir við ýmislegt annað. Dútl í bílskúrnum þar sem stelpunni var kennt að höndla ýmiskonar verkfæri og að bora í vegg, rót í mold og grasi við garðrækt og síðar góðar stundir yfir rauðvínsglasi og jafnvel viskídreitli. Þá hlustuðum við saman á Ellu okkar Fitzgerald og horfðum á Chaplin-myndir. Dálæti mitt á jazztónlist, rauðvíni og viskí á ég allt honum pabba mínum að þakka.

Pabbi minn var ljúfur maður, börn hændust að honum og fullorðnum leið vel í návist hans. Hann hafði sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar og lét þær ófeiminn í ljós. Hann ræktaði fjölskyldutengslin sín og átti í góðu sambandi við ættingja, hvort sem þeir voru fjarskyldir eða náskyldir. Hann var vinamargur en undi sér best í faðmi nærfjölskyldunnar og mömmu sem hann sá ekki sólina fyrir.

Pabbi var á undan sinni samtíð þegar kom að þátttöku í heimilisstörfum en hann var einn af fáum pöbbum sem brúkaði ryksugu reglulega og sá um matseld. Oftar en ekki voru frumlegar aðferðir notaðar í eldhúsinu og þegar örbylgjuofninn kom til sögunnar varð einkennisréttur hans kjötfars í hringlaga móti þar sem hann setti glas með smjöri í miðjuna á mótinu. Þetta fór í örbylgjuna og var borðað með bestu lyst. Þá eru frægar brenndu kjötbollurnar hans og svo toppaði hann sig þegar hann bar fram kjötbollur með banönum.

Afabörnin nutu góðs af samvistum við pabba. Fengu að sinna ýmsum störfum í garðinum og öllum reyndi hann að kenna að lesa svo þau væru nú læs þegar skólagangan hæfist. En fyrst og fremst var hann góður, ljúfur og þolinmóður afi sem var afskaplega stoltur af öllum sínum börnum og barnabörnum.

Nú þegar hann hefur kvatt þetta jarðríki berjast í brjósti margskonar tilfinningar. Sorg yfir að hafa misst hann frá okkur fyrr en við vonuðum en líka gleði yfir því að hafa átt hann að og átt með honum allan þann tíma sem við þó fengum. Nú gengur hann um Sumarlandið með henni Báru okkar og ræktar garðinn sinn þar.

Minningin um besta pabbann og afann lifir með okkur. Ljósið hans skín skært.

Helga Dögg.

Elsku Björgvin okkar.

Mikið er skrítið að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til þín, þakklæti fyrir að fá að tilheyra fjölskyldunni þinni og allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Ég hefði örugglega ekki trúað því þegar Bjössi bauð mér á fyrsta ættarmótið, að nokkrum árum seinna yrðu börnin okkar svo heppin að eiga afa sem alltaf gaf sér tíma til að sitja með þeim við hitt og þetta, hvort sem það var að mála piparkökur, klappa saman lófum, skutlugerð eða mata þau að einhverju góðgæti. Krókófílasögur í tannlæknastólnum voru einnig mjög vinsælar og ekki slæmt að heimsækja afa í stólinn og hafa leyfi til að stelast jafnvel í aukaverðlaun úr skúffunni.

Einhvern veginn var það svo fjarri að þú ættir ekki eftir að vera með okkur lengur en raun bar vitni, þú varst svo hress og heilsan brást svo skyndilega.

Elsku Björgvin takk fyrir allt, við munum sakna þín.

Þórhalla (Dadda).

Björgvin tengdafaðir minn hefur kvatt þessa jarðvist og hans er sárt saknað. Kynni okkar spanna næstum þrjátíu ár og ég minnist tengdaföður míns með mikilli hlýju. Ég er þakklátur fyrir það hversu vel hann tók mér í upphafi, en það var eitthvað sem mér fannst ekki endilega sjálfsagt enda til fyrstu kynna stofnað við sérstakar aðstæður á suðrænni sólarströnd. Þannig var Björgvin, hann tók fólki vel og kallaði það besta fram í okkur sem vorum í kringum hann.

Engum hef ég kynnst sem þótti jafnvænt um börnin sín og fólkið sitt. Börnin mín nutu góðs af þessu og synir mínir tveir fylgdu ekki pabba sínum þegar kom að því að finna sér lið í enska boltanum heldur afa. Pabbinn átti ekki möguleika en Björgvin var nú einhvern veginn þannig að það var auðvelt að sætta sig við þetta. Dóttirin veitti reyndar stuðning, en sennilega meira vegna samúðar með pabbanum en þess að afi væri ekki leiðarljósið.

Björgvin tengdafaðir minn sinnti ekki bara fólkinu sínu vel heldur líka umhverfinu. Hann ræktaði garðinn heima í Kjalarlandinu og tengslin við heimahagana á Patreksfirði enda stoltur af fæðingarstaðnum, sem hann yfirgaf á sínum tíma þegar hann hóf menntaskólanám. Um aldamótin festu Esther og Björgvin kaup á gamla æskuheimilinu, ásamt Eyju systur Björgvins og Sigga manninum hennar. Eftir það urðu ferðirnar vestur tíðar. Ferðalög voru einmitt líf og yndi þeirra tengdaforeldra minna og þau áttu ekki bara athvarf á Patreksfirði heldur áttu þau hlut í sumarbústað við Gíslholtsvatn, sem og nýtingarrétt á sumarbústað við Skálmafjörð. Þessa sælureiti voru þau dugleg að heimsækja, en þau ferðuðust ekki bara innanlands heldur voru þau búin að sigla um öll heimsins höf og dæturnar þrjár höfðu oft fylgt með.

Samskiptin við tengdaforeldrana voru alla tíð mikil. Ljúfar minningar úr ferðalögum á erlendri grund og hér innanlands kallast fram, en jafnframt er gott að minnast litlu hlutanna og þeirra stunda þar sem heimsóknir og samskipti snerust um að njóta samverunnar. Börnin mín minnast ferðalaga með ömmu og afa og allra samverustundanna og afa sem gerði svo mikið fyrir þau. Afa sem fór með þeim fram á nóttunni til að drekka mjólk þegar erfitt var að sofa og afa sem var alltaf til staðar.

Björgvin tengdafaðir minn var gæfumaður í lífi og starfi og hann lifði innihaldsríku lífi, en fékk þó sinn skerf af erfiðleikum. Stóra áfallið var andlát elstu dótturinnar, en áfram var haldið og minningu dótturinnar alltaf haldið á lofti. Starfsferillinn snerist um tannlækningar og var starfinu sinnt af dugnaði og samviskusemi eins og við var að búast.

Að leiðarlokum er ástæða til að þakka fyrir alla væntumþykjuna og hjálpina. Börnin mín hafa misst mikið og síðustu dagar hafa verið þeim erfiðir, enda afi stór hluti af lífi þeirra. Minningarnar hrannast upp og þær snúast um bæði stórt og smátt og litlu hlutirnir ekki minna virði en þeir stóru. Ég veit að það verður tekið vel á móti Björgvini tengdaföður mínum á nýjum stað og minning hans mun lifa alla tíð meðal okkar sem eftir stöndum.

Bjarni Hauksson.

Í dag verður mágur minn Björgvin Óli Jónsson borinn til grafar. Hann lést eftir skammvinn veikindi, þ. 20. febrúar sl. Ég var á táningsaldri þegar ég kynntist Björgvini er hann og Esther systir mín fóru að draga sig saman. Við Björgvin urðu strax miklir vinir enda ekki erfitt að vingast við þennan mikla öðling, rólyndan og yfirvegaðan. Þar sem ég hef alltaf verið talin frekar ofvirk og uppátækjasöm og tíðum álitin vera í forsvari fyrir prakkarastrik á heimilinu var gott að eiga Björgvin að, þennan yfirvegaða vin. Margt kemur í hugann þegar Björgvins er minnst. M.a. þessi minning.

Í dymbilviku var það venja foreldra minna að aka út á Ægisíðu og kaupa rauðmaga og grásleppu af köllunum í skúrunum í Grímsstaðavör og afurðanna neytt á föstudaginn langa. Í upphafi sambands Björgvins og Estherar var farin slík ferð og þau með í för. Er heim var komið var grásleppan soðin og í eftirrétt var borin fram baunasúpa. Þegar Björgvin var búinn með grásleppuna kom í minn hlut að ausa súpunni á disk fyrir hann. Hann sat langa stund og hræði í „súpunni“, hógværðin uppmáluð, þar til mamma áttaði sig að ég hafði ausið grásleppusoði á diskinn hans. Þetta er ein af mínum fyrstu minningum um minn góða mág og ég held að atvikið hafi verið upphafið af því farsæla og ánægjulega sambandi sem við áttum alla tíð.

Þegar Esther og Björgvin eignuðust sínar dætur var það ómetanlegt fyrir mig að eignast svo stóran sess í þeirra lífi.

Önnur minning er þegar Torfi bróðir Björgvins var búinn að senda hákarl til hans, hringdi ég og spurði hvort þau þyrftu ekki að fara í bíó eða eitthvað og ég gæti passað. Þau voru vart komin út í bíl er ég var komin með dálk út á svalir að ná mér í hákarlsbita.

Ég var alltaf velkomin á heimili þeirra og leitaði mikið til þeirra. Ég var ein af fjölskyldunni og fann mig þannig. Fyrir það vil ég þakka þér, Björgvin. Þá eru það forréttindin að hafa fengið að taka svo mikinn þátt í og fylgjast með uppvexti dætranna, Báru, Helgu Daggar og Ragnheiðar.

Það var mikið áfall fyrir alla fjölskylduna þegar Bára heitin dó, aðeins tvítug að aldri. Það var eins og það drægi fyrir hjá Björgvini. Hann átti erfitt með að komast yfir missinn en þegar barnabörnin fóru að koma þá var eins og birti yfir honum, aftur. Hann var ótrúlega þolinmóður með dætur sínar og síðan barnabörnin. Hann var duglegur að sinna þeim og leika við þau og gaf þeim mikinn tíma. Nú syrgja barnabörnin afa sinn. Það er ofur skiljanlegt því hann veitti þeim öllum svo mikla virðingu, alúð og hlýju.

Nú þegar minningarnar hrannast upp stendur upp úr hversu vel Esther og Björgvin tóku á móti mér á sínu heimili. Sömuleiðis hvernig þau tóku á móti Kristjáni eiginmanni mínum og Merimu dóttur okkar. Þau glöddust yfir öllu sem hægt var að gleðjast yfir.

Nú að leiðarlokum vil ég þakka þér, Björgvin minn, fyrir samfylgdina í gegnum áratugina. Ég sendi Esther, Helgu Dögg, Ragnheiði, Bjössa og fjölskyldum mínar innilegustu samúðarakveðjur.

Hvíl þú í friði elsku mágur.

Sigríður Guðmundsdóttir.

Andlát frænda míns ristir djúpt. Hann hefur lifað ævi sína að fullu, heiðarlega og fallega. En samt er erfitt að ímynda sér heim þar sem hann er ekki til staðar, þessi góði maður sem hefur alltaf stutt mig, í sextíu ár. Hann var sá sem bar mig nýfæddan heim af Landspítalanum í upphafi míns lífs, aðeins tuttugu og tveggja ára gamall. Og nú, við enda hans lífs, fengum við að hittast og eiga dýrmætar stundir saman, á þessum sama Landspítala.

Á meðan hann lærði til tannlæknis fékk ég að sitja inni í herbergi hans á heimili foreldra minna og trufla hann. Hann rétti mér bók, og ólæs skoðaði ég myndir af vísindamönnum og tilraunum og tönnum, og hann tók tíma í að svara og útskýra, og bjó svo til skrýtin aðgangsorð sem þýddu hvaða bók ég fengi, og einhverra hluta vegna man ég þessi orð ennþá. Þetta var leikur, en líka lærdómur. Hann var þannig meira en frændi; að hluta til eldri bróðir, að hluta til föðurmynd. Og auðvitað átti hann eftir að verða góður pabbi sinna eigin barna, besti pabbi í heimi.

Og einn dag birtist með honum þessi fallega og flott klædda skvísa, sem átti eftir að standa með honum alltaf og eiga langa og fallega ævi honum við hlið. Ég öðlaðist nýtt hlutverk með þessu unga pari; nú var ég tilraunadúkka svo þau gætu æft sig að verða foreldrar. Með þeim borðaði ég í bíltúrum á sunnudögum næstum jafn mikinn ís og barnabörn þeirra samanlagt, tíu talsins. Og svo kom að því, að sjálfsögðu, að hann skammaði mig fyrir lélega tannhirðu, ég fengi engar nýjar tennur, ég var ekki hákarl, og ég lofaði, lærði og vandaði mig við að gera betur, og bý ennþá að því. Úr grasi uxu dætur hans, frænkurnar mínar. Og með tíð og tíma, í gegnum sorgir og sigra lífsins, áður en ég vissi af, þetta gerðist hreinlega þannig því ég var jú erlendis, voru allt í einu sprottnar upp þessar nýju fallegu fjölskyldur sem honum tilheyrðu og steyptar í sama mót, full ástar, samheldni og óvenju góðs húmors sem greinilega erfðist. Þau eru rík af arfleifð hans og með þeim mun hann lifa í gegnum fallegar minningar.

Á síðustu sunnudagsnóttu hans hér sat ég við hlið hans og reyndi að þakka fyrir allt og allt með einhverri óbakaðri ræðu um jólaljós á leiði foreldra minna, að taka konu minni opnum örmum og hann bara sofnaði áður en ég var búinn að tala. Maður finnur stundum hvað orð eru lélega til þess fallin að gera lífinu skil, hvað þá tilfinningum. Svo vaknaði hann tveimur tímum síðar og spurði mig: „Hvernig er endajaxlinn?“ Í miðri baráttu við sín eigin mein og á lokaspretti lífsins fannst honum tilefni til að muna eftir smáaðgerð minni og gefa mér tannlæknisráð. „Það verður þarna alltaf laut,“ sagði hann og þegar ég tók um ævinlega hlýja hönd hans bætti hann því við að mér væri kalt.

Í gegnum sína baráttu var hann sjálfum sér samkvæmur, stóískur og sáttur, fram á síðustu stundu, umlukinn ást konu sinnar, barna sinna og barnabarna, og veri aðrir eins lánsamir. Það sem ég var að reyna að segja, þegar hann sofnaði: „Elsku frændi, þú varst, ert og verður alltaf mín fyrirmynd.“

Freyr.

Ég var unglingur þegar ég kynntist honum Björgvini. Hann var móðurbróðir kærasta míns sem síðar varð maðurinn minn. Ég man eftir Björgvini og Esther á þessum árum. Þau voru fallegt par og báru með sér nýja tíma og kraft. Ég átti hauk í horni í honum Björgvini þegar ég, mörgum árum eftir kynni okkar, ákvað að sækja um nám í Árósum í Danmörku. Hann sem tannlæknir studdi mig með ráðum og dáð í að verða tannfræðingur. Á þessum árum var þetta fag nánast óþekkt hér á landi.

Eftir námið hóf ég störf á tannlæknastofu Björgvins Jónssonar. Það var mikil gæfa fyrir mig að byrja að vinna undir hans verndarvæng og leiðsögn. Björgvin var afskaplega framsýnn tannlæknir og fagmaður góður. Hann sá tækifæri í tannfræðingum og var óhræddur við að hampa okkar kunnáttu. Ég held ég mæli fyrir hönd allra tannfræðinga sem voru frumkvöðlar í þessu fagi að við vorum þakklátar þeim tannlæknum sem gáfu okkur tækifæri og töluðu okkar máli.

Við Björgvin unnum saman í Síðumúlanum í mörg ár. Þar var oft líf og fjör með góðu fólki.

Við Björgvin eigum sama afmælisdag með fimmtán ára millibili. Hann sagði oft á afmælisdaginn okkar að nú værum við svo og svo gömul samtals.

Elsku Björgvin, við náðum að verða 151 árs saman.

Takk fyrir allt kæri vinur.

Elsku Esther og fjölskylda, Við Bergþór sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Stefánsdóttir.

Fallinn er frá góður vinur og samstarfsmaður. Þegar kveðja skal hinn látna er margs að minnast og minningarnar streyma fram. Kynni okkar Björgvins hófust fyrir rúmum 60 árum, er við hófum nám í Tannlæknadeild HÍ. Mér er minnisstæð hjálpsemi hans og stuðningur við að leysa hinar ýmsu tilraunir í verklegri efnafræði, sem lagðar voru fyrir okkur nýnemana. Þetta kláraði Björgvin án mikilla heilabrota, en sjálfsagt hefur hvarflað að honum hvort þessi máladeildar-raunvísinda-fátæki drengur ætti erindi í leyndardóma efnafræðinnar.

Síðan urðum við nokkuð samstiga í náminu næstu árin og lukum prófum 1968. Það ár var erfitt í íslensku þjóðfélagi, mikið atvinnuleysi og fólk flutti af landi brott í leit að betri tíð. Björgvin lét það ekki á sig fá og hóf störf strax í eigin praxís en það var á þeim tíma alls ekki heiglum hent. Síðan liðu árin hvert af öðru meðan tengsl okkar urðu meira af persónulegum toga með samvistum milli fjölskyldna okkar. Síðar meir býðst okkur það tækifæri að hefja samstarf á nýjum stað ásamt tveimur ágætum kollegum, það samstarf átti eftir að endast í áratugi.

Mér er í minni hvað Björgvin vildi hafa allt á sem bestan máta varðandi ásýnd, umhverfi og vinnuaðstöðu. Hann þaulhugsaði lausnir og útfærslur á alls kyns vandamálum, sem ávallt fylgja stórframkvæmdum. Hann gat verið fylginn sér og jafnvel dálítið þrjóskur, en ætíð voru allir sáttir þegar upp var staðið. Þetta var fjölsóttur vinnustaður og margt brallað. Það kom fyrir að inn slæddust menn með vafasamar stjórnmálaskoðanir og vildu espa húsbændurna upp en aldrei varð mínum manni haggað á þeim vettvangi, enda skopskynið í góðu lagi. Björgvin átti sér tryggan hóp skjólstæðinga, sem nutu góðs af kunnáttu hans og vandvirkni. Eftir að starfslok blöstu við og menn voru farnir að reskjast, lét hann ekki staðar numið heldur tók upp þráðinn á nýjum vinnustað og undi sér vel í nýjum hópi kollega allt til starfsloka hans.

Björgvin var sannur Vestfirðingur og var mjög annt um æskuslóðirnar, sem hann sótti heim er færi gafst, og ekki skemmdi fyrir að hafa dvalarstaði bæði á Patreksfirði og Barðaströnd. Ég hef grun um að verandi innan um bryggjur og báta hafi smitað hann af veiðibakteríunni og naut hann þess að renna fyrir fisk í góðum hópi félaga. Ekki má gleyma að minnast á gleði hans varðandi mat og drykk, og áttu vafasöm vín aldrei upp á pallborðið.

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Björgvin og hans góðu konu Esther og fjölskyldu, þegar frumburðurinn hún Bára féll frá í blóma lífsins. Það var þungt högg og sá harmur verður ávallt til staðar.

Ég kveð góðan vin með söknuði og vottum við Hildigunnur og fjölskylda okkar Esther og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð. Minningin mun lifa um Björgvin Óla Jónsson.

Birgir J. Dagfinnsson.

Í dag kveðjum við hinstu kveðju kæran vin og félaga, Björgvin Óla Jónsson. Þau hjón Björgvin og Esther hafa verið félagar okkar í K-21 í 34 ár. Á þessum árum höfum við átt margar skemmtilegar og góðar stundir saman og ferðast bæði innanlands og utan. Björgvin tók virkan þátt í starfsemi okkar öll þessi ár og það ber að þakka.

Á þessum tímamótum koma ljúfar minningar í huga okkar sem áttum samleið með þeim hjónum, síðasta ferð okkar var til Sardiníu. Þar áttum við sérlega eftirminnilegar stundir saman á þessari fallegu eyju, sigldum m.a. á skútu um Miðjarðarhafið, það eru svona stundir sem gefa lífinu gildi og skilja eftir sig skemmtilegar minningar.

Björgvin var hæglátur, góður og traustur maður og vel liðinn meðal félaga okkar.

Það má sannarlega segja að það hafi verið forréttindi og mikið lán að hafa kynnst og tekið þátt í lífinu með Björgvin Jónssyni.

Blessuð sé minning hans.

Samúðarkveðja til fjölskyldu Björgvins.

F.h. félaga og maka í K-21,

Gunnar Þórólfsson.

Genginn er góður félagi okkar í Lionsklúbbnum Nirði í Reykjavík, Björgvin Óli Jónsson. Hann gekk í klúbbinn 1978 og var mjög virkur félagi alla tíð, tók af miklum áhuga og elju þátt í starfi klúbbsins. Sat meðal annars í Herrakvöldsráði í fjöldamörg ár þar sem hann var einn af okkar lykilmönnum við val á listaverkum fyrir uppboðin á þeim kvöldum. Björgvin var þar á heimavelli enda mikil listunnandi, hann gegndi einnig mörgum stjórnarstörfum og var formaður Njarðar 1986-1987

Björgvin var gerður að Melvin Jones-félaga, sem er æðsta viðurkenning Alþjóðahreyfingar Lions, í maí 2002. Hann hlaut einnig fjölda viðurkenninga á vegum íslensku Lionshreyfingarinnar. Njarðarfélögum hlotnaðist sá heiður að heiðra okkar góða félaga með æðstu heiðursviðurkenningu Lions á Íslandi, Kjaransorðunni.

Björgvin og eiginkona hans Ester tóku virkan þátt í ferðalögum og ýmsu öðru skemmtilegu sem við gerðum í þessum góða félagsskap.

Ég vil fyrir hönd okkar Njarðarfélaga þakka Björgvini hans góðu vináttu og störf fyrir klúbbinn okkar um leið og við félagarnir vottum Ester og fjölskyldu þeirra okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Björgvins Óla Jónssonar.

Fh. Lionsklúbbsins Njarðar,

Hörður Sigurjónsson formaður.