Grindavík Um 20-30 manns voru við störf er rýma þurfti Svartsengi.
Grindavík Um 20-30 manns voru við störf er rýma þurfti Svartsengi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ari Guðmundsson, verk­fræðing­ur hjá Verkís, segir rýmingu í Grindavík og Svartsengi ekki hafa haft afgerandi áhrif á vinnu við varnargarða á svæðinu. Verkafólk sem þar vinni hörðum höndum sex daga vikunnar, flesta daga allan sólarhringinn, fái…

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

Ari Guðmundsson, verk­fræðing­ur hjá Verkís, segir rýmingu í Grindavík og Svartsengi ekki hafa haft afgerandi áhrif á vinnu við varnargarða á svæðinu. Verkafólk sem þar vinni hörðum höndum sex daga vikunnar, flesta daga allan sólarhringinn, fái vanalega frí á sunnudögum og aðfaranótt sunnudags og mánudags.

„Það munaði ekki miklu fyrir okkur, við hefðum hvort eð er tekið frí.“

Þeir sjái fram á að hefja vinnu á ný í dag, nema þeim berist tilmæli um annað frá almannavörnum.

Í samtali við Morgunblaðið segir Ari að um 20-30 manns hafi verið að störfum við garðana þegar þeim hafi borist tilmæli um að rýma svæðið og hafi þau leitað skjóls í vinnubúðum sínum.

Inntur eftir viðbrögðum verktakanna við rýmingunni kveðst Ari ekki sjálfur hafa verið á staðnum en gott upplýsingaflæði og samstarf sé á milli þeirra og almannavarna, enda sé fólk farið að venjast aðstæðunum.

„Þetta er eitthvað sem menn ráða vel við og eru orðnir vanir.“

Spurður um framgang vinnunnar við garðana segir Ari vinnuna langt komna en áætlað hafi verið að henni myndi ljúka á næstu 3-5 vikum að öllu óbreyttu.

„Við erum byrjaðir á austasta hlutanum þarna fyrir ofan Þórkötlustaðahverfið, það er komin fyrsta vörn í þeim garði, kannski 2-3 metra. Síðan er byrjuð vinna þarna vestan við bæinn til móts við fjarskiptastöðina, það er byrjað að ýta upp kanti þar, en það er bara nýbyrjað að ýta upp þar.“

Höf.: Iðunn Andrésdóttir