Á Boðnarmiði yrkir Halldór Gudlaugsson (skítkaldur og skjálfandi í vegkanti á Reykjanesbrautinni):
Varð að grettu gleðibros
galsinn kvaddi drengi
það er vont að vanta gos
og verða að bíða lengi.
Þorgeir Magnússon spurði á sunnudag: „Hvað er í gangi?“
Í gærkvöld ljóta sjón ég sá.
Særinn virtist glóa
og sólargreyið segja má
sökk í Faxaflóa.
Jón Atli Játvarðarson „rakst á nokkrar vísur eftir Ara Jochumsson,1839-1921, bróður séra Matthíasar, í Vísnasafni Skagfirðinga. Þar er ein vísa, sem virðist vera um hest“:
Glói lipurt gengur ei,
Glóa vil ég eiga þó.
Glói borið getur hey,
Glóa sterkleg eru þjó.
Limra eftir Rúnar Thorsteinsson:
Er ég horfi um öxl eða hugsa til baka
til horfinna tíma, af nógu er að taka.
Greinist þar grátur.
Heyrist þar hlátur.
Undarleg blanda af eldi og klaka.
Ingólfur Ómar Ármannsson veltir vöngum yfir sjálfum sér:
Ungur dáði óðarkvak
unni Grími og Páli.
Nam ég þeirra tungutak
tært í bundnu máli.
Þó sé fær í flestan sjó
og fátt sem andann tálmar,
aldrei mun ég yrkja þó
eins og Bólu-Hjálmar.
Jón Jens Kristjánsson hefur orð á því að eldgos sé yfirvofandi og DV greinir frá hættu við eldun hrísgrjóna. Mikil firn eru þat:
Réttskipuð yfirvöld rýmingu buðu
og rák' upp úr Lóninu, það stendur autt
en hætta er mikil við hrísgrjóna suðu
hún er víst nærri því komin á rautt.
Erlingur Sigtryggsson yrkir:
Kvikan víst burtu hlaupið hefur.
Ég hygg nú við séum kvíðin um
að enn séu „á ferli úlfur og refur“
í einum og sama víðinum.
Öfugmælavísan:
Fljóta burtu flæðisker,
fljúga upp reyðarhvalir,
blágrýtið er blautt sem smér,
blý er hent í þjalir.