Söfnun Sviðið á fyrra herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar.
Söfnun Sviðið á fyrra herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar.
Lionsklúbburinn Njörður í Reykjavík stendur að söfnun til kaupa á tækjabúnaði fyrir Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ). Söfnunin fer fram á herrakvöldi Njarðar 8. mars nk. en það hefur verið haldið árlega í um 60 ár

Lionsklúbburinn Njörður í Reykjavík stendur að söfnun til kaupa á tækjabúnaði fyrir Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ). Söfnunin fer fram á herrakvöldi Njarðar 8. mars nk. en það hefur verið haldið árlega í um 60 ár. Sama kvöld fer einnig fram söfnun til kaupa á endurhæfingartækjum og tölvubúnaði fyrir Ljósið.

Í tilkynningu frá Nirði segir m.a. að HTÍ hafi ekki getað viðhaldið endurnýjun á búnaði um langt skeið vegna fjársveltis og því sé nú komið í óefni. Staðan bitni sérstaklega á heyrnarþjónustu fyrir börn á aldrinum 0 til 18 ára. Er markmiðið með söfnuninni nú að kaupa ákveðinn búnað sem hentar vel fyrrnefndum aldurshópi.

Herrakvöldið fer fram á Grand hóteli. Aðgangseyrir er 24 þús. kr. og innifalinn kvöldverður og skemmtiatriði. Listaverkauppboð verður til styrktar HTÍ og söfnun fyrir Ljósið verður með sölu happdrættismiða.

Bragi Valdimar Skúlason verður skemmtanastjóri kvöldsins, Haraldur Benediktsson ræðumaður og Jóhanna Guðrún syngur. Tekið er við miðapöntunum í netföngunum jks@rb.is og pll@simnet.is.