Björgvin Óli Jónsson fæddist 28. janúar 1941. Hann lést 20. febrúar 2024. Útför Björgvins fór fram 4. mars 2024.

Nú er kvaddur vinur minn og starfsfélagi Björgvin Óli Jónsson tannlæknir.

Kynni okkar hófust þegar við vorum í námi í Tannlæknadeild Háskóla Íslands en Björgvin lauk námi tveimur árum á eftir mér árið 1968 og eftir það byrjaði borunin og baráttan við félagana Karíus og Baktus, hver á sínum stað.

Um fimmtán árum síðar bauðst okkur til leigu húsnæði í Síðumúla 25, öll önnur hæðin óinnréttuð og tókum við því, fjórir tannlæknar og einn tannsmíðameistari og í þessum hópi var Björgvin. Þetta varð okkur dýr og mikil aðgerð enda fór hún fram á sögufrægum tíma þjóðarinnar þegar vextir, vísitölur og verðbólga slógu öll met. En þetta tókst allt og úr varð ánægjulegt samstarf sem entist til starfsloka okkar flestra og það var ekki síst Björgvini að þakka, sem með sinni hægu og prúðmannlegu framkomu hafði góð áhrif á hópinn. Björgvin kom víða við í félagsmálum. Hann átti sæti í stjórn og ýmsum nefndum Tannlækna félags Íslands, var virkur félagi í Lions-hreyfingunni og síðast en ekki síst félagi minn í klúbbnum K21. Auk þess var Björgvin lengi stundakennari við Tannlæknadeild Háskólans og Tannsmíðaskóla Íslands.

Ég vil að lokum þakka honum langt samstarf og samvinnu og færi eiginkonu hans Esther, dætrum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Björgvins Óla Jónssonar.

Ólafur G. Karlsson.

Í dag kveðja tannlæknar landsins mætan félaga, Björgvin Ó. Jónsson. Björgvin útskrifaðist sem Cand. odont. frá Háskóla Íslands árið 1968. Eftir útskrift rak Björgvin eigin tannlæknastofu í Reykjavík til starfsloka. Samhliða stofurekstri var hann stundakennari við Tannlæknadeild Háskóla Íslands og Tannsmíðaskóla Íslands.

Björgvin var ætíð virkur félagi í Tannlæknafélagi Íslands þar sem hann gegndi hinum ýmsum störfum fyrir félagið. Hann var m.a. ritari stjórnar félagsins og sat jafnframt í ritstjórn Árbókar Tannlæknafélagsins. Ennfremur var hann formaður orða- og fræðslunefndar en sú nefnd hefur m.a. það hlutverk að finna íslensk orð fyrir hin ýmsu fræðiheiti sem finnast í tannlækningum. Björgvin sat í þessari nefnd til dauðadags.

Björgvin sat jafnframt í gjaldskrárnefnd, var fulltrúi Tannlæknafélagsins í Samtökum heilbrigðisstétta og sat í Tannverndarráði til ársins 1996. Auk þess sat hann í stjórn Félags sjálfstætt starfandi tannlækna. Björgvin vann óeigingjarnt starf í þágu Tannlæknafélags Íslands og fyrir það er þakkað.

Kynni mín af Björgvini hófust þegar ég stundaði nám í tannlækningum við Háskóla Íslands. Þar kenndi hann preklíniska krónu og brúargerð til margra ára. Björgvin var vandvirkur kennari. Hann var nákvæmur í starfi og natinn gagnvart faginu og nemendum sínum. Lunderni hans var ljúft og þægilegt og var hann góður lærimeistari. Við erum því ansi mörg í hópi íslenskra tannlækna sem Björgvin leiðbeindi og kenndi fyrstu handtökin með borinn í hönd.

Ég kynntist Björgvin aftur og enn betur þegar ég gegndi störfum formanns Tannlæknafélags Íslands á sínum tíma. Björgvin bar ávallt hag Tannlæknafélagsins fyrir brjósti og átti það til að kíkja til okkar í kaffi á skrifstofu félagsins á meðan hann beið eftir barnabörnunum sem sóttu tónlistarnám í næsta húsi. Kallaði hann þetta innlit oft ættarmót því öll eigum við ættir að rekja til Rauðasands, Björgvin, ég og Katrín framkvæmdastjóri. Það örlaði fyrir stolti að ættfólk hans stæði í brúnni á félagi sem var honum svo kært.

Þegar Björgvin lauk formlegum tannlæknastörfum færði hann Tannlæknafélaginu af því tilefni veglega gjöf. Um var að ræða fallega veggmynd af heilagri Appoloníu sem gjarnan hefur verið nefnd verndardýrlingur tannlækna.

Myndina hafði hann haft á tannlæknastofu sinni en fannst nú tilvalið að myndin góða fengi að prýða húsakynni Tannlæknafélagsins. Heilagri Appoloníu var fundinn heppilegur staður í hátíðarsal félagsins þar sem hún mun hanga til minningar um góðan kollega um ókomna tíð.

Fyrir hönd Tannlæknafélags Íslands vil ég senda Esther og aðstandendum þeirra hugheilar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning um fallinn félaga.

Kveðja frá Tannlæknafélagi Íslands,

Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir.