Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir fæddist á Akureyri 8. desember 1950. Hún lést 19. febrúar 2024.

Foreldrar hennar eru Gunnar J. Sigurjónsson, f. 3. ágúst 1925, d. 28. ágúst 2004, og Jóhanna S. Tómasdóttir, f. 19. apríl 1929, búsett á Akureyri.

Systkini hennar eru: Tryggvi, Gunnar, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur og Tómas.

Börn Sigurlaugar eru: 1) Hanna Gunnur Sveinsdóttir, f. 16. janúar 1973, maki Jón Thorarensen. Börn þeirra eru Friðrik Ingi, Steinar Logi, Elmar Þór, Atli Gunnar og María Rún. 2) Sigurjón Þór Vignisson, f. 9. september 1982, maki Jónína Margrét Guðbjartsdóttir. Börn þeirra eru Freyja Rán og Jónatan Þór. 3) Stefán Ólafur Vignisson, f. 29. júní 1984, maki María Sigríður Sigfúsdóttir. Dætur þeirra eru Elísabet Aðalheiður, Júlía Sumarrós og Sonja Katrín.

Langömmudrengirnir eru Bastían Logi, Jökull Moli og Aron Þórður, og einn rétt ófæddur.

Sigurlaug starfaði lengst af hjá Rarik og svo Pósti og síma sem síðar varð Pósturinn, var flokksstjóri til margra ára, hún lauk starfsaldri sínum þar. Hún var trúnaðarmaður póstmannafélagsins um tíma og tók þátt í félagsstarfi stéttarfélagsins.

Alla tíð var hún í miklu félagsstarfi. Hún var virkur félagsmaður í Framsóknarflokknum í tugi ára og sinnti ýmsum nefndar- og trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og vann þar gjöfult starf fram á síðasta dag. Sat í miðstjórn flokksins, kjörstjórn NA-kjördæmis, sat í landsstjórn kvenna í framsókn fyrir Norðausturkjördæmi, einnig var hún sitjandi stjórnarmaður í SEF, sambandi eldri framsóknarmanna, þegar hún lést. Hún sat í stjórn Akureyrardeildar KEA. Til margra ára var hún formaður Styrktarfélags fatlaðra eða þangað til það var sameinað Þroskahjálp. Hún var mikill stuðningsmaður Íþróttafélagsins Þórs, spilaði handbolta fyrir félagið á yngri árum og sat í stjórn unglingaráðs félagsins um árabil, og vann mikið sjálfboðastarf fyrir félagið á árum áður.

Útför hennar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 4. mars 2024, klukkan 13.00.

Elsku mamma.

Mér finnst eitthvað svo rangt við að skrifa hér minningarorð til þín, þú sem varst svo hress og kenndir þér einskis meins. Þú sem varst að fara að gera svo mikið. Þú sem sinntir félagsstarfinu þínu og áhugamálum til fulls og varst í fullri þátttöku í lífinu.

Það er búið að vera erfitt að ná utan um þetta, dagarnir skrítnir og ringlaðir, hugurinn reikar í allar áttir og allt aftur í að vera lítil fimm ára stelpa þegar við bjuggum saman tvær í litlu íbúðinni í Hrísalundinum. Þegar ég var komin í skóla og labbaði til þín í vinnuna á Rarik og lærði á kaffistofunni. Öll ferðalögin. Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að fara með á hina ýmsu fundi því félagsmál voru þér mikilvæg, alltaf varstu að sinna einhverju og virkjaðir mig fljótt í að hjálpa til og taka þátt. Ósérhlífin, dugleg með mikla réttlætiskennd, kenndir mér fljótt að lítið hefðist í lífinu nema hafa fyrir því. Þú bauðst fram krafta þína á ansi mörgum stöðum og varst trú þínum störfum og ófeimin við að tala fyrir þínum skoðunum. En allt í einu er ég bara eitthvað svo lítil og stend frammi fyrir því að þú sért farin.

Þennan dag töluðum við óvenju mikið saman þar sem ég var á leiðinni suður, þú varst að sjálfsögðu með beina lýsingu á færð á vegum, en það varst bara þú, svo töluðum við saman rétt áður en þú kvaddir þetta líf, mikið er ég þakklát fyrir þessi síðustu samtöl. Þú trúðir nú ekki mikið á tilviljanir heldur sagðir svo oft að allt gerðist af ástæðum, ég verð að trúa að ástæðan fyrir því að kalla þig svona fyrirvaralaust í burtu sé stór og mikil, þú hefðir trúlega sagt það sjálf. En þú ert svo sannarlega að minna okkur á hvað línan er þunn hér á milli.

Elsku mamma, það verður skrítið að kíkja ekki út um eldhúsgluggann þegar ég fer að sofa og athuga hvort þú sért búin að slökkva í stofunni og farin að sofa, nú ertu búin að slökkva fyrir fullt og allt, þó ég viti að þú verðir nú sennilega ekki langt undan. Þú lést þig nú hvergi vanta.

Einlæg kveðja

Ég bið af dýpstu alúð engla mína

eitt augnablik að skynja heita þrá.

Ég bið þá um að virkja vængi sína

og vernda sál sem fallin er nú frá.

Já, kæru englar, burt þið sælir svífið

Í sátt og friði yfir dúnmjúk ský.

Ég veit að einhvern daginn læt ég lífið

en lifi allar stundir fram að því.

Ég minninganna yndi ekki leyni

en englaskarinn hátt til himna fer.

Um bjartan dag ég krýp á kné og reyni

að kveðja sál sem alúð sýndi mér.

(Kristján Hreinsson)

Þangað til næst mamma mín.

Þín

Hanna.

Það var sem drægi ský fyrir sólu, þegar fréttin kom um andlát Sigurlaugar minnar Gunnarsdóttur. Það er erfitt að flytja slíka frétt og erfitt að taka á móti. Silla mín hefur kvatt okkur hér. Hvað kemur upp í huga manns á slíkri stundu? Sársauki og söknuður. Þá er gott að hlúa að dýrmætum minningum, er tengjast þeim er horfinn er. Kynni okkar Sillu hófust eftir sviplegt fráfall Margrétar Jónsdóttur á Löngumýri vorið 1999. Þar var Silla oft sem hennar hjálparhella. Eftir andlát Margrétar þekkti Silla engan hér. Við vissum þá hvor af annarri og ég bauð henni að koma bara til mín er hún væri á ferðinni. Við náðum góðu sambandi og gerðum ýmislegt saman og hvor fyrir aðra. Hæst ber þó jólakortagerðina, en í mörg ár bjuggum við til öll okkar jólakort hér heima í Furulundi. Í áratug í biskupstíð sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur á Hólum, bauð hún vinkonu sinni, Kristínu Árnadóttur, djákna og fyrrverandi skólastjóra á Borðeyri, að predika í einni sumarmessunni sinni. Þá kom Kristín til mín daginn áður og gisti. Að morgni messudags kom Silla keyrandi frá Akureyri, til þess að fara með okkur heim til Hóla. Sagði að það væri of mikið fyrir Kristínu bæði að keyra og predika. Að lokinni dagskrá á Hólastað héldum við aftur heim í Furulund, en Silla okkar keyrði heim til Akureyrar. Þessar messuferðir eru geymdar en ekki gleymdar. Þær lýsa Sillu vel. Silla fylgdist vel með landsmálum. Hún var sterk framsóknarkona og vann vel fyrir sinn flokk. Ég votta fjölskyldu hennar dýpstu samúð. Elsku Silla mín, þakka þér fyrir mig. Vinátta og væntumþykja verður okkar bautasteinn.

Helga Bjarnadóttir.

Þegar sú harmafregn barst um skyndilegt og ótímabært andlát Sillu vinkonu minnar þá hvarflaði hugurinn aftur um rúm 20 ár í aðdraganda alþingiskosninganna 2003 þar sem Framsóknarflokkurinn vann glæstan kosningasigur. Leiðir okkar Sillu lágu þá saman í þeirri kosningabaráttu sem markaði áralanga vináttu og samstarf í pólitíkinni. Hún opnaði dyr heimilisins og þar átti frambjóðandinn stundum sitt athvarf. Hún reiddi fram frábæran mat á kvöldin og síðan beið rúmið uppábúið. Ein kvöldmáltíðin er mér enn í fersku minni en þá bauð hún upp á pönnusteiktan æðarfugl sem bragðaðist afbragðs vel en fuglinn hafði flækst í grásleppunetum þá um vorið. Ég hef ekki borðað æðarfugl síðan og mun trúlega aldrei gera.

Þannig myndaðist strengur á milli okkar sem aldrei brast og þau tíu ár sem ég gegndi þingmennsku gekk ýmislegt á og þá var gott að eiga stuðning Sillu enda kallaði hún mig stundum „fóstursoninn“. Sem betur fer er til fólk sem vill láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð. Silla var ein af þeim og var óþreytandi við styðja við bakið á sínu fólki og lá svo sannarlega ekki á liði sínu. Hún var hreinskilin og heiðarleg í öllum samskiptum – fólk vissi hvar það hafði Sillu.

Silla vann fórnfúst starf í þágu Framsóknarflokksins um áratugaskeið, allt til síðasta dags. Hún var ætíð til taks og mætti á nær alla stjórnmálafundi á Akureyri, kjördæmisþing, miðstjórnarfundi og náttúrulega á flokksþing. Við horfum nú á eftir einum öflugasta félaga okkar sem var óþreytandi við aðstoð og uppbyggingu félagsstarfsins. Sillu verður sárt saknað og á þessari stundu hugsar maður til þess hvort maður hafi þakkað nógsamlega fyrir alla aðstoð, alúð og hlýju sem hún veitti mér og mörgu öðru samferðafólki sínu. Fjölskyldu hennar, sem hún talaði oft svo fallega um, og öðrum ástvinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Birkir Jón Jónsson.

Fallin er frá góð og gegnheil manneskja, trygg samvinnukona og samherji í Framsóknarflokknum. Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir hafði alla hina bestu mannkosti að bera og naut flokkstarf Framsóknar meðal annars góðs af nærveru hennar í gegnum áratugina. Hvort sem um var að ræða miðstjórnarfundi, flokksþing eða aðra framsóknarfundi, alltaf mætti Sigurlaug til þess að taka þátt og láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Það var einmitt á slíkum vettvangi, 14. febrúar síðastliðinn, sem ég hitti Sigurlaugu síðast þegar ég var í heimsókn norðan heiða og hitti framsóknarfólk á Akureyri. Ekki óraði mig fyrir því að það yrði síðasta samkoman sem ég ætti eftir að hitta hana á. Hún bar sig vel er við ræddum um daginn og veginn, pólitíkina. Það er sannarlega mikill missir fyrir hreyfingu eins og Framsókn þegar kona eins og Sigurlaug yfirgefur þessa jarðvist. Ég þakka henni fyrir allt hennar óeigingjarna starf í þágu flokksins og samfélagsins í gegnum tíðina. Hugur minn er hjá fjölskyldu hennar, sem ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir
menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.