
Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Meðlimir í HG-klúbbnum, aðdáendafélagi Herberts Guðmundssonar söngvara, bíða spenntir eftir afmælistónleikum goðsins í Háskólabíói á föstudagskvöld. „Við höfum fylgst með hverri plötu og öllum tónleikum, eltum Hebba nánast hvert sem hann fer,“ segir Kristinn Vilbergsson, talsmaður klúbbsins, sem fagnar 40 ára afmæli í ár.
Stefán Emil Jóhannsson, Kristinn Vilbergsson, Baugur Sigurðsson, Ingi Þór Steinþórsson, Björgvin Finnsson, Sverrir Briem, Ólafur Guðjónsson og Benedikt Sigurðsson stofnuðu klúbbinn þegar þeir voru í 7. bekk Hagaskóla árið 1984. Ári síðar hófst sólóferill Hebba með plötunni Dawn of the Human Revolution. Lagið „Can’t Walk Away“ sló strax í gegn og hefur fylgt goðinu og klúbbnum síðan. „Við náðum okkur í plötuna og spiluðum hana í ræmur,“ rifjar Kristinn upp. „Við spiluðum hana í öllum partíum.“
Flakkað um ferilinn
Hebbi varð 70 ára í desember og kallar afmælistónleikana Flakkað um ferilinn. Hann söng með ýmsum hljómsveitum á upphafsárum ferilsins og fyrst inn á plötu með hljómsveitinni Tilveru árið 1971. Næst var það platan Á ströndinni með hljómsveitinni Eik árið 1977. „Við fundum plötuna á flóamarkaði úti á landi og spiluðum hana út í eitt,“ segir Kristinn.
Eftir nám í Hagaskóla fór Kristinn í Verslunarskóla Íslands. „Ég hef aldrei verið þekktur fyrir söng en þá tók ég þátt í söngvakeppninni Verslóvæl. Klæddi mig upp eins og Herbert Guðmundsson var klæddur á mynd á forsíðu Æskunnar, í Hawaii-skyrtu með axlaböndin í kross, með hvíta hárkollu og í hvítum buxum, og söng Can’t Walk Away með hljómsveit. Hebbi hafði heyrt af þessu, þegar hann gaf út plötuna Being Human 1993, hafði uppi á mér, þó að ég væri útskrifaður úr Versló, og bauð okkur í aðdáendaklúbbnum í útgáfupartíið á Hótel Íslandi. Þá hittum við hann persónulega í fyrsta skipti og síðan hefur þráðurinn ekki slitnað.“
Áhugi félaganna á lögum Hebba hefur smitast í allar áttir, enda halda þeir reglulega árshátíð og bjóða þá vinum og vandamönnum. Hebbi mætti fyrst á árshátíðina 1995 og þá voru Hermann Hauksson og Óskar Kristjánsson teknir inn í klúbbinn. Kristinn segir að lagið „The Night of the Show“ á Being Human hafi alltaf verið lokalagið um helgar á kránni Kofa Tómasar frænda sem bræðurnir Dagur og Lárus Sigurðssynir hafi átt og rekið á mótum Laugavegar og Skólavörðustígs. „Dagur, vinur minn, lokaði staðnum um hverja helgi með því að spila lagið og allir gestir stóðu upp og sungu með.“
Kristinn segir að eitt sinn hafi Hebbi eldað mat í sjónvarpsþætti og klúbbfélagarnir verið sérstakir gestir. „Áður en upptökur hófust heima hjá honum kyrjuðum við með honum framan við Búddalíkneski. Það var mjög áhugavert og skemmtilegt. Við höfum fengið hann til að spila á árshátíðum okkar, í veiðihúsum og við ýmis önnur tækifæri. Hann er okkar maður, hefur aldrei verið eins vinsæll og núna og við erum þekktir sem HG-klúbburinn.“