Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði að loknum fundi Eflingar og SA í Karphúsinu í gær að fundurinn hefði ekki gengið nægilega vel og að viðræðurnar væru ekki komnir „yfir ána og upp á bakkann.“ Var því blásið til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingar klukkan 16 í gær og lýkur henni næstkomandi föstudag klukkan 15. Boðað hefur verið til nýs fundar í Karphúsinu klukkan 9 í dag.
Jákvæðara hljóð var í Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins, skömmu eftir að fundi breiðfylkingarinnar og SA lauk í gær. Sagðist Vilhjálmur ekki trúa öðru en að samningamálin yrðu kláruð í vikunni.
Þá hittust SA og VR á samningafundi í gær í fyrsta skipti frá því að VR sleit sig frá breiðfylkingunni. Um var að ræða stuttan vinnufund þar sem viðræður voru skipulagðar.