Verkfræðingur Tækninýjungum er yfirleitt mætt með tortryggni ef ekki ótta, segir Viðar Pétur Styrkársson.
Verkfræðingur Tækninýjungum er yfirleitt mætt með tortryggni ef ekki ótta, segir Viðar Pétur Styrkársson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Gervigreind mun ekki taka heiminn yfir né gera störf mannfólksins óþörf. Eigi að síður er mikilvægt að mæta tækniþróun tímans með varfærni. Gervigreindarmódel geta verið mjög hlutdræg og unnið samkvæmt hæpnum forsendum,“ segir Viðar Pétur Styrkársson, verkfræðingur hjá Advania. Þar starfar hann á hugbúnaðarsviði og er sérfræðingur á sviði gervigreindar, sem nú er mál málanna í tölvuheiminum.

Á dögunum hélt Advania fræðslufund um gervigreind, sem Viðar Pétur segir mikinn áhuga hafa verið á. Slíkt eigi ekki síst við um stjórnendur stórfyrirtækja sem séu áfram um einaldari lausnir í sinni starfsemi og geti bætt þjónustu.

Úr skýjum í farsímann

Fyrir um hálfu öðru ári kom á markað gervigreindarforritið ChatGPT, sem alls 100 milljónir manna nálguðust á um það bil einu ári. Forritið er í skýjalausn og auðvelt að hlaða því niður í farsíma og hafa þannig í daglegri notkun. Það tók ChatGPT aðeins 3 mánuði að ná 100 milljónum notenda, en farsímar voru 16 ár að ná 100 milljónum notenda. Raunar voru farsímar eins og þekkjast í dag alls 15 ár að ná sama notendafjölda og ChatGPT hefur nú. Segir sú staðreynd sitt um áhugann á þessari nýju tækni.

„Þú slærð inn fyrirspurn í forritið um tiltekið efni og svarið berst þér innan fárra sekúndna; stundum af mikilli nákvæmni. Þetta er í raun ótrúlegt. Textinn sem berst er oft ótrúlega góður og sannfærandi,“ segir viðmælandi okkar.

Fjölbreytt forrit og íslenskt stýrikerfi

Viðar segir að notendur ChatGPT hafi í upphafi gjarnan verið forritarar sem voru að setja saman kóða. Nú sé notkunin orðin almennari, til dæmis hjá stórfyrirtækjum sem nýti þessa tækni til að sinna rafrænt ýmsum erindum frá viðskiptavinum. Þarna má til dæmis nefna að Skatturinn býður nú upp á að snjallmenni svari helstu upplýsingum sem vakna kunna í framtalsgerð sem nú stendur yfir.

Tæknifyrirtækið Open AI í Kaliforníu, sem notið hefur atfylgis Microsoft, þróar ChatGPT. Miklir fjármunir hafa verið veittir í starfið og áhersla verið lögð á að gera þessa tækni sem öruggasta. Sama gildir um þróun gervigreindarforritsins DALL-E sem skapað getur myndir út frá skráðum texta. Sora er annað forrit sem útbúið getur myndbönd, þá út frá ákveðnum upplýsingum sem forritið hefur verið matað með.
Öll þessi forrit er handhægt að nálgast og það með íslensku stýrikerfi. Þar kemur til að á síðasta ári fóru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og fleiri vestur til Kaliforníu og töluðu þar fyrir því að íslensk tunga yrði undir merkjum máltækni sett inn í þann tækjabúnað sem þar er í framleiðslu. Sá málarekstur bar þann árangur sem vænst var.

Miklar og hraðar framfarir

„Munurinn á gagnaleit á Google og ChatGPT er talsverður. Á vefnum nálgast þú texta almenns efnis sem fyrir liggur en gervigreindarforritið aftur á móti svarar í samræmi við þína fyrirspurn. Vinnur úr þeim stafrænu upplýsingum sem finna má svo víða og netið gleymir engu eins og oft er sagt. Og því lengri texta sem þú skrifar þeim mun ítarlegra verður svarið. Stundum auðvitað getur gervigreind svarað spurningum með fjarstæðum finni hún ekki upplýsingar og myndir sem teiknast upp samkvæmt skriflegum upplýsingum,“ segir Viðar Pétur og heldur áfram:

„En framfarirnar í þessu eru miklar og hraðar. Hjá háskólum, vísindastofnunum og tæknifyrirtækjum er mikill þungi nú settur í að gervigreindin hafi á þeim sviðum sem hún starfar á sömu ályktunarhæfni og mannshugurinn. Finni út með úrvinnslu upplýsinga og með rökstuðningi hvað sé rétt og rangt. Sjálfsagt getur tæknin komist langt að því leyti, en forrit og hugbúnaður hafa þó aldrei mannlega innsýn eða þetta sem kallað er heilbrigð skynsemi. Og einmitt í því liggur efinn.“

Leiðbeiningar lifandi viðmælanda

Ýmis fyrirtæki hafa nú í sinni þjónustu forritið Boost, en með því getur almenningur leitað eins og að framan er lýst helstu upplýsinga sem snjallmenni gervigreindar svara. Þessi tækni verður æ aðgengilegri, segir Viðar Pétur. Mikilvægt sé þó að fólk geti ef það rekur í vörðurnar fengið leiðbeiningar í gegnum síma frá lifandi viðmælanda.

„Upplýsingar sem fyrirtækjum berast eru í vaxandi mæli settar í forritið Private ChatGPT sem er lokað. Þessi gögn nýtast því ekki til að teikna upp þá mynd af fólki sem í dag er orðin dýrmæt viðskiptavara svo víða. Raunar er mjög vaxandi vitund fyrir því að varlega þurfi að fara með notkun stafrænna gagna, samanber að úrvinnsla þeirra með gervigreind getur verið skeikul,“ segir Viðar Pétur og heldur áfram:

„Félagsleg mörkun út frá gervigreind verður óheimil út frá því evrópska regluverki sem nú er í þróun. Þá þarf lögregla að fara mjög varlega með að láta gervigreind lesa og greinar andlitsmyndir fengnar úr öryggistækjum, því þar má engu skeika. Rafrænu lánshæfismati fjármálafyrtækja á umsóknum viðskiptavina verða líka ýmis takmörk sett.“

Allt má misnota

Viðar Pétur er titlaður vörustjóri hugbúnaðarþróunar hjá Advania. Sem slíkur fer hann fyrir fimm manna hópi sem sinnir ýmsum verkefnum á sviði gervigreindar. „Gervigreindin er afar spennandi; ég sé til dæmis fyrir mér að tölvuleikjaiðnaðurinn muni breytast mikið með þessu. Og auðvitað tekur maður eftir því að margir virðast hræðst þessa nýju tækni sem auðvitað þarf að nálgast rétt. Allt má misnota. Í ljósi sögunnar má þó hafa í huga að meiriháttar tækninýjungum er yfirleitt mætt með tortryggni ef ekki ótta – sem svo oftast reynast til bóta þegar fram líða stundir.“

Hver er hann?

Viðar Pétur Styrkársson er fæddur árið 1993: verkfræðingur með sérhæfingu í gervigreind og máltækni. Eftir meistaranám í verkfræði sérhæfði hann sig í gervigreind og starfar í dag sem sérfræðingur á því sviði hjá Advania. Hann hefur aðstoðað mörg stærstu fyrirtæki landsins við innleiðingu á gervigreind og hefur haldið fjölda fyrirlestra um málefnið og verið leiðandi í umræðunni á Íslandi.