Birgir Þór Jónsson fæddist í Reykjavík 23. júlí 1947. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítala 19. febrúar 2024. Foreldrar hans voru hjónin Jón Jónsson skipherra hjá Landhelgisgæslunni, f. 26. febrúar 1909, d. 1. júní 1970, og Friðbjörg Sigurðardóttir, f. 8. desember 1907, d. 2. ágúst 1985. Systkini Birgis Þórs voru Ása Jóna, f. 12. september 1930, d. 15. maí 2015, og Jóhann Pétur, f. 7. janúar 1944, d. 28. ágúst 1994.
Birgir Þór giftist 22. nóvember 1969 Louisu Gunnarsdóttur, f. 3. mars 1949. Foreldrar Louisu voru hjónin Gunnar Valur Þorgeirsson, f. 14.4.1918, d. 30.12. 2017, og Guðmunda Erlendsdóttir, f. 26.2. 1920, d. 11.9. 2011.
Börn Birgis Þórs og Louisu eru: 1) Hrund, f. 21.5. 1967, gift Reyni Magnússyni, f. 12.11. 1966, þeirra dætur eru Sæunn, f. 1998, og Ósk, f. 2000. 2) Brynja Ása, f. 24.5. 1972, gift Gunnari Ingimarssyni, f. 20.12. 1968, þeirra börn eru Viktoría Karen, f. 1997, Bóas, f. 1997, og Birgir, f. 2004. 3) Guðmundur Þór, f. 2.5. 1974, giftur Ölmu Dröfn Benediktsdóttur, f. 10.7. 1980, þeirra börn eru Signý Eir, f. 2001, Benedikt Þór, f. 2009, og Isabella Ösp, f. 2013.
Birgir Þór ólst upp á Njálsgötu 4 í Reykjavík. Hann lauk gagnfræðiprófi og prófi frá Stýrimannaskólanum 1972 og varðskipadeild árið 1974. Birgir starfaði alla sína tíð hjá Landhelgisgæslunni, eða frá árinu 1967, fyrst sem háseti, þá stýrimaður og skipherra.
Útför Birgis Þórs fer fram frá Áskirkju í dag, 5. mars 2024, klukkan 13.
Skrítið hvernig hugurinn tæmist þegar maður sest niður og ætlar að henda inn nokkrum línum þér til handa. Man eftir mér í Njálsgötunni og Jón afi sat í stólnum sínum í stofunni og amma Bagga var alltaf að banna mér að trufla hann á meðan þið fenguð ykkur kaffisopa, fannst ég ekkert vera að trufla hann – bara spjalla um heima og geima þegar hann var vakandi. Þá bjuggum við þrjú í litla herberginu frammi á gangi og Ása Pedersen kom alltaf niður í kaffi til ömmu eða við upp til hennar. Þá varst þú byrjaður á sjónum hjá LHG og vikurnar á milli túranna voru nýttar í alls konar uppákomur, bíltúra, ferðalög og margt fleira. Svo fjölgaði í fjölskyldunni og við færðum okkur í Skaftahlíðina og Efstaland. Barnæskan og unglingsárin liðu hratt og ég á fullt af minningum frá þeim tíma, finnst þó bústaðaferðirnar á Laugarvatni eftirminnilegastar því á þessum tíma var ekki GSM eða net, opnunartími verslana var til 18, lokað á sunnudögum og framan af var ekkert sjónvarp í bústaðnum. En á þessum tíma þurfti virkilega að hafa fyrir því að fara í kaupfélagið til að sækja mjólk og annað því bíllinn var sparaður og við gengum í kaupstaðinn frá bústaðnum og þá fórum við í gegnum tjaldsvæðið í Laugarvatni. Einhvern tímann bilaði bíllinn korter fyrir ferð þangað og þú reddaðir því bara, við fórum með rútunni á Laugarvatn og þú fórst síðar og náðir í bílinn eftir viðgerð. Þú varst ekkert að láta hlutina flækjast fyrir þér, heldur fannst þú leið til að láta hlutina ganga upp. Hef heyrt frá vinnufélögum þínum í LHG að þú hafir verið góður og samviskusamur starfsmaður og þeir tala allir vel til þín vegna þess að þú gafst þér tíma til að hlusta á þá. Mér þótti það mikil upphefð að fá vinnu úti á flugvelli hjá LHG og þú hafðir alveg fyrir því að koma mér þar að. Mun ávallt minnast þess tíma með ánægju því þar kynntist ég menningunni ykkar, og því miður líka sorgarhlutanum því þyrlan fórst á öðru ári mínu þar. En lífið gefur og tekur, það hefur líka verið krefjandi hjá okkur því þú hefur alveg komið með verkefnin handa mér og ég fann verkfærin til að vinna úr þeim. En þú hefur líka verið hjálpsamur og greiðvikinn og það er erfitt að sitja hér og þurfa að kveðja þig. Finnst eins og þú sért bara að skreppa í túr með LHG og komir aftur heim en svo er ekki. Tilveran breytist hjá okkur öllum við fráfall þitt og lífið er einn skóli sem við þurfum að vinna úr. Mín fjölskylda á góðar minningar um þig sem munu lifa áfram með okkur.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem)
Hrund Birgisdóttir
Hrund Birgisdóttir.
Elsku pabbi minn.
Það var erfitt að fá símtalið um að þú hafir kvatt okkur og að vera ekki viðstaddur til að kveðja þig. Það verður skrítið að koma í Mánatúnið og hitta þig ekki á þínum stað og vita af þér og mömmu saman. Það er svo margs að minnast og eftir stendur fullt af góðum minningum og þakklæti fyrir það sem þú kenndir mér. Heimsóknirnar til okkar þegar við bjuggum erlends, ferðalögin sem við fórum saman þegar ég var yngri og allar yndislegu stundirnar sem við dvöldum hjá ykkur.
Ég minnist sérstaklega þegar ég var strákur og fékk að fara með þér til sjós á varðskipum og kynnast störfunum um borð. Það var mikið ævintýri fyrir ungan dreng að fá að sigla um strendur Íslands og horfa á pabba sinn stýra skipinu. Pabbi setti mjólkurkassa á gólfið fyrir framan stýrið svo ég sæi út og leyfði mér að stýra með sér, þetta eru ómetanlegar minningar.
Þú sýndir alltaf barnabörnunum umhyggju og hlýju, hafðir gaman af að fylgjast með þeim og vildir vita hvernig þeim gengi. Ég man svo vel þau skipti sem Benedikt Þór hringdi í þig til að segja þér sögur af sjálfum sér, hvað hann veiddi og hverja hann hitti, heyra mátti hláturinn í þér hinum megin á línunni. Ég veit að þetta þótti þér vænt um og við eigum eftir að sakna þessa símtala.
Elsku pabbi minn, þó þú sért farinn þá verður þú alltaf í hugum okkur og góðu minningarnar lifa áfram.
Góða ferð elsku pabbi minn, blessuð sé minning þín.
Við sjáumst síðar.
Þinn
Guðmundur Þór
Birgisson.