Dýri Guðmundsson fæddist 14. september 1951. Hann lést 20. febrúar 2024. Útför Dýra var 4. mars 2024.

Þann 20. febrúar sl. lést Dýri Guðmundsson á Hrafnistu í Hafnarfirði, 72 ára að aldri. Dýri var lykilmaður í öflugu knattspyrnuliði Vals á seinni hluta áttunda áratugar síðustu aldar, á einu af gullaldartímabilunum í glæstri sögu Knattspyrnufélagsins Vals, þar sem upp úr stóðu Íslandsmeistaratitlar 1976, '78 og '80 og bikarmeistaratitlar1974, '76 og '77. Margir knattspyrnuspekingar halda því fram að Valsliðið 1978 hafi verið besta lið íslenskrar knattspyrnusögu. 18 leikir, 17 sigrar og eitt jafntefli í síðasta leik er nokkuð sem ekki hefur verið leikið eftir síðar. Dýri var límið í þessu liði, miðvörðurinn stóri og stæðilegi sem las leikinn eins og opna bók og stjórnaði sterkri Valsvörninni ásamt Sigurði Haraldssyni markverði, sem hélt marki sínu hreinu í 11 leiki í röð sumarið 1978. Þegar titlum var fagnað var Dýri lykilmaður utan vallar líka, gítarleikari góður sem kunni öll helstu lögin, íslensk sem erlend, og það var mikið sungið og mikið gaman. Það þurfti því ekki að koma á óvart að Dýri var aðalhvatamaður að stofnun Valskórsins árið 1993 og hann stofnaði líka Valsbandið, sem oft var kallað til leiks við ýmis tilefni á Hlíðarenda.

Eftir að keppnisferlinum lauk hófu nokkrir fyrrverandi leikmenn Vals að iðka hina eðlu íþrótt skallablak á veturna. Alla laugardaga frá september til maí í 18 ár stunduðu menn skallablak af kappi og einu sinni á vetri var bæjarkeppni við Akureyringana sem fundu upp skallablakið. Skallaboltafélagið Skallagrímur, síðar skallablaksdeild Vals, hefur verið einn öflugasti og skemmtilegasti hliðarhópur Vals frá 1983 og Dýri var lykilmaður í þeim hópi, eins og öðrum. En við Valsmenn sátum ekki einir að mannvininum og gleðigjafanum Dýra Guðmundssyni. Hann kom til okkar úr FH og endaði einnig sinn keppnisferil með því frábæra félagi. Við Valsmenn erum FH þakklátir fyrir að hafa fengið að deila Dýra með þeim í hálfa öld. Hann var sannarlega einn af bestu sonum beggja félaga.

Það er huggun harmi gegn að lesa orðin sem samferðafólk Dýra skrifar um hann á samfélagsmiðlum, hvar sem hans hefur verið minnst síðan hann kvaddi, hvíldinni feginn eftir erfið veikindi síðustu árin. Þeir sem voru svo lánsamir að vera um skeið samferða Dýra á lífsins braut kveðja nú yndislegan mann sem sameinaði það að vera „drengur góður“ og stórskemmtilegur húmoristi. Hann var náttúrubarn, „original“, einstakur.

Við minnumst fjölskyldumannsins, Hafnfirðingsins, FH-ingsins, Valsarans, Seltirningsins, tónlistarmannsins, Fjallabróðurins, blúsarans og Stones-aðdáandans Dýra Guðmundssonar með virðingu og kærleika. Knattspyrnufélagið Valur þakkar Dýra fyrir ómetanlegt framlag hans til sögu félagsins og sendir dýpstu samúðarkveðjur til Hildar Guðmundsdóttur, eiginkonu Dýra, barna þeirra, Orra Páls, Guðnýjar Völu og Vilborgar Ásu, og barnabarnanna níu.

Blessuð sé ævinlega minning Dýra Guðmundssonar.

Fyrir hönd knattspyrnufélagsins Vals,

Hörður
Hilmarsson.

Það var snemma á tíunda áratugnum að tvær nýjar fjölskyldur fluttu í Bollagarða en þar voru fyrir Dýri og Hildur með sína fjölskyldu. Fljótlega tókst mikil vinátta með þessum þremur fjölskyldum, sem ekki var síst að þakka dætrum okkar, Önnu Margréti, Völu Bjarneyju og Vilborgu Ásu, sem urðu miklar vinkonur. Vinátta þessara fjölskyldna hefur haldist allar götur síðan og hefur leitt af sér ófáar gæðastundir, ferðalög innanlands og utan og árleg þorrablót svo eitthvað sé nefnt. Árið 2006 er sérlega minnisstætt því þá fórum við saman á tvenna ógleymanlega tónleika, SigurRós í Ásbyrgi og Rolling Stones í Berlín. Á tónleikum Stones var Dýri heldur betur í essinu sínu. Meðan við vorum upptekin við að njóta augnabliksins var okkar maður að leikrýna tónleikana og að þeim loknum sendi hann okkur skýrslu, sem innihélt greiningu á hverju lagi fyrir sig og hvernig til hefði tekist.

Dýri var einstakt séntilmenni og húmoristi sem kunni sig alltaf hvar sem hann kom. Það var því mikið áfall að skynja sérkennilega breytingu í fari hans fyrir nokkrum árum. Þessi prúði maður var allt í einu orðinn hvatvís og óútreiknanlegur og það var ljóst að eitthvað mikið var að. Sjúkdómsferlið var hratt og nú er þessi góði maður allur og eftir sitjum við með allar góðu minningarnar. Við vitum hins vegar að sjúkdómurinn er ekki persónan, hún er óbreytt þarna fyrir innan, því má aldrei gleyma.

Við vottum Hildi og fjölskyldu innilegustu samúð. Guð blessi minningu Dýra Guðmundssonar.

Bollagarðagengið:

Kristján, Birna, Sigríður og Gunnar Ingi.

Það var um vorið 1978 að undirritaður var á krossgötum komandi upp í meistaraflokk Vals í knattspyrnu, sem var eitt sterkasta lið sem hefur spilað á Íslandi fyrr og síðar. Dýri Guðmundsson var miðvörður ásamt 3-4 öðrum sem voru að berjast um hina miðvarðarstöðuna. Eðlilega þurfti ég að hugsa minn gang, hvort ég ætti yfirleitt einhverja möguleika, því í Valsliðinu voru sjö eða átta landsliðsmenn. En ég lét slag standa, sem betur fer, og ég fór beint í liðið um vorið. Fljótlega fann ég hvaða mann Dýri hafði að geyma. Hann var límið í vörninni og Valur bar sigur úr bítum á Íslandsmótinu með fádæma yfirburðum – sigraði í öllum leikjum mótsins, fyrir utan eitt jafntefli, í síðasta leiknum.

Fyrir utan það hversu vel Dýri studdi við mig í boltanum- er mér minnisstætt að hjónin Hildur og Dýri buðu mér reglulega í mat á Seltjarnarnesi þar sem þau bjuggu. Því má segja að við Dýri höfum smollið saman innan vallar sem utan. Það að byrja að spila með meistaraflokki Vals á þessum tímapunkti var eins og að detta inn í góða hljómsveit þar sem allir strengir voru vel stilltir. Það var eins og við hefðum spilað saman í mörg ár.

Dýri tók mér opnum örmum og það var einstakt fyrir 19 ára dreng að fá leiðsögn frá reynslubolta eins og Dýra. Við spiluðum saman í nokkur ár, eða þar til ég hélt á vit ævintýranna erlendis, en ég saknaði þess að spila ekki lengur með Dýra.

Dýri hafði einstaklega góða nærveru. Hann var rólegur, hnyttinn og skemmtilegur en alls ekki skaplaus. Það gat alveg fokið í minn mann endrum og sinnum og þá var betra að vera í liði með honum. Við félagarnir ræddum um ýmislegt og tónlist var alltaf stór partur af lífi Dýra. Ég man að við ræddum oft um þetta áhugamál hans, jafnvel þótt hæfileikar mínir á tónlistarsviðinu væru engir en áhuginn þó til staðar. Dýri spilaði á ýmis hljóðfæri af stakri snilld eins og honum var lagið.

Þegar ég flutti tímabundið á Seltjarnarnes hitti ég Dýra reglulega í sundlauginni þar sem hann var fastagestur. Þá rifjuðum við upp gamla tíma og fórum yfir málin. Hann ávallt með bros á vör.

Ég sakna þessa góða vinar sem lést um aldur fram en minningin um góðan dreng lifir. Ég sendi aðstandendum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Dýra.

Sævar
Jónsson.

Fyrstu kynni mín af mági mínum, Dýra Guðmundssyni, voru af fermingardreng, sem var einstaklega ljúfur og fallegur og örugglega rétt í meðallagi hvað varðar líkamshæð. Rúmlega ári síðar kom hann í heimsókn til Kaupmannahafnar, þar sem við bjuggum um tíma, en var þá orðinn með hávaxnari mönnum en enn sama ljúfmennið. Það eru því í tæp sextíu ár sem leiðir okkar hafa legið saman og óhætt er að segja, að sú samleið hefur verið einstaklega góð og oftast mjög ánægjuleg. Dýri var yngstur sinna systkina og sérstakt uppáhald þeirra.

Hann fór snemma að stunda íþróttir en það verða aðrir til að segja frá afrekum hans á því sviði. Hann var einstaklega nákvæmur og vandvirkur endurskoðandi en það eru fleiri en ég sem finnst blandan af listamanninum og endurskoðandanum sérlega áhugaverð en hann sannaði að þetta tvennt gæti farið saman og það með ágætum.

Það er alveg óhætt að segja að Dýri hafi verið með skemmtilegri mönnum enda einstakur gleðigjafi og hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom. Gítarinn var aldrei langt undan og til hans gripið við hvert tækifæri. Við minnumst þess hversu mikið hann gladdi vistmenn Grundar en á meðan mamma hans dvaldi þar kom hann iðulega við og spilaði og söng með vistmönnum. Eftir andlát Vilborgar mömmu hans hélt hann uppteknum hætti í mörg ár því með þeim gjörningi gladdi hann marga en það var hans líf og yndi.

Tónlist og íþróttir eru sannarlega arfleifð til barna hans en þau hefur hann stutt með ráðum og dáð í einu og öllu enda var hann kletturinn þeirra. Í hans augum var þeim ekkert ómögulegt en ef með þurfti var hann þeim til aðstoðar með það sem á bjátaði. Hann var líka afinn sem lék við barnabörnin og varð aftur barn með þeim.

Dýri og Hildur konan hans voru dugleg að ferðast bæði innan lands og utan. Oftar en ekki var skammur fyrirvari og bara drifið í að komast vestur en hann átti ættir að rekja til Dýrafjarðar og marga ættingja þar. Nokkrar utanlandsferðir fórum við saman en ein þeirra er mér sérlega minnisstæð en það var skútusigling við Tyrkland. Sú ferð hófst 14. september 2001, sem var 50 ára afmælisdagur Dýra.

Okkur tókst að halda upp á afmælið á Keflavíkurflugvelli, Kaupmannahöfn, Istanbul og Bodrum þennan dag. Þetta var aðeins þremur dögum eftir voðaverkin í New York, þegar flogið var á Tvíburaturnana og allt breyttist. Við fengum þær upplýsingar að allt flug í heiminum myndi stöðvast og vorum farin að hugsa um það hvort við gætum siglt skútunni til Íslands. Sem betur fór varð ekkert úr flugbanninu hvað okkur varðaði en Dýri heillaði heimamenn jafnt sem ferðamenn á sinn einstaka hátt og spilaði á gítar á ýmsum börum og stöðum við hafnirnar þar sem komið var við. Síðustu árin voru erfið en það er betra að minnast góðu, ljúfu áranna með þakklæti.

Elsku Hildi, börnum þeirra og barnabörnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu öðlingsins Dýra.

Stefanía (Níní).

Með nokkrum orðum langar okkur að minnast kærs vinar og nágranna, Dýra Guðmundssonar.

Dýri var einstaklega indæll og skemmtilegur maður og heilsaði okkur ævinlega með orðunum „eru ekki allir í C-dúr?“ þ.e.a.s. hvort allir væru ekki glaðir.

Hann var duglegur að kíkja yfir í kaffi og kom þá oftast með gítarinn með sér og spilaði nokkur vel valin lög, og þá gjarnan Rolling Stones enda í miklu uppáhaldi hjá honum.

Á góðviðrisdögum sat Dýri gjarnan úti á stétt með gítarinn og spilaði fyrir gesti og gangandi en Dýri var einnig upphafsmaður og stofnandi götubands Lindarbrautarinnar sem hefur komið saman til fjölda ára og spilað fyrir hlaupara og stuðningsfólk í Reykjavíkurmaraþoninu á Menningarnótt.

Okkur þótti vænt um að taka síðasta „giggið“ með honum í fyrra og var gaman að sjá hvað hann naut þess og gladdist yfir að vera á sínum heimavelli að rokka með hljómsveitinni.

Hans verður sárt saknað og við munum minnast hans um ókomna tíð. Við sendum fjölskyldu hans einlægar samúðarkveðjur.

Grímkell og
Hildur María.

Dýri Guðmundsson er allur.

Við sem þekktum hann í upplestrarhópi ljóðskálda í Hellas-hópi Vináttufélags Íslands og Kanada og í starfsmannahópnum er tengdist tónlistarmálum Grundar-kórsins og Morgunstundinni á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund biðjum að heilsa þessu glaðbeitta söngvaskáldi okkar!

Hann söng ljóðatexta eftir sig í ljóðskáldasamkomunni heima hjá mér árið 2017 og keypti um það leyti af mér eina ljóðabók mína.

Virtist honum þá verða hvað hugleiknast við lestur hennar þar sem ég lýsi áhyggjum okkar af styttingu tímans á jörðu hér. Vil ég því kveðja hann nú með því að vitna í ljóð mitt þar sem heitir: Sjálfsskoðun á sjötugsaldri, en þar yrki ég m.a. svo:

Þótt hálf-sjötugur sé ég nú,

og ætti að hafa náð tilfinningalegu sjálfstæði,

þá er mér enn daglega órótt

yfir missi mömmu fyrir aldar fjórðungi.

Og missir pabba nokkru síðar

er enn sem fallinn veggur væri.

Tryggvi V. Líndal.