Berglind Allir ráðherrar fengu fyrirspurn um kostnaðinn.
Berglind Allir ráðherrar fengu fyrirspurn um kostnaðinn.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, lagði á dögunum fyrirspurnir fyrir alla ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem hún kallar eftir tölum um kostnað stofnana vegna auglýsinga, kynningarmála, viðburða og ráðstefna síðustu tvö árin eða 2022 og 2023

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, lagði á dögunum fyrirspurnir fyrir alla ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem hún kallar eftir tölum um kostnað stofnana vegna auglýsinga, kynningarmála, viðburða og ráðstefna síðustu tvö árin eða 2022 og 2023.

„Í rauninni snýst þetta um að kalla fram hver þessi kostnaður er því mig grunar að hann sé frekar mikill. Við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir því hvernig við förum með almannafé og hvort þær aðferðir sem við veljum séu til þess fallnar að við náum markmiðum okkar,“ segir Berglind þegar Morgunblaðið forvitnast um málið hjá henni.

„Ég tel mikilvægt að skoða hvaða stofnanir það eru sem eru að auglýsa og hver tilgangurinn er. Um leið þarf að kanna hvort tilganginum sé best náð með því að eyða milljónum í auglýsingar eða markaðsstarf sem kannski samræmist ekki tilgangi þeirra.“

Berglind lagði fram skriflega fyrirspurn fyrir alla ráðherra um öll ráðuneyti og allar stofnanir sem heyra undir ráðuneytin. Fyrirspurninni er einnig skipt upp í íslenska og erlenda fjölmiðla.

Miðað er við að ráðherra hafi fjórtán daga til að finna svör við undirbúnum fyrirspurnum í þinginu.