Trausti Hjálmarsson
Trausti Hjálmarsson
Trausti Hjálmarsson var um helgina kjörinn nýr formaður Bændasamtaka Íslands. Trausti sem áður var formaður deildar sauðfjárbænda hjá samtökunum tekur við formennsku á Búnaðarþingi um miðjan mars. Á sama tíma verður ný stjórn kjörin og kveðst Trausti spenntur að vita hverjir veljast með honum

Trausti Hjálmarsson var um helgina kjörinn nýr formaður Bændasamtaka Íslands. Trausti sem áður var formaður deildar sauðfjárbænda hjá samtökunum tekur við formennsku á Búnaðarþingi um miðjan mars. Á sama tíma verður ný stjórn kjörin og kveðst Trausti spenntur að vita hverjir veljast með honum.

Trausti segir framboð sitt fyrst og síðast hafa snúist um að auka samtalið við grasrótina auk þess að efla samstöðu bænda í stórum og mikilvægum verkefnum.

„Það er það sem verið að kjósa og ég tek því þannig að það hafi verið hljómgrunnur fyrir mínum málflutningi í þá átt,“ segir Trausti.

Hvað áttu við með auknu samtali við grasrótina?

„Það snýst um það að forysta bænda þarf að vera duglegri að eiga samskipti og samtal við grasrótina úti í feltinu. Það eru bændurnir sem byggja upp Bændasamtökin og við þurfum að hafa þá með okkur, til þess þurfum við að vera auðmjúk alla daga og hlusta eftir því sem bændur hafa að segja,“ svarar Trausti.

Þá segir hann að jafnframt þurfi að sinna eilífðarverkefnunum sem eru afkoma bænda og ekki síður samtal Bændasamtakanna við þjóðina. „Kynna okkur fyrir þjóðinni og standa keik á bak við okkar mikilvægi sem partur af innviðum íslenskrar þjóðar, matvælafraleiðendur og bændur í íslensku samfélagi.“ Í því samhengi segir hann mikilvægt að efla samstarfið við stjórnvöld, enda hafi þau oft og tíðum áhrif á starfsumhverfi bænda og starfsskilyrði.