Hjónin Emma Vídó og Ólafur kynntust árið 1976 og giftu sig ári síðar.
Hjónin Emma Vídó og Ólafur kynntust árið 1976 og giftu sig ári síðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Einar fæddist 4. mars 1954 í Vestmannaeyjum og er Eyjamaður í húð og hár, þótt hinn stóri heimur hafi einnig heillað hann talsvert í gegnum tíðina. Ólafur er elstur í sínum systkinahópi og á fimm yngri systur

Ólafur Einar fæddist 4. mars 1954 í Vestmannaeyjum og er Eyjamaður í húð og hár, þótt hinn stóri heimur hafi einnig heillað hann talsvert í gegnum tíðina. Ólafur er elstur í sínum systkinahópi og á fimm yngri systur. Systur hans segja að þegar hann var unglingur hafi hann samið við þær um að halda herberginu hans hreinu gegn því að fá að hlusta á Leonard Cohen-plöturnar hans.

Ólafur segist hafa verið með eindæmum prúður í æsku. „Ég var nú alltaf að læra fyrir skólann undir ljósastaurum, á meðan vinir mínir voru hálfgerðir villingar,“ segir hann grafalvarlegur. Hann var í skátunum sem barn og þaðan lá leiðin í Hjálparsveit Vestmannaeyja. „Ég er þar í rauninni enn, þegar þess þarf.“ Hann byrjaði að læra smíðar hjá föður sínum árið 1972 og lauk við Gagnfræðaskólann í Eyjum. Eftir gos, 1973, fór hann í Iðnskólann í Reykjavík og lærði þar smíðar. Hann var mikill sjálfstæðismaður og var mikið í pólitíkinni sem ungur maður.

Ólafur var varaformaður hjálparsveitarinnar 19 ára gamall þegar eldgos hófst í Vestmannaeyjum 23. janúar 1973. Hann sinnti björgunarstörfum þennan erfiða tíma en foreldrar hans fluttu til Hafnarfjarðar, en fóru aftur til Eyja fljótlega eftir að gosinu lauk. Eftir gosið vann Ólafur hjá Viðlagasjóði og lauk við að mennta sig sem húsasmiður. Þá gerði ævintýraþörfin vart við sig og hann fór til Noregs með vini sínum þar sem hann vann á skíðahóteli í nokkra mánuði áður en þeir vinirnir fóru á Evrópuflakk.

Hann fór í félagi við tíu Vestmannaeyinga til Tansaníu í fjallgöngu á Kilimajaro 1974, en þeir voru mikið að æfa fjallabjörgun og hluti hópsins hafði áður klifið Mont Blanc. Núna í september er hálf öld liðin frá þessum stóra viðburði og segir sonur Ólafs, Kjartan Vídó, að sig langi mikið til að feta í fótspor föður síns á þeim tímamótum, en er þó ekki viss um að það takist.

Ólafur kynntist eiginkonu sinni, Emmu Vídó, árið 1976 í Vestmannaeyjum og þau giftu sig árið 1977. Ólafur vann hjá Vinnslustöðinni og Ísfélaginu sem smiður, en árið 1984 greip ævintýraþráin okkar mann og hann fór með fjölskylduna til eyjunnar Smöla í Noregi, þar sem hann vann sem smiður og Emma passaði börn. „Skyldfólk okkar bjó á þessari eyju og okkur langaði að prófa eitthvað annað og þetta var fínn tími, en við fluttum heim þegar tengdafaðir minn fékk heilablóðfall.“

Árið 1985 fór Ólafur enn lengra út í heim þegar hann fór með björgunarsveitarmönnum og Hjálparstofnun kirkjunnar til Eþíópíu, þar sem hann vann í fjóra mánuði, en eins og eldra fólk man var mikil hungursneyð í landinu á þessum tíma. „Þegar lagið Hjálpum þeim kemur út vorum við um það leyti að koma heim,“ segir Ólafur.

Árið 1986 sótti Ólafur um smíðakennarastöðu við Hamarsskóla sem hann fékk og eftir það fór hann í Kennaraskólann og útskrifaðist sem sérkennari og starfaði upp frá því við smíðakennslu. Hann hefur verið virkur í félagsmálum í Eyjum og er fv. formaður Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna í Eyjum, var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá 1991, þá yngsti kjörni bæjarfulltrúinn og forseti bæjarstjórnar 1995-1998. Þá var hann formaður skipulagsnefndar, íþrótta- og æskulýðsnefndar og félagsmálaráðs svo aðeins nokkuð sé upp talið. Ólafur er heiðursfélagi í Akóges og hann var skyndihjálparkennari til margra ára. „Svo má ekki gleyma að ég var kjörinn næstbesti skvassspilari Vestmannaeyja frá 1990-1998. Ég og vinur minn, Magnús Þorsteinsson, spiluðum skvass og við héldum árshátíð á hverju ári og þar var kosið hver væri bestur og hver næstbestur og ég var alltaf næstbestur,“ segir hann og hlær, en bætir við að hann beri titilinn stoltur. Þá var Ólafur formaður Skógræktarfélags Vestmannaeyja og nú situr hann í stjórn Rauða kross Vestmannaeyja.

Ólafur er líka mikill áhugamaður um ljósmyndun og hélt samsýningu á Einarsstofu í Eyjum 2019. „Ég framkallaði mikið sjálfur þegar ég var yngri og ég á orðið mikið safn af myndum frá síðustu áratugum og hef gaman af því að mynda náttúruna og mannlífið.“ Þá er hann tómstundabóndi með nokkrar rollur í félagi við nokkra vini sína í Eyjum og félagi í bjargveiðifélaginu Brandi.

Fjölskylda

Eiginkona Ólafs er Emma Hinrika Sigurgeirsdóttir Vídó leikskólastjóri, 23.3. 1956, og þau búa í Vestmannaeyjum. Foreldrar Emmu Vídó eru Sigurgeir Ólafsson Vídó, f. 21.6. 1925, útgerðarmaður, skipstjóri og hafnarsjóri, og Erla Eiríksdóttir Vídó, húsfreyja og verkakona, f. 26.9. 1928.

Synir Ólafs og Emmu eru 1) Kjartan Vídó Ólafsson, f. 17.2. 1979, markaðsstjóri HSÍ, kvæntur Erlu Björgu Káradóttur, f. 29.8. 1978, söngkonu og kennara, og þau eiga dæturnar Önnu Birnu, f. 14.10. 2003, og Kristjönu Emmu, f. 2010. 2) Hlynur Vídó Ólafsson, f. 26.3. 1989, starfsmaður Laxeyjar, kvæntur Kristínu Laufeyju Sæmundsdóttur, íþróttafræðingi og starfsmanni Sýslumannsins í Vestmannaeyjum, og þau eiga Heklu Rannveigu Vídó, f. 21.11. 2016; Kötlu Laufey Vídó, f. 30.11. 2018; og Hinrik Leó Vídó, f. 2.2. 2021.

Systkini Ólafs eru 1) Kristín Auður verslunarmaður, f. 26.9. 1957; 2) Hrönn, bóndi í Pétursey í Mýrdal, f. 16.12. 1957; 3) Elín leiðbeinandi, f. 4.2. 1961; 4) Iðunn skrifstofumaður, f. 7.2. 1962; og 5) Lára Kristjana verslunarmaður, f. 31.1. 1965.

Foreldrar Ólafs eru hjónin Lárus Kristjánsson frá Heiðarbrún trésmiður, f. 28.8. 1929, d. 19.7. 2012, og Kristjana Guðrún Einarsdóttir frá Kollsá í Staðarsókn, húsfreyja og fiskverkakona, f. 10.10. 1926, d. 25.6. 2012. Þau bjuggu í Vestmannaeyjum.