Hanna Katrín Friðriksson
Hanna Katrín Friðriksson
Eftir nýafstaðna kjördæmaviku sem þingflokkur Viðreisnar nýtti í heimsóknir og samtöl við stjórnendur og starfsfólk fjölda heilbrigðisstofnana og menntastofnana stendur eftir þakklæti vegna alls þess öfluga fagfólks sem heldur þessum mikilvægu kerfum okkar uppi

Eftir nýafstaðna kjördæmaviku sem þingflokkur Viðreisnar nýtti í heimsóknir og samtöl við stjórnendur og starfsfólk fjölda heilbrigðisstofnana og menntastofnana stendur eftir þakklæti vegna alls þess öfluga fagfólks sem heldur þessum mikilvægu kerfum okkar uppi. En varnaðarorðin heyrðust líka hátt og skýrt og á þau þurfum við að hlusta.

Mér hefur orðið tíðrætt um álagið á heilbrigðiskerfinu okkar og hvernig stjórnvöld hafa hent ákveðnum úrlausnarefnum í fangið á stjórnendum þess. Nærtækt dæmi eru afleiðingar af illa ígrunduðum breytingum stjórnvalda á heilsugæslunni sem virðast fyrst og fremst hafa leitt til aukins álags á heimilislækna í formi skrifræðis. Þegar ég hef spurt hvort þær breytingar hafi leitt til betri þjónustu við skjólstæðinga, betri starfsaðstöðu læknanna eða betri nýtingar skattpeninga hafa svörin verið þau að málið sé í skoðun. Með öðrum orðum, stjórnvöld virðast hafa hlaðið í þessar breytingar án þess að hafa séð fyrir sér hver ávinningurinn ætti að vera fyrir samfélagið. Markmiðasetning og árangursmælingar eru kannski ekki meðal helstu styrkleika þessarar ríkisstjórnar.

Þegar kemur að menntamálum stöndum við frammi fyrir áður óþekktum áskorunum. Örar samfélagsbreytingar skapa álag á öll stig skólakerfisins og rauði þráðurinn í samtölum við skólastjórnendur og kennara er að þau hafi fengið risavaxið verkefnið í fangið án nauðsynlegrar aðstoðar stjórnvalda.

Þetta gengur auðvitað ekki. Við vitum sem er að menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélaginu okkar og um leið forsenda nauðsynlegrar framþróunar. Við eigum að gefa skólastjórnendum aukið frelsi til að uppfylla þessi mikilvægu markmið og búa þannig um hnútana að kennarar geti einbeitt sér að kennslu. Á sama tíma og það er til dæmis grundvallaratriði að börn og ungmenni sem ekki hafa íslensku að móðurmáli fái stuðning og eftirfylgni til að hafa jafnar forsendur til náms og aðrir nemendur, mega áskoranir sem fylgja breyttri samfélagsgerð ekki koma niður á tíma kennara og svigrúmi til að sinna því lykilhlutverki sem kennslan er.

Hér er hópastærð nemenda risastórt atriði. Um það vitna bæði orð kennara og nemenda. Fjölmargt annað var rætt í heimsóknum þingflokks Viðreisnar í skólana. Til dæmis það að skólar eru í of ríkum mæli orðnir þjónustustofnun þar sem menntunin hefur minna vægi en áður. Sífellt sé verið að draga kennara í önnur verkefni en kennslu. Við verjum svo hlutfallslega minni fjárhæð í námsgagnagerð en önnur norræn lönd á meðan okkar litla málsvæði kallar á að við leggjum meiri áherslu á þennan þátt.

Og svo að lokum þetta ákall: Ekki gera grundvallarbreytingar á skólakerfinu án pólitískrar umræðu. Pólitíkin þarf að sýna menntamálum áhuga!

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is