Hera Björk Þórhallsdóttir hlaut talsvert fleiri atkvæði en Bashar Murad á meðal almennings í Söngvakeppninni, en Murad fékk þó flest atkvæði í fyrri umferð. Fékk Murad einnig langflest atkvæði frá dómnefnd Söngvakeppninnar.
Í fyrri kosningu almennings varð Murad hlutskarpastur með ríflega 26 þúsund atkvæði. Þar á eftir komu VÆB, Hera Björk og Sigga Ózk með um 15 þúsund atkvæði hvert.
Frá dómnefnd Söngvakeppninnar fékk Murad ríflega 21 þúsund atkvæði, Hera og Sigga rúmlega 16 þúsund atkvæði hvor, Aníta tæplega 15 þúsund og VÆB tæplega 14 þúsund atkvæði.
Murad vann því fyrri umferðina með yfirburðum, eða rúmlega 47 þúsund atkvæðum á móti rúmlega 32 þúsund atkvæðum Heru Bjarkar.
Almenningur snerist hins vegar á sveif með Heru Björk í einvíginu og hlaut hún þar 68.768 atkvæði á sama tíma og Bashar Murad hlaut 49.832 atkvæði.
Lagið Scared of Heights vann því einvígið með 18.936 atkvæðum þegar aðeins almenningur kaus á milli laganna tveggja.
Samanlögð atkvæði beggja umferða, með atkvæðum dómara, skiptust þannig að Hera fékk 100.835 atkvæði og Bashar Murad 97.495 atkvæði.
RÚV sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að í seinni umferð kosninganna hefði fundist handvirk innsláttarvilla með sms-númerum beggja keppenda sem notuð voru þegar senda átti sms úr appinu yfir í kerfi símafélaganna. Því hefði hvorugt laganna fengið þau sms-atkvæði sem átti að senda úr appinu. Hafði það þó engin áhrif á lokaniðurstöðuna.