Þriggja daga heimsókn forseta Íslands til Georgíu hefst í dag og lýkur á fimmtudagskvöld. Þetta er fyrsta heimsókn af þessu tagi til Georgíu og er henni ætlað að efla tengsl þjóðanna, m.a. með aukinni samvinnu á sviði loftslagsmála og grænna lausna.
Auk tvíhliða funda með stjórnvöldum verður efnt til viðskiptaþings og vatnsaflsvirkjun Landsvirkjunar og Verkís heimsótt. Einnig flytur forsetinn aðalerindi á alþjóðlegri ráðstefnu og fyrirlestur við Tíblisi-háskóla.
Með Guðna í för eru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Nótt Thorberg forstöðumaður Grænvangs, auk sendinefndar frá orkufyrirtækjum og fleiri aðilum. Kanna á möguleika á auknu samstarfi við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku m.a. á sviði beinnar nýtingar jarðvarma, vatnsaflsvirkjana og fjárfestinga í loftslagslausnum. Viðskiptasendinefndin fer undir merkjum Green by Iceland, markaðsverkefnis Grænvangs og Íslandsstofu sem miðar að því að auka vitund um sjálfbæra nýtingu auðlinda á Íslandi og kynna íslenskar grænar lausnir á erlendum mörkuðum, segir í tilkynningu frá embætti forseta Íslands.