40 ára Agnieszka er frá borginni Dabrowa Górnicza sem er í suðurhluta Póllands, ekki langt frá Katowice. „Faðir minn fluttist til Íslands á undan mér, árið 2006, og þegar ég kom til að heimsækja hann árið 2007 hreifst ég svo mjög af hrárri fegurð…

40 ára Agnieszka er frá borginni Dabrowa Górnicza sem er í suðurhluta Póllands, ekki langt frá Katowice. „Faðir minn fluttist til Íslands á undan mér, árið 2006, og þegar ég kom til að heimsækja hann árið 2007 hreifst ég svo mjög af hrárri fegurð landsins og möguleikunum hér að ég ákvað að flytjast hingað. Frá 2016 höfum við fjölskyldan átt heima í Vogum.“

Agnieszka er menntaður rafeindatæknir með sérhæfingu í rekstri tölvukerfa. „Starfsferill minn hefur verið blanda af sérfræðingavinnu í tæknimálum og baráttu fyrir réttindum starfsfólks. Ég var trúnaðarmaður starfsfólks fyrirtækis þar sem ég var bílstjóri í fjögur ár. Þar öðlaðist ég mikla reynslu í samningamálum.“

Síðan var Agnieszka varaformaður Eflingar í fjögur ár. „Þar öðlaðist ég mikla þekkingu á ýmsum kimum íslensks vinnumarkaðar og hverjar þarfir verkafólks á Íslandi eru.“

Í frítíma sínum finnst Agnieszku gaman að gera við raftæki. „Bæði heldur það við minni þekkingu og svo er ég endalaust forvitin að skoða nýja tækni.“


Fjölskylda Eiginmaður Agnieszku er Krzysztof Lukasz Ziolkowski, f. 1981, véltæknimaður. Synir þeirra eru Adam Kacper, f. 2017, og Filip Jakub, f. 2019. „Við erum svo ánægð með þennan leiðangur okkar á Íslandi og þá alls konar reynslu sem við höfum haft af landinu.“

Foreldrar mínir eru skilin. Móðir mín, Ewa, starfar við Slesíu-háskóla í Katowice og stefnir á að heimsækja okkur á Íslandi einn daginn. Faðir minn, Dariusz, vinnur núna í Póllandi á skrifstofu hjá öryggisvarnafyrirtæki. Þegar ég var krakki var hann formaður síns stéttarfélags í átta ár.“