Fyrirliði Kristín Ingadóttir skautar sigurhring með Íslandsmeistarabikarinn í Egilshöllinni á laugardaginn.
Fyrirliði Kristín Ingadóttir skautar sigurhring með Íslandsmeistarabikarinn í Egilshöllinni á laugardaginn. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íshokkíkonan Kristín Ingadóttir varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn með uppeldisfélagi sínu Fjölni um nýliðna helgi þegar liðið hafði betur gegn SA í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins, 1:0, í Skautahöllinni í Egilshöllinni á laugardaginn

Íshokkí

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íshokkíkonan Kristín Ingadóttir varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn með uppeldisfélagi sínu Fjölni um nýliðna helgi þegar liðið hafði betur gegn SA í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins, 1:0, í Skautahöllinni í Egilshöllinni á laugardaginn.

Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Fjölnis í hópíþrótt, en félagið var stofnað árið 1988. Fjölnir lék áður undir merkjum Bjarnarins og varð tvívegis Íslandsmeistari, árið 2000 og árið 2006, en leikið hefur verið undir merkjum Fjölnis frá árinu 2019.

Fjölnir, sem hafnaði í öðru sæti deildarkeppninnar, vann sigur á SA, 3:1, í úrslitaeinvíginu en Fjölniskonur lentu undir í einvíginu, 1:0, eftir fyrsta leik liðanna í Skautahöllinni á Akureyri sem lauk með sigri SA, 4:2. Fjölnir vann svo næstu þrjá leiki í röð, 3:2, 2:1 og loks 1:0 og stóð uppi sem Íslandsmeistari.

Hátt uppi eftir sigurinn

„Tilfinningin er mjög góð og maður er ennþá hátt uppi eftir sigurinn um helgina,“ sagði fyrirliðinn Kristín, sem er 27 ára gömul, í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta er hálfóraunverulegt ennþá, enda er maður búinn að vera að berjast fyrir þessum bikar í mjög langan tíma. Við höfum nokkrum sinnum verið mjög nálægt því að vinna Íslandsmótið en loksins small þetta hjá okkur í úrslitakeppninni. Þetta var mjög sætur sigur en á sama tíma fannst mér hann líka verðskuldaður því við vorum betra liðið í úrslitaeinvíginu.

Við töpuðum vissulega fyrsta leiknum en þrátt fyrir það var tilfinningin eftir leikinn ekki slæm. Við áttum fleiri marktilraunir í þeim leik og vorum betra liðið, heilt yfir. Mér finnst úrslitin úr þeim leik ekki gefa rétta mynd af því hvernig hann spilaðist. Það sem við tókum með okkur úr þeim leik var að við spiluðum vel og við vorum sannfærðar um að ef við spiluðum eins í hinum leikjum einvígisins myndi þetta falla með okkur,“ sagði Kristín.

Spennustigið óþægilega hátt

Skautafélag Akureyrar hafði fyrir úrslitaeinvígið unnið Íslandsmótin undanfarin 17 ár í röð, allt frá því að Björninn varð síðast Íslandsmeistari árið 2006.

„Spennustigið hefur verið óþægilega hátt hjá okkur á undanförnum árum. Persónulega finnst mér hausinn aðeins hafa verið að þvælast fyrir okkur, ef það er hægt að orða það þannig. Fyrir mér er það ein stærsta ástæðan fyrir því að okkur hefur ekki gengið nægilega vel gegn SA í síðustu úrslitaeinvígjum.

Við tókum þá ákvörðun sem lið, fyrir úrslitin í ár, að leita til íþróttasálfræðings og það gerði mjög mikið fyrir okkur. Hann setti línurnar strax í byrjun og einfaldaði hlutina mikið fyrir okkur, bæði sem einstaklinga og sem lið. Við settum okkur ákveðin gildi og markmið þegar við fórum inn í einvígið, og sama hvað gerðist héldum við okkur við þau. Alveg sama hvað gekk á í leikjunum vikum við aldrei frá því sem við lögðum upp með og á endanum skilaði það okkur sigri.“

Fögnuðu með sínu fólki

Eins og áður sagði tryggði Fjölnir sér Íslandsmeistaratitilinn á laugardaginn þar sem Sigrún Agatha Árnadóttir skoraði sigurmark leiksins eftir aðeins fjögurra mínútna leik, 1:0, sem eru ekki algengar úrslitatölur í íshokkíleik.

„Stemningin innan liðsins var frábær fyrir fjórða leikinn í Egilshöllinni. Við unnum góðan sigur á Akureyri í þriðja leiknum, 2:1, og komumst í 2:1 í einvíginu. Við vorum mjög meðvitaðar um það þegar við fórum inn í leikinn að öll pressan væri á þeim. Stúkan var með okkur í liði og stemningin var frábær. Við vildum klára þetta með okkar fólki í stúkunni og sem betur fer tókst það. Það var ótrúlega sætt og gaman að geta fagnað þessum langþráða bikar, umvafðar okkar fólki.

Ég held að ég hafi aldrei spilað íshokkíleik þar sem fyrsta markið kemur eftir fjórar mínútur og leikurinn endar svo bara 1:0. Lokamínúturnar voru mjög spennandi og bæði lið fengu færi til þess að bæta við mörkum. Við vörðumst vel og hausinn var rétt skrúfaður á. Við lentum undir í öllum leikjunum nema fjórða leiknum og það segir ýmislegt finnst mér um hugarfarið sem við fórum með inn í einvígið.“

Á allan heiðurinn af þessu

Þjálfari liðsins, Emil Alengård, tók við Fjölnisliðinu árið 2020 og hefur gert mikið fyrir bæði kvennaliðið og félagið í heild sinni.

„Emil á í raun allan heiðurinn af þessum Íslandsmeistarabikar ef ég á að vera alveg hreinskilin. Hann kom inn í þetta árið 2020 með mikla reynslu frá Svíþjóð. Hann kom með ákveðna atvinnumannahugsun sem var nákvæmlega það sem félagið þurfti á þessum tíma. Hann hefur svo gott sem byggt félagið upp frá grunni, eftir mjög erfið ár þar á undan, og það hefur tekist frábærlega vel til hjá honum.

Hann hefur einnig sinnt þjálfun yngri flokka hjá félaginu og það er á frábærum stað með góðu yfirbragði. Hann er einn besti þjálfari sem ég hef haft og vonandi heldur hann áfram með liðið á næstu leiktíð. Hann er mjög metnaðarfullur og hefur lagt mikla vinnu í að koma okkur á þann stað sem við erum á í dag. Við erum ótrúlega þakklát honum fyrir hans frábæra og óeigingjarna starf í þágu félagsins.“

Íhugaði alvarlega að hætta

Kristín hefur verið lengi að, en hún byrjaði að æfa íshokkí með Birninum þegar hún var fimm ára gömul.

„Ég byrjaði í rauninni bara að æfa íshokkí af því að bróðir minn var að æfa íshokkí á sínum tíma. Ég litaðist mikið af því og það kom í raun aldrei neitt annað til greina en að elta hann í íshokkí. Mér fannst strax mjög gaman í íþróttinni en það var mjög einkennandi á þessum tíma að ég var eina stelpan í mínu liði í frekar langan tíma. Það voru í raun engar stelpur í yngri flokkunum lengi vel en sem betur fer hefur það breyst mjög hratt.

Vinkonur mínar voru flestar í fótbolta, fimleikum eða í báðum íþróttum. Sjálf æfði ég fótbolta á sumrin og íshokkí á veturna en utanumhaldið í íshokkíinu var mjög gott. Ég íhugaði það alvarlega að hætta í íþróttinni þegar ég komst á grunnskólaaldur en þjálfarinn minn á þeim tíma, Serge Zak, talaði mig inn á það að halda áfram. Sem betur fer hélt ég áfram og ég sé svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun í dag,“ bætti Kristín Ingadóttir við í samtali við Morgunblaðið.