Sýning á málverkum Jóns Axels Björnssonar var opnuð um liðna helgi í Gallerí GunHil, Hlíðarfæti 13, 102 Reykjavík. Í tilkynningu segir að málverk hans dansi á „litríkum mörkum hins sýnilega og ósýnilega, á milli forma sem birta okkur hluti og fanga huglægt ástand. Verkin einkennast af stórum einlita flötum sem skipta upp myndfletinum og fljóta á yfirborði hans. Víða skjóta mannsmyndir upp kollinum á leið út eða inn við jaðar myndrammans. Myndheimurinn er samhæfður – litafletir, fígúrur og hlutir skapa spennu innan rammans og gefa til kynna að í verkunum búi saga.“
Jón Axel er fæddur 1956 og stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1975-1979. Hann er starfandi myndlistarmaður og hefur skv. tilkynningu haldið fjölda sýninga á Íslandi og erlendis. Sýningin er opin frá kl. 10 til 16 á virkum dögum.