Vandræðagangur og ráðaleysi ráða för – eða eitthvað enn verra

Mikill vandræðagangur, fát og fum hefur verið í kringum undirbúning Ríkisútvarpsins að þátttöku Íslands í Eurovision að þessu sinni. Þetta ástand hefur skapast vegna átakanna sem nú eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs og ætti öllum að vera ljóst hversu fráleitt það er að þau átök liti verulega þátttöku Íslands í söngvakeppni. Og það meira að segja söngvakeppni sem lagt er upp með að eigi ekki að vera og megi ekki vera pólitísk á nokkurn hátt.

En þetta er ekki í fyrsta sinn sem tekst að flækja þátttöku Íslands í þessari annars sakleysislegu söngvakeppni inn í deilur í þessum fjarlæga heimshluta. Þátttakendur Íslands hafa áður misnotað aðstöðu sína vegna þessa án þess að Ríkisútvarpið gerði nokkuð í því. Og ekki hefur Ríkisútvarpið lært af þeim mistökum því að nú stendur stofnunin þannig að málum að hún hefur ekki einu sinni ákveðið hvort Ísland skuli taka þátt í keppninni! Þó er haldin hér söngvakeppni til undirbúnings fyrir háar fjárhæðir og svo á, að sögn Ríkisútvarpsins, bara að láta það ráðast og eiga um það samráð við þann sem vann hvort farið verði utan. Þetta er augljóslega alveg óboðlegt.

Að vísu vill svo til að það liggur fyrir að sú sem sigraði vill fara út, nema hvað, en hvað hefði gerst ef einhver annar hefði sigrað, til að mynda sá sem hafnaði í öðru sæti? Um þann keppanda má raunar líka velta því upp hvers vegna hann var keppandi því að keppnin snýst um að Ísland sendi fulltrúa sinn, en sá keppandi er ekki íslenskur og þurfti raunar sérstakar aðgerðir af hálfu Ríkisútvarpsins til að hann gæti verið fulltrúi Íslands. Hann hafði ekki gilda vegabréfsáritun hér á landi.

Nú getur Ríkisútvarpið út af fyrir sig valið keppanda hvaðan að sem er úr veröldinni til að keppa fyrir Íslands hönd, til að mynda Palestínumann, en er það tilgangurinn með þátttöku Íslands í keppninni? Ætlar Ríkisútvarpið framvegis einfaldlega að velja þann söngvara sem líklegastur er til að sigra, hvort sem hann er innlendur eða erlendur? Ef svo er þá eru allar líkur á, þó að hér á landi séu margir frambærilegir söngvarar, að framvegis verði fáir Íslendingar „fulltrúar Íslands“ í Eurovision. Væri það í lagi? Er það tilgangurinn með því að láta skattgreiðendur á Íslandi greiða fyrir þátttöku í alþjóðlegri söngvakeppni sjónvarpsstöðva?

Svo má vera að Ríkisútvarpið hafi með því að leyfa Palestínumanni að taka þátt í keppninni viljað gera þátttöku Íslands í keppninni pólitíska, þvert á reglur keppninnar. Ekki er hægt að útiloka að þetta hafi verið ætlun Ríkisútvarpsins en að landsmenn hafi með atkvæðum sínum ákveðið að fara aðra leið.

En þá gerist það, sem er ef til vill aukaatriði í þessu öllu saman og breytti engu um niðurstöðuna að sögn Ríkisútvarpsins, að atkvæðagreiðslan er véfengd. Einhverjir stuðningsmenn keppandans í öðru sætinu telja að þeim hafi verið gert ómögulegt að lýsa yfir stuðningi við sinn mann. Það hlýtur út af fyrir sig að vekja spurningar um framkvæmd keppninnar – og jafnvel um rafrænar kosningar almennt, ekki síst eftir nýjustu vandræðin sem upp komu í biskupskjöri.

Meðal annars vegna þessara mistaka og annarra í aðdraganda og umgjörð keppninnar hjá Ríkisútvarpinu er ekki úr vegi að velta upp þriðja möguleikanum, sem sagt að Ríkisútvarpið áformi hvorki að hafa keppnina framvegis opna fyrir söngvurum alls staðar að úr veröldinni né að Ríkisútvarpið ætli sér að gera þátttöku Íslands pólitíska og þar með þvert á reglur keppninnar.

Ef til vill er ástæða þess að Palestínumaður var að þessu sinni næstum orðinn fulltrúi Íslands í Eurovision einfaldlega hluti af þeim vandræðagangi sem einkennt hefur undirbúning Íslands fyrir Eurovision. Ekki er víst að úr því fáist nokkurn tímann skorið og ekki eru miklar líkur á að Ríkisútvarpið bæti ráð sitt og fjalli um þessi mál eða taki ákvarðanir um þau með þeim hætti sem sómi væri að. Ráðaleysið fær líklega áfram að ráða för og einstakar hótanir um sniðgöngur eða fráleitar kröfur um pólitíska afstöðu Ríkisútvarpsins í tengslum við keppnina munu að öllum líkindum áfram hafa sitt að segja um ákvarðanir í Efstaleiti.