Í Tímaritinu Helgafelli í október 1953 eru stökur úr Vísnabók Stíganda, en skáldið kaus að halda nafni sínu leyndu. Hér er „Lax í sjó“: Hann er að sveima um höfin blá og huliðsgeima víða

Í Tímaritinu Helgafelli í október 1953 eru stökur úr Vísnabók Stíganda, en skáldið kaus að halda nafni sínu leyndu. Hér er „Lax í sjó“:

Hann er að sveima um höfin blá

og huliðsgeima víða.

Hann er að dreyma um ós og á

og æskuheima blíða.

Haustkveðja:

Svellar drag og sölnar jörð

sumardagar líða.

Kveð ég Skaga- fagran -fjörð,

fjöll og haga víða.

Langferðavísur.

Þegar ég lagði á Langasjó

í ljóma æsku minnar

átti ég nesti og nýja skó,

nóg til fararinnar.

Fátæk hafði fóstra mín

ferðaklæðin skorið.

Hún hefur ekkert hýjalín

í hempuna mína borið.


Um veröld alla leið mín lá.

Að lokum ferðir dvína.

Skemmti mér best að skoða þá

í skinnsálina mína.

Kannske ég eigi eitthvað þar

eftir í skjóðuhorni,

svo nægi mér enn um náðirnar

nestisbitinn forni.

Jóhann frá Flögu segir frá því, að Jón Jónsson á Hafsteinsstöðum í Skagafirði hafi mætt í rétti á móti presti, sem var nýkominn frá messu. Kastaði hann þá fram vísu þessari:

Það er sómi þeirri stétt,

þegar prestur stígur

fram úr stólnum fyrir rétt,

flækir mál og lýgur.

Ingólfur Þorsteinsson kvað:

Oft ég þá get öfundað,

ekki skal því leyna,

best sem koma orðum að

öllu sem þeir meina.

Enn segir Jóhann frá því, að oft hafi verið þröngt í búi hjá Guðríði Jónsdóttur húsfreyju í Múlakoti, Lundarreykjadal. Eitt sinn fór maður hennar með hest er Bleikalingur hét út á Skipaskaga og var búið þá bjargarlaust. Þá kvað Guðríður:

Heyrðu, drottinn, sárt ég syng,

særð af hungri löngu:

Sendu björg á Bleikaling

börnunum mínum svöngu.

Kveðið um smið, sem ekki þótti sérlega duglegur:

Hann er að látast hrinda í lag,

hann er að fáta og leita,

hann er að máta heilan dag,

hann er að játa og neita.