Hinum gætnu Þjóðverjum varð á í messunni og láku óviljandi hernaðarlega mikilvægum upplýsingum um leyndarmál bandamanna þeirra, Breta, um hugsanlegan flutning og notkun á eldflaugum innan Úkraínu.
Æðsti maður þýska flughersins, „Luftwaffe,“ og háttsettir foringjar í flughernum og hershöfðingi tóku þátt í samtali um það, hvernig breskir og franskir foringjar stæðu að því að koma sameiginlegum hátækniflaugum þeirra, „Storm Shadows,“ til hers Úkraínu.
Hann nefndi einnig að Bretar væru „þegar á staðnum,“ sem voru í meira lagi viðkvæmar upplýsingar og má minna á nýlegt uppnám sem Macron forseti Frakklands olli með hugmyndum sínum um einmitt þetta sama. Upptaka af þessum samtölum var birt af Ríkisútvarpi Rússa! Það fylgdi sögunni að æðstu menn í Kreml litu þetta ögrandi mál mjög alvarlegum augum. Í samtalinu ræddi Gerhartz hershöfðingi um þann kost að Úkraína fengi þýsku flaugarnar Taurus, sem væru bæði nákvæmari og langdrægari en fyrrnefndar flaugar.
Spurður um hvernig afhending á þessum vopnum mætti eiga sér stað sagðist hershöfðinginn vita hvernig Bretar bæru sig að og bætti við að Bretar hefðu nú þegar allmarga menn til staðar í Úkraínu!
Annar hershöfðingi til, sennilega Frank Graefe, ræddi um þjálfun Úkraínuhers í Þýskalandi og sagði: „Þegar Úkraínumenn hafa fengið sína þjálfun og eru tilbúnir til heimferðar er rétta verklagið að Bretar taki við þeim.“ En hann bætti svo við: „Hugsið ykkur uppnámið sem yrði, ef fjölmiðlar kæmust í þetta mál.“ En nú þurfa hvorki hann né aðrir borðalagðir að „hugsa sér“ neitt um það.