Seyðisfjörður Framtíð hitaveitunnar á Seyðisfirði er til skoðunar.
Seyðisfjörður Framtíð hitaveitunnar á Seyðisfirði er til skoðunar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Verið er að meta kosti þess af heimamönnum, RARIK, Orkustofnun og sérfræðingum á vegum sveitarfélagsins Múlaþings að setja upp nýja fjarvarmaveitu á Seyðisfirði. RARIK hefur rekið veituna hingað til en hefur hug á að segja sig frá verkefninu, en sveitarfélagið taki við um næstu áramót

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Verið er að meta kosti þess af heimamönnum, RARIK, Orkustofnun og sérfræðingum á vegum sveitarfélagsins Múlaþings að setja upp nýja fjarvarmaveitu á Seyðisfirði. RARIK hefur rekið veituna hingað til en hefur hug á að segja sig frá verkefninu, en sveitarfélagið taki við um næstu áramót.

„Það kemur í ljós hvort það verður niðurstaðan,“ segir Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings í samtali við Morgunblaðið.

Fjarvarmaveitan á ótryggu rafmagni

Fjarvarmaveita hefur verið rekin á Seyðisfirði frá 1981. Heitu vatni er dreift um bæinn um lokað hringrásarkerfi. Í kyndistöð er notað ótryggt rafmagn, en olía þegar raforkan er skert. RARIK á bæði kyndistöðina og dreifikerfið og rekur veituna, en útlit er fyrir að breyting verði þar á.

Spurður um ástand dreifikerfisins, en því hefur verið haldið fram að það sé ekki gott, segir Björn að ýmsar sögusagnir hafi verið í gangi um ástand þess. En eftir að það hafi verið skoðað sé ljóst að dreifikerfið sé ekki ónýtt, en eðlilega þurfi að halda því við.

Bjartsýnn á ásættanlega lendingu

„Viðhaldið á dreifikerfinu hefur ekki verið eins og við viljum sjá það og ég vænti þess að skilin verði eftir framlög til þess að hægt verði að koma því í lag sem laga þarf. Ég er bjartsýnn á að við náum ásættanlegri lendingu í þessu máli með RARIK,“ segir Björn.

Fjarvarmaveitan er keyrð á ótryggri raforku, en olíu þegar rafmagnið er skert. Björn er ekki sáttur við það og segir það ekki eðlilegt.

„Þarna erum við að tala um raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis og samtök sveitarfélaga á köldum svæðum hafa verið að skoða þessi mál,“ segir Björn og nefnir að fljótlega verði boðað til málþings þar sem þetta verður til umræðu.

„Þar verður rætt hversu réttlætanlegt það er að íbúar búi við þær aðstæður að lenda í hressilegum hækkunum þegar skerðing raforku á sér stað. Auðvitað koma auknar niðurgreiðslur samhliða, en þessu kerfi þarf að koma í lag,“ segir Björn.