Vinir Ambika Mod og Leo Woodall í One Day.
Vinir Ambika Mod og Leo Woodall í One Day.
Þótt streymisveitan Netflix hafi reynst æði mistæk þegar kemur að sjónvarpsþáttaröðum kemur ein og ein almennileg inn á milli þeirra slöku. Ein slík varð aðgengileg fyrir fáeinum vikum og nefnist One Day

Helgi Snær Sigurðsson

Þótt streymisveitan Netflix hafi reynst æði mistæk þegar kemur að sjónvarpsþáttaröðum kemur ein og ein almennileg inn á milli þeirra slöku. Ein slík varð aðgengileg fyrir fáeinum vikum og nefnist One Day. Hún kemur ánægjulega á óvart því að hún er ekki drasl, ólíkt svo mörgu öðru á veitunni. Þættirnir eru byggðir á samnefndri bók Davids Nicholls frá árinu 2009 sem naut mikilla vinsælda á sínum tíma og var kvikmynduð tveimur árum eftir útgáfu hennar. Myndin þótti slök en þættirnir bæta úr því, bókinni eru gerð miklu betri skil í þeim enda samanlögð lengd þeirra um sjö klukkustundir.

En lengdin er ekki aðalatriðið. Nei, mestu skiptir að þættirnir eru ágætlega leiknir, leikstjórn góð og handrit. Nú hef ég ekki lesið bókina og hélt því í fyrsta þætti að þetta væri bara væmin saga af strák og stelpu sem eru ýmist saman eða í sundur. Það kom því ánægjulega á óvart að svo er ekki. Vissulega fjalla þættirnir um strák og stelpu, karl og konu, sem hrífast hvort af öðru en þó þau þau eigi margt sameiginlegt eru þau líka mjög ólík, hann sjálfhverfur en hún öllu meðvitaðri um eigin tilfinningar og annarra.

Þáttaröðin er vel þess virði að verja nokkrum kvöldum í og eiginkona mín og yngri sonur, 12 ára, eru á sömu skoðun.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson