Við björgunarstörf Tala látinna var komin upp í tólf í gærkvöldi.
Við björgunarstörf Tala látinna var komin upp í tólf í gærkvöldi. — Ljósmynd/AFP/ Oleksandr Gimanov
Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, kallaði í gær eftir því að heimurinn hjálpaði Kænugarði að sigra „rússnesku illskuna“ þar sem tala látinna vegna drónaárásar á Odessa hafði hækkað í tólf

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, kallaði í gær eftir því að heimurinn hjálpaði Kænugarði að sigra „rússnesku illskuna“ þar sem tala látinna vegna drónaárásar á Odessa hafði hækkað í tólf. Fimm börn voru meðal þeirra látnu, þar af tvö yngri en eins árs.

„Mark, sem var ekki einu sinni þriggja ára, Yelyzaveta, átta mánaða, og Timofey, fjögurra mánaða,“ sagði Selenskí er hann nafngreindi yngstu fórnarlömb árásarinnar í færslu á Telegram og bætti því við að úkraínsk börn væru hernaðarleg skotmörk Rússlands.

Bíða eftir aðstoð

Árásin, sem gerð var á fjölbýlishús í suðurhluta hafnarborgarinnar snemma á laugardagsmorgun, eyðilagði nokkrar hæðir að hluta og skildi meira en tugi manna eftir undir rústunum. Björgunarmenn voru enn að finna lík í rústunum í gærkvöldi, meira en 36 klukkustundum eftir árásina, þrátt fyrir að Selenskí hefði sagt að leitar- og björgunaraðgerðum hefði verið hætt. Á laugardaginn bað Selenskí vestræna bandamenn Kænugarðs að útvega fleiri loftvarnakerfi þar sem Rússar héldu áfram að herja á Úkraínu með drónum, flugskeytum og eldflaugum á þriðja ári stríðsins. Sagði hann í framhaldinu að þessi nýjasta árás undirstrikaði mikilvægi þess að styðja Úkraínu því skortur væri á skotvopnum í Kænugarði þar sem 60 milljarða dala hjálparpakki frá Bandaríkjunum hefði ekki borist.

„Við erum að bíða eftir birgðum sem eru bráðnauðsynlegar og við bíðum sérstaklega eftir bandarískri lausn,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu í gærkvöldi.