Dómurinn Norska ríkið var sýknað af kröfum Votta Jehóva í gærdag.
Dómurinn Norska ríkið var sýknað af kröfum Votta Jehóva í gærdag. — Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson
Héraðsdómur Óslóar í Noregi sýknaði í gær norska ríkið af kröfu trúfélagsins Votta Jehóva þar í landi um að því yrði gert að greiða félaginu ríkisstyrki vegna áranna 2021 til 2023, jafnvirði 672 milljóna íslenskra króna

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Héraðsdómur Óslóar í Noregi sýknaði í gær norska ríkið af kröfu trúfélagsins Votta Jehóva þar í landi um að því yrði gert að greiða félaginu ríkisstyrki vegna áranna 2021 til 2023, jafnvirði 672 milljóna íslenskra króna.

Auk þess kröfðust Vottar Jehóva þess fyrir dómi að hljóta á ný skráningu sem trúfélag í Noregi en þeir teljast ekki uppfylla skilyrði til slíks samkvæmt nýjum norskum lögum um slík félög. Taldi héraðsdómari skilyrði uppfyllt til að neita Vottum Jehóva um hvort tveggja, styrki og skráningu.

Norsk yfirvöld sviptu félagið styrkjum sínum árið 2022 í kjölfar þess er útskúfun félaga komst í hámæli auk þess sem félagsmenn eru hvattir til að sniðganga fyrrverandi votta algjörlega, jafnvel börn, sem í mörgum tilfellum hefur leitt til félagslegrar einangrunar þeirra. Fjallaði fréttaskýringaþáttur norska ríkisútvarpsins NRK, Brennpunkt, um þetta í þáttaröð sinni Guðs útvöldu.

„Niðurstaða Héraðsdóms Óslóar er okkur vonbrigði,“ segir Jørgen Pedersen, talsmaður Votta Jehóva í Noregi, í samtali við Morgunblaðið. Kveður Pedersen dóminn hafa látið undir höfuð leggjast að rétta hlut trúfélagsins sem mismunað hafi verið með úrskurði fylkismannsins í Ósló og Viken og barna- og fjölskylduráðuneytisins.

„Þar sem þessi niðurstaða er hvorki samræmanleg niðurstöðum æðra dómsvalds í öðrum löndum né Mannréttindadómstóls Evrópu hvað Votta Jehóva snertir munum við gaumgæfa lagaleg úrræði okkar,“ svarar Pedersen spurningu blaðamanns um hvort trúfélagið hyggist áfrýja til norska millidómstigsins lögmannsréttar.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson