Allt í rúst Ekki hefur tekist að semja um sex vikna vopnahlé á Gasa.
Allt í rúst Ekki hefur tekist að semja um sex vikna vopnahlé á Gasa. — AFP
Sáttasemjarar í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, beittu sér að nýju fyrir vopnahléi á Gasa í gær en Ísraelar sniðgengu þær viðræður eftir að Hamas-hryðjuverkasamtökin höfnuðu kröfu þeirra um að gefa upp lista yfir þá gísla sem enn eru á lífi

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Sáttasemjarar í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, beittu sér að nýju fyrir vopnahléi á Gasa í gær en Ísraelar sniðgengu þær viðræður eftir að Hamas-hryðjuverkasamtökin höfnuðu kröfu þeirra um að gefa upp lista yfir þá gísla sem enn eru á lífi. Möguleiki var talinn á að vopnahlé yrði tryggt ef Ísraelsmenn samþykktu kröfur Hamas, að sögn háttsetts fulltrúa innan hryðjuverkasamtakanna. Á meðal krafnanna var aukin neyðaraðstoð og að íbúar norðurhluta Gasa, sem hafa verið á flótta, fengju að fara aftur til síns heima.

Ísraelsk stjórnvöld höfðu að mestu fallist á sex vikna langt vopnahlé í átökunum og stóðu því öll spjót á Hamas að sleppa viðkvæmustu gíslunum úr haldi svo vopnahléssamningur gæti tekið gildi. Hafa milligöngumenn unnið þrotlaust að samningsgerðinni í því augnamiði að hafa frágenginn samning á borðinu við upphaf ramadans, föstumánaðar múslima, sem er eftir tæpa viku.

Engir Ísraelsmenn á staðnum

Sendinefnd Hamas kom til Kaíró vegna viðræðnanna, sem taldar voru möguleg lokahindrun fyrir samkomulag sem myndi stöðva átökin í sex vikur. Snemma í gærkvöldi sáust hins vegar engin merki um Ísraelsmenn á staðnum. „Það er engin ísraelsk sendinefnd í Kaíró,“ var haft eftir óþekktum ísraelskum embættismanni á Ynet, netútgáfu ísraelska dagblaðsins Yedioth Ahronoth. Þar kom jafnframt fram að Hamas hefði neitað að gefa skýr svör og því væri engin ástæða til að senda ísraelsku sendinefndina.“

Hjálparbirgðirnar verða fleiri

Gáfu bandarísk yfirvöld það út á laugardag að þau hefðu varpað hjálparbirgðum úr flugvél yfir Gasasvæðinu í kjölfar árásar á hjálparstöð þar, sem kostaði rúmlega eitt hundrað Palestínumenn lífið. Létu þau þess þó getið að slík birgðaafhending kæmi engan veginn í staðinn fyrir birgðir sem fluttar væru með ökutækjum til svæðisins. Þá hefur Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, heitið því að sendingarnar verði fleiri.