[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mörgum þingmönnum brá við atburðina í gær þegar aðgerðasinnar á þingpöllum tóku að gera hróp að þingheimi og einn þeirra fór yfir handriðið og virtist ætla að stökkva ofan í þingsalinn þar til hann var stöðvaður

Andrés Magnússon

Viðar Guðjónsson

Mörgum þingmönnum brá við atburðina í gær þegar aðgerðasinnar á þingpöllum tóku að gera hróp að þingheimi og einn þeirra fór yfir handriðið og virtist ætla að stökkva ofan í þingsalinn þar til hann var stöðvaður.

Morgunblaðið ræddi við nokkra þingmenn, þar á meðal dómsmálaráðherra, sem þar flutti frumvarp um breytta tilhögun hælisleitendamála.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra var í ræðustól og nýbyrjuð að mæla fyrir frumvarpi sínu um breytingar á útlendingalögum, en þrátt fyrir truflunina lét hún á engu bera og stóð áfram í ræðustóli þar til forseti Alþingis frestaði fundi meðan ró var komið á í þinghúsinu.

„Ég harma þetta atvik. Það hafa verið mótmæli við Alþingi í margar vikur og við höfum séð stigmögnun þeirra og þetta atvik er birtingarmynd þess,“ segir Guðrún í samtali við Morgunblaðið.

„Það sem stendur upp úr er aftur á móti að ég er afar sátt við að hafa mælt fyrir frumvarpinu um breytingar á útlendingalögum í dag. Ég er einnig sátt að heyra þann tón sem ég skynjaði hjá stjórnarandstöðunni í dag og það er ljóst að þingið er að vakna til lífsins um að nauðsynlegt er að gera breytingar í málaflokknum.“

Sigmar Guðmundsson óttaðist um aðgerðasinnann

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, segir að þingmenn hafi álitið talsverða hættu á ferðum og hafi óttast að aðgerðasinninn kynni að fara sér að voða, þar sem hann hafði uppi hróp um að hann myndi drepa sig og var kominn fram yfir handriðið á þingpöllum yfir þingsalnum.

„Ég skynjaði og skildi það þannig að þarna væri maður að setja sig í hættu og að hann hefði í hyggju að skaða sig,“ segir Sigmar.

Hildur Sverrisdóttir harmar aukinn ófrið

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, segir að öllum í þingsalnum hafi brugðið mjög við þennan atburð.

„Mín fyrstu viðbrögð voru að óttast um að maðurinn myndi meiðast en blessunarlega fór ekki illa. Það er vel hægt að hafa samúð með fólki sem finnur sig knúið til að grípa til ráða sem þessara en það auðvitað gengur ekki að öryggi þinghelginnar sé ekki tryggt.“

Hún segir að undanfarið hafi borið meira á atburðum í þessa veru, sem hafi því miður orðið til þess að lögregla telji þörf á meiri gæslu en áður.

„Það er líklegt að atburður sem þessi kalli á enn meiri gæslu sem er mikil synd. Hingað til höfum við getað átt lýðræðislegt samtal í samfélaginu með miklu aðgengi almennings og án þess að gera sömu ráðstafanir um öryggi og þekkist í stærri löndum.“

Berglind Ósk Guðmundsdóttir

Tók ekki eftir manninum

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sat beint undir handriði þingpalla, sem aðgerðasinninn klöngraðist yfir í þingsalnum í gær.

„Ég sat þarna beint fyrir neðan og tók þess vegna ekki eftir þessu,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

„Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem situr fyrir framan mig, varð þessa hins vegar vör og hún spratt á fætur og hélt í hliðarsalinn, svo ég fylgdi bara fordæmi hennar. Okkur var mjög brugðið og fórum þá að heyra hrópin og köllin, en sáum svo sem ekki neitt úr hliðarsalnum og áttum erfitt með að átta okkur á því hvað var að gerast.“

Maðurinn steig á brík utan við handriðið með þeirri afleiðingu að fjölin losnaði og féll niður í þingsalinn. Berglind segir að sér sýnist að sæti sitt hafi sloppið, en fjölin hafi mögulega fallið á mannlaust sæti sér til hægri handar og á ganginn inn að hliðarsalnum.

„Það er mikil mildi að þetta fór ekki verr og þetta lýsir mikilli örvæntingu, sem maður hefur auðvitað samúð með. En við verðum samt að geta sinnt okkar störfum hér á þeim lýðræðislega vettvangi sem Alþingi er,“ sagði Berglind Ósk að lokum.

Höf.: Andrés Magnússon