Það tekur svo sannarlega á taugarnar að vera stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool þessa dagana. Eftir því sem árin líða hefur maður aðeins róast fyrir framan sjónvarpið, meðal annars vegna þess að sonur minn á það til að hrökkva í kút þegar ég er öskrandi og æpandi

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Það tekur svo sannarlega á taugarnar að vera stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool þessa dagana.

Eftir því sem árin líða hefur maður aðeins róast fyrir framan sjónvarpið, meðal annars vegna þess að sonur minn á það til að hrökkva í kút þegar ég er öskrandi og æpandi. Svo ég tali nú ekki um kvöldleikina þegar hann er sofnaður þegar Liverpool skorar, þá er fagnað í hljóði.

Eftir að Jürgen Klopp tilkynnti að hann myndi láta af störfum eftir tímabilið hafa hlutirnir hins vegar breyst hratt. Kannski af því að Liverpool á mjög góða möguleika á því að verða Englandsmeistari í annað sinn á fimm árum.

Liverpool er eina liðið sem hefur veitt Manchester City einhverja samkeppni um Englandsmeistaratitilinn undanfarin ár. Hefði Liverpool ekki unnið deildina tímabilið 2019-2020 væri City búið að vinna hana sex ár í röð.

Þegar Liverpool vann deildina var kórónuveirufaraldurinn að gera fólki lífið leitt. Það varð því ekkert úr sigurskrúðgöngunni. Maður vonar eitthvað svo innilega að Klopp fái alvöru skrúðgöngu með Englandsbikarinn áður en hann lætur af störfum.

Ég hef ótrúlega miklar mætur á Klopp, eins og flestum ætti að vera kunnugt, og ég á eftir að sakna hans mikið. Hann er skemmtilegasti stjóri deildarinnar og hefur verið það alveg frá því að hann tók við stjórnartaumunum hjá Liverpool.

Mikil meiðsli herja á leikmannahóp liðsins þessa dagana og margir lykilmenn eru fjarverandi. Ef svo ólíklega vill til að Klopp lesi þennan Bakvörð vil ég hér með hvetja hann til þess að stilla upp varaliðinu í öðrum keppnum og einbeita sér alfarið að ensku úrvalsdeildinni.